Ferðamál
Þriðjudaginn 17. október 1989


     Karvel Pálmason:
    Herra forseti. Ekki voru mín orð neitt ætluð á þann veg, hv. þm. Guðrún Agnarsdóttir, að það væri verið að skammast að einu eða öðru leyti. Ég vakti bara athygli á því að þetta var í því samhengi eftir ferð Kvennalistans í sumar í góðu veðri, þá höfðu þær þessa skoðun. Og ég fagna því að það fjölgar í þeim hópi þingmanna sem telja nauðsyn á því að breyta til hins betra frá því sem hefur verið að því er varðar landsbyggðina af hálfu stjórnvalda.
    Auðvitað þarf pólitískt hugrekki og það þarf líka pólitískt hugrekki til þess að takast á við vandann. Það pólitíska hugrekki hefur Kvennalistann skort allt frá fyrstu tíð. Þar hefur ekki verið pólitískt hugrekki til þess að taka á þeim vanda sem við er að glíma að því er varðar atvinnumálin, að því er varðar efnahagsmálin, að því er varðar þjóðmálin sem heild. Ég tel að stjórnmálaflokkar, stjórnmálaöfl, sem gefa kost á sér til þess að þjónusta almenning hljóti líka að taka að sér skyldur til þess að reyna að hafa áhrif á mál, á framkvæmdarvaldið, á stjórnvöld og taka að sér verkefni til framkvæmda. Í mínum huga hafa kvennalistakonur skotið sér undan þessu verkefni, en ég heyri að hv. þm. Guðmundur H. Garðarsson tekur mjög upp hanskann fyrir þær konur og eðlilega kannski. ( StG: Það er mjög eðlilegt.) Já, það er mjög eðlilegt, ég tek undir það, Stefán Guðmundsson, það er mjög eðlilegt. En ég er þeirrar skoðunar að kvennalistakonur hafi skotið sér undan þeirri ábyrgð sem þær eiga að bera í stjórnmálum, ekki bara einu sinni heldur margoft. Þar vantar hið pólitíska hugrekki eins og í hinu líka þannig að í því tilviki fer þetta saman.