Þorsteinn Pálsson:
    Frú forseti. Góðir Íslendingar. Lokaorðin í ræðu hæstv. forsrh. lýsa því vel hversu hann og ríkisstjórnin eru með öllu slitin úr tengslum við fólkið í landinu. Forsrh. kvartar undan því að stjórnarandstaðan finni þessari ríkisstjórn allt til foráttu, en bætir síðan við að stjórnarflokkarnir ætli að láta sér það í léttu rúmi liggja. En hver er nú þessi stjórnarandstaða sem ríkisstjórnarflokkarnir ætla að virða að engu? Það eru tveir þriðju hlutar kjósenda í landinu. Með hrossakaupum, og stundum lögmætum en stundum ólögmætum, hefur hæstv. forsrh. vissulega tryggt sér öruggan meiri hluta á Alþingi. En verk hans og málflutningur eru svo fráhrindandi að minna en þriðjungur kjósenda játar stuðningi við þessa ríkisstjórn.
    Þungamiðjan í málflutningi Steingríms Hermannssonar hæstv. forsrh. hefur jafnan verið fólginn í setningum af þessu tagi: ,,Ólyginn maður sagði mér`` eða ,,hvíslað er í bænum``. Smám saman hafa menn þó gert sér grein fyrir því hversu málflutningur af þessu tagi er fráleitur grundvöllur mikilvægra ákvarðana. Jafnframt hefur komið æ betur í ljós að almenningi finnst slík stjórnmálaumræða veikja siðferðilegar stoðir stjórnvalda og grafa undan trúnaði og trausti. Sennilega er það vegna hinnar þungu gagnrýni á lágkúru ríkisstjórnarinnar að í ræðu forsrh. eru nú ekkert af orðaleppum af þessu tagi. En hvað sem því líður fólst engin stefnumótun, fólst enginn boðskapur í þessari svokölluðu stefnuræðu. Ræðan var aðeins nokkur orð utan um hagtölur úr þjóðhagsáætlun og fjárlagafrv. sem efnahagsráðgjafinn hefur sjálfsagt tekið saman. Forsrh. hæstv. átti greinilega ekkert erindi við þjóð sína.
    Ég ætla ekki hér að rekja þau mál sem helst hafa brunnið á ríkisstjórninni vegna virðingarleysis hennar fyrir lögum, almennum stjórnsýsluvenjum, trúverðugleika og sannsögli. En það vekur óneitanlega athygli að hæstv. forsrh. fjallar ekki með einu aukateknu orði um þessi mál og hann gerir enga tilraun til þess að lyfta hæstv. ríkisstjórn upp úr þeim farvegi sem hún er komin ofan í að þessu leyti. Ef ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar væri hans einkamál og þeirra félaga væri ekkert athugavert hér við. En við erum að fjalla um ríkisstjórn Íslands og það er þess vegna sem Alþingi gerir kröfur og það er þess vegna sem almenningur í landinu gerir kröfur til ríkisstjórnarinnar.
    Engum dylst að það er Alþb. sem málefnalega ræður ferðinni í þessari ríkisstjórn. Fyrir ári síðan var forsrh. látinn lýsa markmiðum hennar með því að segja að höfuðatriðið væri að hverfa frá almennt viðurkenndum vestrænum aðferðum við stjórn efnahagsmála, og nú talar reynslan. Margt horfir þó til betri vegar en áður varðandi svonefnd ytri skilyrði í þjóðarbúskapnum. Þannig berast nú fréttir af hækkandi fiskverði á erlendum mörkuðum og staða bandaríkjadals er stöðugt að styrkjast. Samt sem áður þarf forsrh. að lesa upp þann boðskap sem afleiðing

stjórnarstefnunnar að þjóðartekjur muni halda áfram að minnka, að erlendar skuldir muni halda áfram að aukast, að atvinnuleysi muni vaxa og kaupmáttur launafólks muni minnka til muna. Þetta er sú eina framtíðarsýn sem birtist í þessari svonefndu stefnuræðu og fullyrðingar um að þjóðin sé að vinna sig út úr erfiðleikunum undir forustu þessarar ríkisstjórnar verða harla broslegar þegar þetta er haft í huga.
    Í stóriðjumálum getur hæstv. forsrh. ekki kveðið fastar að orði en svo að segja að þá kosti eigi að skoða. Við vitum að það liggja nú fyrir hugmyndir um orkuverð. Forsrh. getur engu svarað um það í stefnuræðunni hvort stjórnarflokkarnir eða fulltrúar stjórnarflokkanna í stjórn Landsvirkjunar ætla að taka ábyrgð á því verði sem þessar hugmyndir mæla fyrir um. Þar lætur hæstv. forsrh. þögnina eina tala.
    Að vonum hefur það reynst erfitt að móta fiskveiðistefnu sem almenn samstaða gæti tekist um í landinu. Sjálfstfl. hefur ekki farið varhluta af því fremur
en aðrir flokkar. En hann hefur brugðist við með því að efna til almennrar umræðu innan flokksins sem hefur lyktað með skýrri stefnumótun í bráð og til lengri tíma. Engin slík stefnumótun hefur fengist innan núv. hæstv. ríkisstjórnar. Hæstv. forsrh. getur ekki einu sinni lýst yfir stuðningi við fiskveiðistefnu sjútvrh., enda hefur honum oft og tíðum þótt henta að lýsa andstöðu við hana, því að hann veit að innan ríkisstjórnarflokkanna og milli þeirra er engin samstaða um þessi mál. Og af sömu ástæðu hefur hann það eitt að segja um stefnuna í landbúnaðarmálum að ræða eigi við fulltrúa bænda.
    Og svo um skattana. Eftir 7 milljarða kr. skattahækkun á síðasta ári hefur hæstv. fjmrh. tilkynnt að hækka eigi virðisaukaskattinn upp í 26%. Ofan á það á síðan að hækka almenna tekjuskattshlutfallið. Ofan á það á síðan að setja nýtt skattþrep í tekjuskattinum. Og ofan á það á svo að koma skattlagning á sparnað fólksins í landinu. Fátt lýsir betur vinstri stefnunni en þessi áform vinstri flokkanna í skattamálum. Og Alþfl. --- og það er eftirtektarvert --- fylgir eftir kröfum Alþb. um að brjóta niður þá einföldun og lækkun tekjuskatta sem ákveðin var með staðgreiðslukerfinu á vordögum 1987.
    Á fundi á Selfossi fyrir nokkrumn dögum var ég inntur eftir því hvort
Sjálfstfl. væri reiðubúinn að afnema þessa vinstristjórnarskatta ef hann fengi til þess umboð og traust. Ég vil gjarnan svara þeirri spurningu hér á Alþingi og frammi fyrir þjóðinni.
    Í fyrsta lagi verður eignarskattshækkunin, ekknaskatturinn svonefndi, tafarlaust afnuminn, ef Sjálfstfl. fær umboð og traust kjósenda til þess. Í öðru lagi verður tekjuskattinum strax komið í sama horf og við upphaf staðgreiðslu vorið 1987. Í því felst að tekjuskatturinn verður ekki notaður til að letja menn til sparnaðar, framtakssemi og dugnaðar eins og núv. hæstv. ríkisstjórn stefnir að. Í þriðja lagi verður unnið að því í áföngum að lækka virðisaukaskattinn aftur

þannig að hann verði sambærilegur við núverandi söluskattshlutfall. Vinstristjórnarskattheimtan verður því afnumin. Þetta eru skýr fyrirheit, en raunsæ.
    Hvað varðar virðisaukaskattinn, þá byggjast þau á því að árangur náist í aðhaldi í opinberum rekstri og að dregið verði úr hvers kyns millifærslum, uppbótum og niðurgreiðslum til atvinnuvega, sem svo mjög hafa færst í vöxt í tíð þessarar hæstv. ríkisstjórnar. Ríkisfjármálavandinn verður ærinn á næstu árum sem best sést á því að hæstv. fjmrh. færir nú hvert viðfangsefnið á fætur öðru til gjalda hjá næsta fjmrh. Og við heyrum nú daglega í fréttum hvernig fremstu menn þjóðarinnar í kennslu og vísindum við Háskóla Íslands tala til ríkisstjórnarinnar. Þar þarf ekki frekari vitna við. Verkin tala og lýsa neikvæðum viðhorfum ríkisstjórnarinnar til vísinda, mennta og menningar. Og ekki var hæstv. forsrh. að hafa fyrir því að gefa þessum undirstöðum íslensks þjóðfélags mikið rúm í stefnuræðu sinni. En það er ein höfuðskylda okkar að rækta menningu, efla íslenska tungu og styðja frjálsa vísinda- og menntastarfsemi í landinu. Á sama hátt verða Íslendingar jafnan að gæta að hagsmunum sínum í samfélagi þjóðanna og tryggja öryggi sitt. Ég hélt að forsrh. Íslands gæti ekki flutt stefnuræðu öðruvísi en að gera grein fyrir stefnu ríkisstjórnarinnar í utanríkis-, öryggis- og varnarmálum en það hefur nú gerst í fyrsta sinn.
    Það er því ljóst eftir þessa svonefnda stefnuræðu að vinstri stjórnin hefur engin hærri áform um sjálfa sig en að hjakka áfram í sama farinu. Hún er í eðli sínu bandalag stjórnmálaflokka sem ekki þora að horfast í augu við dóm kjósenda.
    Andspænis þessu stendur Sjálfstfl. og byggir stefnu sína á rótgrónum frjálslyndum viðhorfum. Hann er ekki boðberi hinna einföldu lausna. Sjálfstæðismenn trúa því ekki eins og vinstri menn að ríkisvaldið skapi fyrirmyndarþjóðfélagið. Það gera einstaklingarnir sjálfir á heimilunum, í félögum sínum og í atvinnufyrirtækjunum. Hlutverk ríkisins er hins vegar að gera þeim þetta kleift. Í þessu ljósi hafa þingflokkur sjálfstæðismanna og nýafstaðinn landsfundur mótað skýran valkost við vinstri stjórnina. Þar kveður um margt við nýjan tón. Með svipuðum hætti og verslunin var leyst úr fjötrum með afnámi haftanna á sinni tíð viljum við nú gefa útflutningsframleiðslunni sömu tækifæri. Þetta gerist með því að þeir sem skapa útflutningsverðmætin fái í frjálsum viðskiptum að hafa meiri áhrif á verðmyndun gjaldeyris. Fallið verður frá millifærslum, opinberri verðábyrgð og skömmtunarstjórn. Pólitískum tökum á bankakerfinu verður sleppt með því að breyta ríkisbönkum í hlutafélög, selja síðan hluti ríkisins smám saman til almennings og atvinnufyrirtækja í landinu. Og þegar vinstri stjórnin talar um að auka pólitíska stjórn á Seðlabankanum viljum við fara í þveröfuga átt, auka sjálfstæði hans en afmarka verksvið hans miklu fremur, þrengja það og ætlast til þess að Seðlabankinn með stjórn á peningamálum, fyrst og fremst, sinni því að ná niður verðbólgu.
    Jafnframt á að breyta gjaldeyris- og

viðskiptalöggjöfinni á næstu þremur árum til samræmis við það sem hinar Norðurlandaþjóðirnar hafa ákveðið, m.a. í þeim tilgangi að geta tengst innri markaði Evrópubandalagsins. Aðeins með þessum frjálslynda hætti getum við eflt íslenskt atvinnulíf, aukið fjölbreytni þess og stuðlað að alhliða vexti byggða í öllum fjórðungum landsins. Aðeins með alþjóðlegu samstarfi getum við tekist á við verkefni á sviði umhverfisverndar þar sem varðveisla ómengaðra hafsvæða er í bráð og lengd langstærsta lífshagsmunamál Íslendinga. Og aðeins með auknu alþjóðlegu samstarfi getum við tryggt að íslenskir vísinda- og lærdómsmenn verði virkir þátttakendur í rannsóknar- og vísindastörfum sem eiga hér eftir sem hingað til að efla alla dáð.
    Stjórnmálabaráttan er ekki að okkar mati það mikilvægasta í lífi hvers og eins. Ábyrgð fjölskyldunnar, vinnan, námið, skyldurnar við landið, trúrækni, listirnar og dægradvölin eru alla jafna ofar stjórnmálabaráttunni í huga fólksins í landinu. En stjórnmálin koma þar við sögu að frjálslynda stefnan vill að það sé hlutverk ríkisins að gefa einstaklingunum jöfn tækifæri til að takast sjálfir á við þessi viðfangsefni. Vinstri menn trúa því á hinn bóginn að þeir geti best leyst þau fyrir fólkið.
    Sjálfstfl. er fjöldahreyfing fólks með ólíka hagsmuni úr öllum stéttum og með mismunandi tilfinngar. En þetta fólk á sér sameiginlega grundvallarhugsjón sem á rætur í miðri íslenskri þjóðfélagsgerð. Það eru skoðanir þessa breiða
fjölda, þessara einstaklinga sem rækja störf sín hávaðalaust, af dugnaði og trúmennsku, sem hæstv. forsrh. finnur svo léttvægar að ekkert tillit á að taka til þeirra. Þessi ríkisstjórn valdhrokans sem getur ekki haldið uppi eigin virðingu vanvirðir þannig dagleg störf einstaklinga og fjölskyldna í þessu landi og hún á af þeim sökum að fara frá. --- Góðar stundir.