Þátttaka varnarliðsins í gerð þjóðvega
Fimmtudaginn 19. október 1989


     Flm. (Ásgeir Hannes Eiríksson):
    Hæstv. forseti. Ég fylgi úr hlaði till. til þál. um að Alþingi álykti að fela utanrrh. að kanna hvort varnarlið Bandaríkjanna á Íslandi og Mannvirkjasjóður Atlantshafsbandalagsins séu reiðubúin til að taka þátt í gerð þjóðvega hér á landi. Ráðherra skili Alþingi skýrslu um málið fyrir 1. nóv. 1990.
    Það er skemmst frá því að segja að þegar ein þjóð tekur að sér að vernda aðra þá má vernd hennar ekki ljúka við moldina sjálfa. Verndin hlýtur að þurfa að taka til fólksins í landinu, ekki síður en til landsins sjálfs. Hluti af þeim vörnum sem ég sé fyrir mér eru vegir. Vegir fyrir varnarliðið til þess að komast ferða sinna um landið, til þess að komast á milli stöðva sinna og þeirra svæða sem það hefur sínar varnarbækistöðvar á. Varnarlið þarf líka að geta komist á milli landshluta ef það slær í brýnu og við skyldum eiga yfir höfði okkar að fá innrásarlið í landið og vegir eru líka fyrir fólkið til þess að komast frá hættusvæðum ef vá er fyrir dyrum. Þannig eru vegir órjúfanlegur hluti af vörnum.
    Í till. þessari er gert ráð fyrir að rætt sé við Mannvirkjasjóðinn og varnarliðið um að þegar verði hafist handa við að leggja veg hringinn í kringum landið, tvöfaldar akreinar, og jafnframt verði alltaf valin stysta leið á milli byggða þannig að gerð verði göng í gegnum fjöll og múla eða undir langa firði þar sem því verður auðveldlega komið við. Göngin má síðan vel nota sem byrgi ef í harðbakkann slær, það má fela Almannavörnum að hafa þar viðbúnað fyrir fólkið í viðkomandi byggðarlögum, að leita skjóls ef til tíðinda dregur og svo hörmulega mundi vilja til að hér færu fram átök á styrjaldartímum.
    Á sínum tíma bauð bandaríski herinn að leggja tvöfalda akbraut frá Keflavíkurflugvelli og upp að olíustöðinni í Hvalfirði sem þá var hluti af þeirra hernaðarvígbúnaði hér á landi. Bandaríski herinn bauð líka að leggja tvöfalda akbraut frá Reykjavík til Akureyrar sem hluta af æfingarverkefni fyrir verkfræðingasveitirnar, að leggja vegi við svokallaðar heimskautaaðstæður.
    Bandaríski herinn hefur boðið ýmislegt fleira. Hann bauð að gera myndarlega höfn í Njarðvíkum, hann bauð á sínum tíma að kosta alla nýju flugstöðina, en öllum þessum atriðum höfnuðu Íslendingar. Þetta eru allt liðir sem lutu að vörnum landsins þar sem varnarliðið var tilbúið til þess að efla varnirnar, styrkja þær og auka þær í þágu þjóðarinnar sem það hefur tekið að sér að verja. Á sama tíma og þessu er hafnað þáðu Íslendingar hins vegar ýmsa aðra styrki, gjafir og ölmusu sem Bandaríkin og Atlantshafsbandalagið buðu upp á. Við erum sennilega eina þjóðin í Evrópu sem ekki varð hart úti í hernaðarátökum sem þáði Marshall-aðstoð sem var boðin til þess að reisa Evrópu úr þeim rústum sem hún var í, brunnir akrar, sviðin tún, borgirnar hrundar, fólkið ýmist fallið eða flúið. Marshall-aðstoðin laut að því að endurreisa Evrópu og Íslendingar þáðu í leiðinni sinn skerf af þessari aðstoð þó að landið væri

ekki í sárum eftir stríð. Við þáðum orkuverin við Laxárvirkjun og Sogsvirkjun og við þáðum Áburðarverksmiðjuna að stórum hluta og við þáðum fleira frá þeim í Marshall-aðstoðinni. Og meira að segja gekk það svo langt að við létum þá líka borga aðflutningsgjöldin af þessum tækjum og áhöldum sem þeir gáfu hingað. Þannig að ekki bara fengum við gjafirnar heldur urðu gjafirnar okkur líka stofn til þess að láta þá gefa okkur tollana. Síðan þáðum við aðstoð frá þeim sem var kölluð PL-480, Public Law 480, og var í því fólgin að í mörg ár fengum við gefins alla sekkjavöru frá Bandaríkjunum. Við fengum kornmat, við fengum tóbaksvörur. Andvirði þessara gjafa var síðan lagt í sjóð sem seinna varð Framkvæmdasjóður og starfar enn. Sá framkvæmdasjóður er því í raun og veru sprottinn af svita, blóði og tárum negranna á plantekrunum í Bandaríkjunum. Okkur þótti sæmandi að þiggja þessa aðstoð og þessar gjafir frá Bandaríkjunum þó þær ættu ekkert skylt við varnir landsins. Okkur þótti sæmandi að þiggja það en þegar Bandaríkin buðu að styrkja og efla varnirnar, þá var því umsvifalaust hafnað.
    Noregur er annað land í Atlantshafsbandalaginu og þar hafa verið reistir vegir fyrir milljarða og aftur milljarða sem Mannvirkjasjóður NATO, Bandaríkin og Kanada hafa kostað að verulegu leyti fyrir Norðmenn. Þetta sterka og mikla samgöngukerfi Norðmanna þjónar að sjálfsögðu íbúunum í dag, ekki síður en þeim herjum sem eru í landinu. Og ég hef aldrei heyrt nokkurn mann tala um að Norðmenn hafi selt sálu sína í þessu sambandi, að Norðmenn hafi selt landið. Norðmenn viðurkenna þetta af biturri reynslu því þeir tóku þátt í síðustu heimsstyrjöld. Þar brunnu eldarnir heitt, Norðmenn þurftu að berjast. Þeir skilja best þörfina fyrir greiðar samgöngur og þeir viðurkenna þetta sem hluta af þeim hernaðarviðbúnaði sem hægt er að búast við af einni þjóð sem tekur að sér að verja aðra.
    Sömu sögu er að segja um Portúgali, Tyrki, Grikki, jafnvel Spánverja. Þessar þjóðir hafa ekki látið sér nægja að fá peninga í vegaframkvæmdir heldur hefur
Atlantshafsbandalagið og Bandaríkin borgað þessum þjóðum stórfé fyrir að hafa herstöðvar í viðkomandi löndum. Nú heyri ég ekki talað um þessar þjóðir, hvorki í öðrum löndum eða veit ég til þess dæmi að það sé í umræðunni í þeim löndum sjálfum að þar sé verið að selja sálina, selja landið eða fjallkonuna eða þau tákn sem þeim eru helgust.
    Stundum hefur hugur kjósenda, fólksins, verið kannaður með skoðanakönnunum og nokkrum sinnum hefur verið spurt spurninga sem lúta að því sem þessi till. hér fjallar um. Þannig áttum við sem tókum þátt í prófkjöri Sjálfstfl. 1978 þess kost að svara spurningu sem hljóðaði svo: Eruð þér hlynntur því að varnarliðið taki þátt í þjóðvegagerð hér á landi?
    Það er skemmst frá því að segja að 7254 kjósendur Sjálfstfl. í Reykjavík svöruðu þessari spurningu játandi en aðeins 1510 voru á móti.
    Ég nefni þetta hér vegna þess að þessi till. er mín afmælisgjöf á 60 ára afmæli Sjálfstfl. til þess að

Sjálfstfl. fái í dag málefni sem hann getur óhikað sameinast um með traustan meiri hluta a.m.k. hér í Reykjavík og minni má gjöfin ekki vera frá gömlum Heimdellingi á afmælisári.
    Árið 1984 kannaði Öryggismálanefnd hug landsmanna til varnarliðsins, til Atlantshafsbandalagsins og til utanríkisstefnu okkar. Þar var ein spurning sem hljóðaði svo: Eruð þér hlynntur því að taka gjald fyrir herstöðina á Keflavíkurflugvelli? Þessi skoðanakönnun var unnin af nemendum Háskólans og Ólafur Þ. Harðarson stjórnaði henni. 69% kjósenda Alþfl. voru hlynntir því að taka beint gjald fyrir veru varnarliðsins, 67% kjósenda Framsfl. og 45% kjósenda Alþb. --- og er nú Hjörleifur minn illa fjarri góðu gamni --- þannig að það er 60% meiri hluti hjá stuðningsmönnum þessara þriggja stjórnarflokka fyrir því að taka beint gjald fyrir herstöðina, og er ég þá ekki að tala um að Mannvirkjasjóðurinn eða varnarliðið taki þátt í að leggja varnarmannvirki á borð við þjóðvegi, heldur er ég að tala um beint og hreint gjald.
    Og ekki má gleyma Sjálfstfl. í þessu sambandi því 67% kjósenda hans voru á sömu skoðun. Það er sem sagt margfaldur meiri hluti hjá þjóðinni fyrir því að taka beint gjald af Bandaríkjamönnum.
    Ekki hefur verið spurt um hvort menn séu sama sinnis um að Bandaríkjamenn og Mannvirkjasjóðurinn taki þátt í þjóðvegagerð en það kæmi mér ekki á óvart þó að hlutfallið væri ívið hærra. Vonandi fáum við fljótlega að sjá skoðanakönnun um það efni og ætti þetta að vera nokkur vísbending til þeirra örfáu hv. þm. sem hlýða á mál mitt um það hvert hugur kjósendanna stendur.
    Frú forseti. Það þarf víst ekki að taka það fram að það er slæmt ástand í atvinnumálum þjóðarinnar í dag. Við þurfum verkefni. Okkur stendur til boða álver ef við höldum rétt á spilunum. Okkur stendur til boða varaflugvöllur ef við höldum rétt á spilunum. Og sjálfsagt er að kanna með vegi, með stórkostlegar vegaframkvæmdir ef við höldum rétt á spilunum. Það mundi þá væntanlega draga úr því atvinnuleysi sem hér er, það mundi væntanleg fækka gjaldþrotum og það mundi væntanlega draga úr þeirri óhamingju og þeim kvíða sem einkennir því miður allt of mörg heimili þar sem vinnufúsar hendur komast ekki til vinnu vegna þess atvinnuleysis sem við sjáum því miður alls ekki fyrir endann á.
    Að svo mæltu mæli ég með að vísa þessari till. til 2. umr. og utanrmn.