Forsætisráðherra (Steingrímur Hermannsson):
    Virðulegi forseti, góðir Íslendingar. Þegar ríkisstjórn Framsfl., Alþfl., Alþb. og Samtaka jafnréttis og félagshyggju tók við stjórn landsins 28. sept. fyrir rúmu ári var spáð miklum erfiðleikum í íslensku efnahags- og atvinnulífi. Þá hafði á vegum fyrri ríkisstjórnar starfað efnahagsnefnd, skipuð fyrst og fremst fulltrúum atvinnuveganna. Hún kvað útflutnings- og samkeppnisgreinarnar að þrotum komnar og lagði til róttækar efnahagsaðgerðir sem fólust í niðurfærslu verðlags og launa. Samtök fiskvinnslunnar lýstu því yfir að fyrirtækin væru að stöðvast og fullyrtu að 15% gengisfelling a.m.k. og án tafar væri nauðsynleg til þess að koma í veg fyrir slíkt. Verslunarráð spáði a.m.k. 5000 manns atvinnulausum upp úr áramótum og Félag ísl. iðnrekenda taldi að atvinnuleysi yrði enn meira. Allir þekkja stöðugar hrakspár stjórnarandstöðunnar og háværar kröfur um miklar gengisfellingar. Ríkisstjórnin hafnaði nýrri óðaverðbólgu og nýrri kollsteypu. Ríkisstjórnin ákvað að freista þess að vinna þjóðarbúið í áföngum en markvisst út úr erfiðleikunum með fjölþættum aðgerðum á ýmsum sviðum útflutnings- og samkeppnisatvinnuveganna.
    Með stofnun Atvinnutryggingarsjóðs útflutningsgreina var ráðist í þá víðtækustu skuldbreytingu sem gerð hefur verið. Hefur nú 5,4 milljörðum kr. verið skuldbreytt eða lánað til hagræðingar. Þannig hafa lán verið lengd, vanskilum komið í skil og vextir lækkaðir verulega. Hlutabréfasjóði Byggðastofnunar hefur tekist að tryggja að u.þ.b. 600 millj. kr. verði breytt úr skuldum í hlutafé hjá þeim útflutningsfyrirtækjum sem verst voru stödd.
    Rétt er að taka fram að Byggðastofnun, ríkissjóður og af bönkunum ekki síst Landsbanki Íslands hafa tekið mikinn þátt í þessari fjárhagslegu endurskipulagningu.
    Úr Verðjöfnunarsjóði fiskiðnaðarins hefur verið greidd sérstök aðstoð til frystingar og er gert ráð fyrir að svo verði út þetta ár.
    Auk slíkra aðgerða hefur ríkisstjórnin markvisst leiðrétt raungengi hinnar íslensku krónu sem var orðið of hátt. Á mælikvarða verðlags hækkaði raungengið um 5,2% árið 1988 en mun á þessu ári lækka um a.m.k. 5,9% og verður þá orðið heldur lægra en á árinu 1987. Á mælikvarða launa hefur raungengi lækkað um 13,4% og er það rúmum 5% lægra en var 1987.
    Mjög mikill fjármagnskostnaður hefur síðustu árin verið eitt erfiðasta vandamál íslenskra atvinnuvega. Á árinu 1988 voru meðalvextir útlána í bönkum og sparisjóðum 10% umfram verðtryggingu og höfðu því meira en tvöfaldast frá árinu 1986. Heildarútlán voru í árslok 1988 um 360 milljarðar kr. Innlendur hluti þessara útlána nam um 220 milljörðum kr. Að teknu tilliti til lægri vaxta á einstökum lánaflokkum, t.d. húsnæðislánum, var arðtaka þessara útlána u.þ.b. 20 milljarðar kr. umfram verðtryggingu. Þess ber þó að

gæta að á fastgengistímanum 1987--1988 fengu útflutnings- og samkeppnisgreinarnar ekki verðtrygginguna bætta nema að hluta og báru því í raun enn hærri vexti af innlendum lánum. Ríkisstjórnin taldi afar nauðsynlegt að lækka þessa háu raunvexti. Í því skyni voru vextir af spariskírteinum ríkissjóðs lækkaðir í 6% og Seðlabankanum var falið að koma raunvöxtum í bönkum og sparisjóðum í 7% af útlánum. Þetta hefur ekki að öllu leyti tekist enn. Raunvextir hafa þó lækkað að mati Seðlabanka Íslands úr 10% í u.þ.b. 8% sem þýðir að sjálfsögðu umtalsverða lækkun fjármagnskostnaðar. Í byrjun ársins var grunnur lánskjaravísitölunnar jafnframt lagfærður til nánara samræmis við breytingar á verðlagi og launum. Hefur það leitt til lækkunar á fjármagnskostnaði sem á heilu ári svarar til allt að 4% raunvaxtalækkunar við núverandi aðstæður. Raunvextir óverðtryggðra lána hafa hins vegar sveiflast mjög og á undanförnum mánuðum iðulega verið óhóflega háir.
    Þrátt fyrir verulegan samdrátt í landsframleiðslu hafa ofangreindar aðgerðir borið mikinn og jákvæðan árangur. Engar þær hrakspár sem ég rakti í upphafi míns máls hafa ræst. Þótt atvinnuleysi hafi aukist nokkuð hefur það ekki orðið nema brot af því sem spáð var. Mjög fá fiskvinnslufyrirtæki hafa stöðvast enda hefur afkoman batnað verulega fyrir aðgerðir stjórnvalda. Vöruskipti eru talin munu verða jákvæð á þessu ári um nálægt 5 milljarða kr. eftir tvö hallaár og þrátt fyrir mikla hækkun á vaxtagreiðslum samfara hækkun erlendra skulda, sem er m.a. afleiðing af mikilli lækkun á gengi krónunnar, hefur dregið verulega úr viðskiptahalla. Hann var 3,7% á sl. ári en er talinn á þessu ári verða 2,9% eða jafnvel lægri. Á þessu ári vega þó flugvélakaup Flugleiða þungt. Þetta er mikilsverður árangur, ekki síst í ljósi þess að hann næst á samdráttartímum í þjóðarbúskapnum sem er nánast einsdæmi.
    Þrátt fyrir mikla lækkun gengis hefur tekist að halda verðhækkunum í skefjum. Mun verðbólga á þessu ári verða nánast sú sama og á sl. ári. Er það einnig ólíkt fyrri samdráttarskeiðum því oftast hefur sigið á ógæfuhliðina að því er varðar verðbólgu og sömuleiðis viðskiptahalla við slíkar aðstæður. Þessi árangur í átt til jafnvægis við hin erfiðu ytri skilyrði mun skapa forsendur fyrir miklum og verulegum árangri í baráttunni við verðbólguna á
næsta ári.
    Úr tekjuhalla ríkissjóðs hefur dregið. Hann mun á þessu ári verða um 1,8% vergrar landsframleiðslu í stað 2,8% á sl. ári.
    Jafnvægi á milli inn- og útlána í peningakerfinu hefur batnað. Innlán hafa aukist umfram hækkun lánskjaravísitölu en raunhækkun útlána hins vegar orðið engin þrátt fyrir nokkra lækkun vaxta.
    Þrátt fyrir erfiða varnarbaráttu hefur tekist ekki aðeins að verja velferðarkerfið heldur bæta og auka það á ýmsum sviðum. Sem dæmi vil ég nefna hlutfallslega bætta aðstöðu aldraðra og þroskaheftra og að raunvirði aukin framlög til menningarmála.
    Á þessu ári er talið að landsframleiðsla verði um

3% minni en á sl. ári. Lækkun þjóðartekna og erfiðri stöðu atvinnuveganna fylgir að kaupmáttur atvinnutekna mun lækka á árinu um 6--7%. Í þessu sambandi er nauðsynlegt að vekja athygli á því að á árinu 1988 var hlutur launa orðinn u.þ.b. 72% af þáttatekjum þjóðartekna og hafði hækkað úr 65% árið 1986 sem er talið hóflegt. Í ár er talið að hlutur launa lækki í u.þ.b. 70%.
    Verðmæti fiskaflans á föstu verðlagi mun lækka á þessu ári um 3,5%. Þetta veldur að sjálfsögðu erfiðleikum í sjávarútvegi sem hefur verið mætt með ýmsum aðgerðum sem ég hef rakið. Í verslun og þjónustu gætir samdráttarins mjög og fjármagnskostnaður er afar mikill, m.a. vegna mikilla fjárfestinga á undanförnum árum. Erfiðleikar í loðdýrarækt og fiskeldi eru og mikið áfall fyrir þjóðarbúið. En þótt tekist hafi við þessar erfiðu aðstæður að afstýra því hruni sem spáð var eru erfiðleikarnir ekki um garð gengnir. Hafrannsóknastofnun leggur enn áherslu á að dregið verði úr þorskveiðum. Í þjóðhagsáætlun er á því byggt að samdráttur í aflaverðmæti á næsta ári verði um 6--7% og um 1,5% í landsframleiðslu. Þetta verður þá orðið lengsta samdráttarskeið í sögu þjóðarinnar frá árunum 1949--1952. Aðgæsla og aðhald ásamt ýmsum aðgerðum sem treysta stöðu atvinnuveganna og atvinnulífsins almennt eru því áfram nauðsynlegar.
    Samstarfsflokkar að fyrri ríkisstjórn töldu því rétt að leita leiða til að styrkja ríkisstjórnina. Ákveðið var að ræða við Borgfl. um stjórnarþátttöku. Þær viðræður stóðu í sumar með nokkrum hléum og leiddu að lokum til þess að mynduð var 10. sept. sl. ríkisstjórn Framsfl., Alþfl., Alþb. og Borgfl. með stuðningi Samtaka jafnréttis og félagshyggju.
    Hin nýja ríkisstjórn byggir í grundvallaratriðum á málefnasáttmála fyrri ríkisstjórnar en með sérstakri áherslu á að snúa samdrætti í vöxt, lækka framfærslukostnað, draga úr fjármagnskostnaði og bæta umhverfið. Ríkisstjórnin mun leggja áherslu á batnandi afkomu atvinnuveganna og stuðla þannig að því að atvinnuástand í landinu verði viðunandi. Gengi íslensku krónunnar mun því verða skráð með tilliti til rekstrarafkomu útflutnings- og samkeppnisgreina og með hliðsjón af viðskiptajöfnuði við útlönd. Ef sú fiskverðshækkun sem varð 1. okt. sl. og þær launahækkanir sem eru fram undan og lok greiðslna úr Verðjöfnunarsjóði fást ekki bættar með hækkun á verði sjávarafurða erlendis er líklegt að enn þurfi að lækka nokkuð raungengi íslensku krónunnar. Um leið er þó óhjákvæmilegt að gera kröfu til atvinnulífsins sjálfs um endurskipulagningu og aukna hagkvæmni. Í því felst að atvinnuvegirnir verða að búa sig undir að geta starfað með arðbærum hætti við þau almennu skilyrði sem nú eru í sjónmáli.
    Skuldbreytingu í gegnum Atvinnutryggingarsjóð útflutningsgreina og eiginfjáraukningu fyrir tilstuðlan Hlutafjársjóðs Byggðastofnunar mun verða lokið um næstu áramót enda er þeim tilgangi náð sem til var stofnað. Hins vegar mun ríkisstjórnin beita sér fyrir öðrum almennum aðgerðum til þess að bæta afkomu

atvinnulífsins.
    Á sviði sjávarútvegs vil ég nefna að fljótlega mun verða lagt fram frv. á Alþingi um úreldingarsjóð fiskiskipa. Með því er ætlað að fækka fiskiskipum en auka aflaheimildir og bæta rekstrargrundvöll þeirra skipa sem eftir verða í flotanum.
    Á þessu þingi mun einnig verða lagt fram frv. sem ætlað er að draga úr útflutningi á óunnum fiski. Með því er að því stefnt að bæta afkomu fiskvinnslunnar og auka atvinnu innan lands.
    Lagt verður fram frv. til laga um sérstaka þróunardeild við Fiskveiðasjóð sem veitir styrki og lán til ýmissa nýjunga og markaðssetningar sjávarafurða. Af hálfu Ríkismats sjávarafurða er gert ráð fyrir að hrinda í framkvæmd sérstöku gæðaátaki í sjávarútvegi. Þá er gert ráð fyrir að setja uppboðsmörkuðum varanlegan lagagrundvöll.
    Að endurskoðun fiskveiðistefnunnar er ötullega unnið. Að því mikilvæga verki koma bæði fulltrúar hagsmunaaðila og stjórnmálaflokkanna. Áhersla er lögð á að tryggja öllum byggðum landsins aðgang að auðlindum hafsins en jafnframt nauðsynlega stjórnun og vernd fiskistofnanna. Auðlindaskattur er ekki á stefnu þessarar ríkisstjórnar.
    Á grundvelli búvörulaga frá 1985 og búvörusamnings hefur þegar náðst jafnvægi í framleiðslu mjólkurafurða. Svo er hins vegar ekki í kjötframleiðslunni. Því eru hafnar viðræður við fulltrúa bænda um breytingar á
búvörusamningi sem tryggir betur en verið hefur að þolanlegu jafnvægi verði náð, einnig í kjötframleiðslunni, þegar búvörusamningurinn fellur úr gildi 1992. Er hér um mikið hagsmunamál að ræða, bæði fyrir bændur og þjóðarbúið almennt.
    Samkeppnisiðnaðurinn hefur notið góðs af lækkun raungengis. Því verður þó ekki neitað að samkeppni við háþróaða erlenda fjöldaframleiðslu hefur á mörgum sviðum reynst erfið. Á þessum opna alþjóðlega markaði sem íslenskur iðnaður starfar nú er afar nauðsynlegt að fylgjast með því að ekki sé erlendis beitt beinum eða óbeinum stuðningsaðgerðum sem hlýtur þá að krefjast mótaðgerða okkar Íslendinga. Sömuleiðis er nauðsynlegt að standa á verði gegn undirboðum og hvers konar öðrum óeðlilegum viðskiptaháttum.
    Ullariðnaðurinn hefur verið endurskipulagður með verulegum opinberum stuðningi og er þess vænst að hann reynist nú samkeppnisfær á erlendum mörkuðum.
    Á vegum iðnrn. og Iðntæknistofnunar er unnið að vöruþróunarverkefnum, ekki síst á sviðum þar sem Ísland hefur sérstöðu t.d. í tengslum við sjávarútveg.
    Gert er ráð fyrir að fljótlega ljúki viðræðum við erlenda aðila um stækkun álversins í Straumsvík. Ef viðunandi samningar nást, m.a. um orkuverð, getur sú framkvæmd og þær virkjanir sem munu fylgja skipt miklu í því erfiða atvinnuástandi sem gera má ráð fyrir, ekki síst hér suðvestanlands. Áætla má að bygging álvers með 120 þús. tonna framleiðslugetu á ári yki hagvöxtinn um 1% á ári að meðaltali á tímabilinu 1990--1994 og yki atvinnu um 0,5%. Í því

ástandi þjóðarbúsins sem nú er er nauðsynlegt að skoða þennan kost vandlega.
    Á sviði verslunar og þjónustu má gera ráð fyrir umtalsverðum erfiðleikum á árinu 1990. Sá samdráttur sem orðið hefur í sjávarútvegi, minnkandi kaupmáttur og óarðbær fjárfesting á undanförnum þensluárum fellur nú með fullum þunga á þessar greinar. Við því er lítið unnt að gera af opinberri hálfu. Hins vegar er jákvæð sú viðleitni fjölmargra atvinnurekenda á þessum sviðum að ná aukinni hagkvæmni með samruna fyrirtækja og hagræðingu. Það er skoðun margra sem þessi mál þekkja vel að upp úr þessum erfiðleikum muni rísa heilbrigðari og sterkari verslunar- og þjónustustarfsemi.
    Vegna þess mikla samdráttar sem orðinn verður eftir þrjú slík ár í röð er líklegt að atvinnuástand muni versna á næsta ári. Telur Þjóðhagsstofnun að atvinnuleysi geti aukist úr u.þ.b. 1,6% atvinnubærra manna á þessu ári í 2,3% að meðaltali á næsta ári. Ef svo reynist mun ríkisstjórnin í samráði við aðila vinnumarkaðarins skoða allar skynsamlegar og viðráðanlegar leiðir til þess að draga úr atvinnuleysi. Í því skyni er þegar starfandi samstarfsnefnd þessara aðila og stjórnvalda.
    Miðað við minnkandi þjóðartekjur verður ekki hjá því komist að kaupmáttur launa falli enn. Auk þess, eins og fyrr segir, eru heildarlaunagreiðslur í þjóðfélaginu hærra hlutfall þjóðartekna en atvinnulífið fær borið. Ríkisstjórnin mun með lækkun framfærslukostnaðar leitast við að mæta erfiðleikum þeim sem þetta skapar heimilum í landinu. Því hefur verið ákveðið að virðisaukaskattur sá, sem kemur til framkvæmda um nk. áramót, verði 13% af
nauðsynlegustu innlendum matvælum, mjólk, kjöti, grænmeti og fiski, eða hálfu lægri en af öðru sem skattskylt verður. Jafnframt er í athugun hvort koma megi við samsvarandi raunlækkun skattsins á gróf brauð. Einnig mun ríkisstjórnin athuga hvort unnt er að greiða húsaleigubætur til þeirra sem lægri hafa launin og búa í leiguhúsnæði. Þótt fjármagnskostnaður hafi lækkað nokkuð á þessu ári er hann enn afar erfiður atvinnulífinu og ýmsum einstaklingum.
    Þegar því er haldið fram að raunvextir hér á landi séu svipaðir og erlendis er nauðsynlegt að hafa í huga að atvinnuvegirnir hér eru almennt langtum skuldsettari en gerist víðast hvar annars staðar. Fjármagnskostnaðurinn verður því að sjálfsögðu því meiri. Samkvæmt upplýsingum frá Seðlabanka Íslands er vaxtamunur hér 7--8% sem mun vera tvöfalt eða þrefalt meiri vaxtamunur en tíðkast erlendis. Innlánsvextir eru sömuleiðis að meðaltali hærri en almennt þekkist. Af þessum ástæðum hefur reynst erfitt að þrýsta útlánsvöxtunum niður.
    Til þess að gera viðskiptabönkum kleift að lækka vexti umtalsvert er nauðsynlegt að leggja áhverslu á hagræðingu í bankakerfinu. Að því er stefnt með sameiningu banka og ítarlegri athugun einstakra banka á eigin rekstri. Þá kröfu verður jafnframt að gera til Seðlabanka Íslands að hann gegni því forustuhlutverki sem honum er ætlað á peningamarkaðnum og stuðli

að hagkvæmari rekstri og lækkun raunvaxta.
    Eins og fyrr segir reið ríkissjóður á vaðið sl. vor og lækkaði vexti á spariskírteinum í 6%. Frekari lækkun vaxta á vegum ríkissjóðs er í athugun, enda lækki almennir vextir bankakerfisins í kjölfarið.
    Á næstu árum mun hið íslenska peningakerfi í vaxandi mæli tengjast peningakerfum Evrópulandanna. Til þess að það geti gerst er nauðsynlegt að það þróist til samræmis við það sem þar tíðkast. Vaxtamunur og hagkvæmni verður t.d. að vera sambærilegt. Ísland er eina landið sem býr við verðtryggingu fjármagns. Ríkisstjórnin hefur ákveðið að afnema þá verðtryggingu og sjálfvirkar viðmiðanir hvers konar. Verður það gert þegar verðbólga á sex
mánaða mælikvarða er orðin um eða undir 10%. Er þess vænst að svo geti orðið á seinni hluta ársins 1990.
    Þegar til lengri tíma er litið mun hreint og ómengað umhverfi reynast einhver mesti fjársjóður þessarar þjóðar. Á það vill ríkisstjórnin leggja áherslu með því að leggja fram á Alþingi á ný frv. til laga um sérstakt ráðuneyti umhverfismála. Er gert ráð fyrir að slíku umhverfisráðuneyti verði komið á fót strax í upphafi næsta árs.
    Jafnframt er í athugun á hvern máta megi hagræða í Stjórnarráðinu sjálfu. Í því skyni eru stjórnarflokkarnir sammála um að flytja verkefni á milli ráðuneyta og fella saman þannig að hámarkshagræðingar sé gætt. Gert er ráð fyrir að þetta geti leitt til fækkunar ráðuneyta úr 13 í 11.
    Við undirbúning fjárlagafrv. fyrir árið 1990 hefur verið gerð ítarleg úttekt á ríkisrekstrinum. Komið hefur m.a. í ljós að á undanförnum árum hafa útgjöld vaxið langtum hraðar en tekjur og má segja að innbyggður halli sé orðinn á ríkissjóði. Ríkisstjórnin telur að jöfnuði í ríkisrekstrinum verði ekki náð nema á tveimur til þremur árum. Það fjárlagafrv. sem nú er lagt fram gerir því ráð fyrir u.þ.b. þriggja milljarða kr. halla. Það telur ríkisstjórnin verjanlegt á því samdráttarskeiði sem nú er. Við gerð fjárlagafrv. hafa verið gerðar ýmsar róttækar breytingar og lagfæringar bæði á tekju- og útgjaldahlið.
    Hlutfalli skatta af þjóðartekjum verður haldið óbreyttu, um 26,5--27% af landsframleiðslu. Að sjálfsögðu þýðir þetta minni tekjur fyrir ríkissjóð vegna lækkunar á landsframleiðslu. Hins vegar er gert ráð fyrir ýmsum lagfæringum og tilfærslum í skattakerfinu sem m.a. munu stuðla að lækkun á verði matvæla og um leið á framfærslukostnaði heimilanna. Tekjuskattskerfið allt mun verða tekið til athugunar með meiri jöfnuð að markmiði þótt vafasamt sé að það geti komið til framkvæmda á næsta ári.
    Á útgjaldahlið er gert ráð fyrir verulegum sparnaði á ýmsum sviðum hins opinbera reksturs. Ekki mun með því vera dregið úr velferðarkerfi því sem okkur Íslendingum hefur tekist að byggja upp heldur er um að ræða margvíslega hagræðingu og sparnað. Umbætur í félagsmálum, heilbrigðis- og tryggingamálum og menntamálum eru í stöðugri athugun. Markmiðið er að bæta og auka hagkvæmni og skilvirkni um leið og

dregið er úr kostnaði.
    Á þessu haustþingi mun verða lagt fram frv. til fjáraukalaga fyrir árið 1989 og er þar um góða nýbreytni að ræða. Jafnframt er gert ráð fyrir að leggja fram áætlun um þróun ríkisfjármála næstu þrjú árin. Með því er ætlunin að skapa meiri framsýni og festu í þjóðarbúskapnum sem er að sjálfsögðu einnig afar mikilvægt.
    Við Íslendingar nálgumst nú botninn á þessu samdráttarskeiði. Þá mun vörn verða snúið í sókn. Þá mun vöxtur þjóðarbúsins hefjast á ný. Ekki er síður mikilvægt að vel sé að því staðið en að vörninni á samdráttartíma. Satt að segja hefur okkur oft gengið erfiðlega að stjórna okkar málum á vaxtartímum.
    Þótt athuganir Hafrannsóknastofnunar bendi ekki til þess að fram undan séu sterkir árgangar nytjafiska má ætla að þessu samdráttarskeiði í sjávarútvegi ljúki á næsta ári og þá geti hafist hægfara aukning afla. Samkvæmt þeim spám er árleg aflaaukning þó lítil og því sá hagvöxtur sem af henni leiðir töluvert minni en t.d. er spáð að meðaltali í löndum Vestur-Evrópu.
    Af þessum ástæðum er afar nauðsynlegt að leitað verði einnig annarra leiða til að auka hagvöxtinn. Það verkefni hefur ríkisstjórnin þegar hafið.
    Í landinu býr mikil þekking t.d. á sviði sjávarútvegs og alls þess sem sjávarútveginum tengist, svo sem skipasmíðar, gerð veiðarfæra og vélbúnaðar hvers konar. Íslensk fyrirtæki hafa þróað hátæknibúnað sem gjörbreytt hefur vinnslu sjávarafurða. Með samstilltu átaki og réttri markaðssetningu getur þetta orðið grundvöllur mikils útflutnings.
    Fiskeldið sem við hafa verið bundnar miklar vonir hefur átt í óvæntum erfiðleikum. Þeir stafa að hluta af lækkun verðs erlendis, en einnig og ekki síður af gífurlegum fjármagnskostnaði. Enginn dregur þó í efa að við þá ágætu aðstöðu sem hér er, með heitu vatni og hreinu, verði fiskeldið fyrr eða síðar mjög mikilvæg atvinnugrein. Ríkisstjórnin hefur gert fjölmargt til þess að stuðla að vexti og viðgangi fiskeldis og mun halda því áfram.
    Orka sú sem í fallvötnunum býr mun með hverju ári verða okkur Íslendingum dýrmætari því orkuverð mun fara hækkandi erlendis. Hún getur því í vaxandi mæli orðið grundvöllur að mikilvægri framleiðslu. Könnunum á því sviði mun verða haldið áfram.
    Ég hef áður sagt að hreint umhverfi geti orðið mesti fjársjóður þessarar þjóðar. Á því sviði er að vísu ýmsu ábótavant en úr því má enn þá bæta. Hreint umhverfi, hreint loft og vatn og góð ómenguð fæða mun draga að vaxandi fjölda ferðamanna. Þeim fer reyndar ört fjölgandi, ekki síst íbúum stórborganna, sem leita hollustu, bæði andlegrar og líkamlegrar. Það getum við boðið. Slíkum ferðamönnum fer fjölgandi sem koma hingað til lands. Athyglisverð er mikil fjölgun þeirra sem árlega gista íslensk bændaheimili. Sú ferðaþjónusta er mjög rómuð og hefur vaxið hröðum skrefum. Sama er að segja, til að nefna dæmi, um þann mikla fjölda ferðamanna sem árlega sækir í hestaferðir um hálendi
landsins og býður birginn veðri og vindum, svo

eitthvað sé nefnt.
    Erlendir sérfræðingar halda því fram að auðvelt sé að margfalda þann fjölda ferðamanna sem hingað sækir ár hvert eftir kyrrð, útivist og heilsubót. Í því sambandi er tvennt mikilvægast. Í fyrsta lagi er nauðsynlegt að þróa slíka þjónustu skipulega og markvisst og án óðagots og offjárfestingar. Í öðru lagi er nauðsynlegt að kynna þá ímynd landsins að það sé hreint og ómengað og þjóðin heilbrigð. Reyndar mun, ef tekst að festa slíka ímynd í huga erlendra manna, það reynast hvað mikilvægast fyrir sölu afurða okkar á erlendum mörkuðum. Í vaxandi mæli er áhersla lögð á gæði og ómenguð matvæli. Fyrst og fremst eigum við Íslendingar þó að læra að nota þennan fjársjóð sem við eigum og nýta hann sjálf til betra lífs. Fleira er auður en það sem í krónum er talið.
    Enginn þarf að efast um að framtíðarkostir þessarar þjóðar eru stórkostlegir. Hitt er staðreynd, eins og fyrr segir, að okkur Íslendingum hefur sjaldan eða aldrei tekist að ráða okkar eigin málum vel á uppgangstímum. Því eru nokkur undirstöðuatriði nauðsynleg þegar vörn er lokið og sókn til bættra lífskjara hefst.
    Í fyrsta lagi er nauðsynlegt að atvinnuvegirnir hafi viðunandi hagnað. Þá geta þeir lækkað sínar skuldir og tryggt atvinnu, en jafnframt fjárfest í hófi og treyst þannig bæði hagvöxtinn og atvinnuöryggið.
    Í öðru lagi má verðbólga alls ekki vaxa á ný. Við Íslendingar verðum í vonlausri stöðu í hinu opna samstarfi þjóðanna, jafnvel þótt verðbólga hér væri aðeins lítillega meiri en hjá samkeppnis- og samstarfsþjóðum okkar. Ég leyfi mér að taka svo djúpt í árinni að allt mun reynast unnið fyrir gýg ef ekki tekst að hemja verðbólguna.
    Í þriðja lagi vil ég leggja áherslu á að fjármagnskostnaður verður að lækka enn. Því verða bæði vextir og skuldir fyrirtækjanna að lækka og erlendar skuldir þjóðarinnar. Þær munu aukast á þessu ári, ekki síst vegna mikillar lækkunar á gengi íslensku krónunnar, en þær munu lækka ört á næstu árum ef jafnvægi skapast, verðbólga er lítil og við eyðum ekki umfram efni.
    Slík atriði sem ég hef nú rakið mun ríkisstjórnin hafa að leiðarljósi. Hún mun í því sambandi treysta á samstarf við aðila vinnumarkaðarins, bæði launþega og vinnuveitendur. Sameinuð getur íslenska þjóðin gert hvað sem nauðsynlegt er.
    Óðum dregur að því að lönd Fríverslunarbandalagsins og lönd Evrópubandalagsins setjist niður og ákveði hvernig þeirra tengsl skuli verða. Enginn efast lengur um það að í Vestur-Evrópu er að myndast afar voldug og mikilvæg ríkjasamsteypa. Engin þjóð á þessu svæði getur einangrað sig frá þeirri þróun. Það getum við Íslendingar ekki, til þess erum við allt of háðir Vestur-Evrópulöndunum, m.a. markaðslega.
    Þeir stjórnmálaflokkar sem að núv. ríkisstjórn standa telja fulla aðild að Evrópubandalaginu ekki koma til greina fyrir okkur Íslendinga. Samkvæmt

grundvallarsáttmála bandalagsins fylgir fullri aðild afsal yfirráða yfir náttúruauðlindum til lands og sjávar. Það þolir íslenskt sjálfstæði ekki. Í raun er ég sannfærður um að full aðild muni reynast óþörf. Ég tel að við getum náð fram þeim kostum sem við kjósum helsta án fullrar aðildar. Viðræður við fjölmarga forustumenn Evrópubandalagsins gefa eindregið til kynna mikinn skilning á sérstöðu okkar. Sú sérstaða felst m.a. í fábrotnum atvinnuvegum, fámenni þjóðarinnar og fjarlægð landsins frá höfuðstöðvum hinnar nýju ríkjasamsteypu.
    Í þessu sambandi er rétt að hafa í huga að eftir leiðtogafundinn í Osló hefur þeirri skoðun mjög vaxið fylgi að stefna beri að svonefndri tveggja stoða lausn þar sem stoðirnar tvær í Vestur-Evrópu verði EB-ríkin annars vegar og EFTA-ríkin hins vegar, sem bindist samningum um náið samstarf á fjölmörgum sviðum en án samruna. Þá er mikilvægast fyrir okkur Íslendinga að frjáls verslun verði með fisk og yfirþjóðlegar stofnanir verði engar innan EFTA.
    Óþarft er að hræðast það sem fram undan er. Við getum gengið hiklaust til viðræðna og samninga um frambúðartengsl Íslands og Evrópubandalagsins, með samræmingu á ýmsum sviðum og samstarf á öðrum sviðum að markmiði. Mikilvægast er að við stöndum saman. Á það mun ríkisstjórnin leggja höfuðáherslu, m.a. með því að stofna til ítarlegrar umræðu hér á Alþingi um þessi mál 23. nóv. nk.
    Góðir Íslendingar. Hér á landi hefur ekki verið áður samstarf fimm stjórnmálaflokka og samtaka um ríkisstjórn. Þeir flokkar sem að ríkisstjórninni standa hafa vissulega ólíkar skoðanir á mörgum mikilvægum málaflokkum. Þeir eru hins vegar allir félagshyggjuflokkar. Þeir leggja áherslu á jafnræði með landsmönnum og vilja standa vörð um velferðarkerfið. Þeir hafa sameinast um að vinna þjóðina út úr þeim erfiðleikum sem samdrátturinn veldur og eru ákveðnir í að ýta úr vör á nýja framfarabraut.
    Stjórnarandstaðan finnur að vísu þessari ríkisstjórn allt til foráttu. Stjórnarflokkarnir láta sér það í léttu rúmi liggja. Þeir leggja höfuðáherslu á að ná samstöðu með þjóðinni um þau erfiðu mál en mikilvægu sem fram undan eru. --- Ég þakka þeim sem hlýddu.