Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson):
    Hæstv. forseti. Góðir áheyrendur. Síðustu missiri hefur landsstjórnin fyrst og fremst verið varnarbarátta gegn versnandi árferði. Og hvernig hefur þessi varnarbarátta tekist? Það hefur tekist að koma í veg fyrir fjöldaatvinnuleysi sem margir óttuðust í fyrrahaust. Og þrátt fyrir afturkipp í þjóðarframleiðslu og tekjum hefur dregið úr viðskiptahalla og verðbólgu hefur verið haldið í skefjum. Í þessu felst árangur sem ber að meta að verðleikum. En nú þarf að snúa vörn í sókn. Nú er nauðsynlegt að horfa fram á við, hugsa stórt, hyggja að því hvernig við gerum Ísland að enn betra landi til að búa í á næstu árum og áratugum. Fyrsta skrefið er að ljúka þeim tímabundnu stuðningsaðgerðum við útflutningsgreinarnar sem nauðsynlegar hafa verið og búa nú atvinnulífinu viðunandi almenn rekstrarskilyrði. Þetta er í sjónmáli. Við þurfum nú að ráðast af stórhug í uppbyggingu útflutningsatvinnuvega við hlið sjávarútvegsins sem þó verður auðvitað um langa framtíð meginstoð okkar atvinnulífs. En auðlindir sjávar eru ekki ótæmandi. Nú þurfum við að gera að því gangskör að breyta orku fallvatna og jarðvarma í atvinnu og tekjur. Við þurfum að rjúfa þá kyrrstöðu sem ríkt hefur í nýtingu orkulinda til atvinnuuppbyggingar. Nærtækasti kosturinn er aukin álframleiðsla.
    Eins og fram hefur komið í máli forsrh. hér fyrr hefur iðnrn. að undanförnu undirbúið stækkun álversins í Straumsvík í samvinnu við nokkur erlend álfyrirtæki, svonefndan Atlantal-hóp. Þetta kom fram í ræðu forsrh. þótt hv. 1. þm. Reykv. virðist hvorki hafa heyrt þetta né séð.
    Ég tel nú líkur á því að viðunandi samningar frá sjónarmiði Íslendinga geti náðst við þennan hóp. Eitt tonn af áli frá álbræðslu hér á landi skilar okkur álíka miklu í þjóðarbúið og eitt tonn af þorski upp úr sjó. Þegar málið er skoðað á þennan einfalda hátt sjá menn glöggt hversu mikilvæg viðbót við atvinnulífið stækkun álversins í Straumsvík getur orðið. Við þurfum þessa
viðbót nú þegar draga þarf úr þorskafla til þess að vernda þennan mikilvægasta nytjastofn á Íslandsmiðum.
    Ég vil tengja áformin um aukna álframleiðslu í Straumsvík við framtíðaruppbyggingu orkufreks iðnaðar og raforkukerfisins alls. Það er því nauðsynlegt að hefja þegar undirbúning nýs álvers annars staðar á landinu. Ef vel til tekst og samstaða næst í þessu mikilvæga máli verður unnt að hefjast handa þegar á næsta vori við nauðsynlegar virkjunarframkvæmdir. En verði ekki ráðist í slíka iðnaðaruppbyggingu verður heldur ekki þörf fyrir neina nýja stórvirkjun á Íslandi fyrr en eftir aldamót. Uppbygging orkufreks iðnaðar, eins og ég hef lýst, gæti ein sér aukið hagvöxt og atvinnu um einn af hundraði á ári hverju allan næsta áratug. Höfum við efni á að sleppa slíku tækifæri? Nei, við höfum það ekki. Það finnst hvorki Verkamannasambandinu né fjölmörgum öðrum almenningssamtökum sem hafa lýst

stuðningi við þessi áform. Við verðum að vera menn til þess að koma þessu máli í höfn. Fyrr var þörf en nú er nauðsyn.
    Ég mun á næstunni leggja fyrir Alþingi till. til þál. þar sem fjallað verður um þetta mál í stærra samhengi.
    Annað mikilvægt framfaramál fyrir íslenskt atvinnulíf eru skipulagsumbætur á fjármagnsmarkaði. Með bættu jafnvægi í peningamálum hafa raunvextir lækkað að jafnaði um nálægt tvo af hundraði frá því þeir fóru hæst um mitt ár í fyrra. Því miður finnst engin einföld leið til þess að lækka vextina. Sem fyrr er aðhaldssöm fjármálastjórn, hjöðnun verðbólgu og umbætur á fjármagnsmarkaði mikilvægustu forsendur vaxtalækkunar. Og það hefur náðst mikilvægur árangur á undanförnum mánuðum í endurskipulagningu íslenska bankakerfisins sem menn hafa talað um í 20 ár að breyta en ekki gert neitt í málinu fyrr en nú.
    Í byrjun þessa árs voru viðskiptabankarnir sjö en í upphafi næsta árs verða þeir að öllum líkindum ekki fleiri en þrír. Fækkun og stækkun bankanna gefur færi á hagræðingu í rekstri þeirra og þar með á varanlegri lækkun á vaxtamun og þjónustugjöldum. Út úr bankasameiningunni koma sterkari bankar sem standa betur að vígi í samkeppni við aðrar fjármálastofnanir, jafnt innlendar sem erlendar. Skipulagsumbótunum verður haldið áfram, m.a. með fækkun fjárfestingarlánasjóða. Þær eru reyndar nauðsynlegur aðdragandi að opnun íslenska fjármagnsmarkaðarins gagnvart útlöndum sem nú er stefnt að. En fjárhagsvandræði í íslensku atvinnulífi stafa ekki nema að nokkru leyti af háum vöxtum. Þar kemur ekki síður við sögu mikil skuldsetning fyrirtækjanna og léleg eiginfjárstaða. Opinber afskipti hafa því miður hingað til fremur latt sparifjáreigendur en hvatt til þess að leggja fé sitt í atvinnurekstur. Þessu þarf að breyta og nú er áformað að gera fjárfestingu í hlutabréfum hagkvæmari en fjárfestingu í skuldabréfum með skattaívilnun til þess einmitt að styrkja stöðu íslenskra fyrirtækja í vaxandi samkeppni með breyttum viðskiptaháttum á alþjóðavettvangi.
    Góðir áheyrendur. Á þessu hausti er hálf öld liðin frá upphafi seinni heimsstyrjaldarinnar. Á þeim tímamótum eru einmitt að verða gagngerar breytingar á efnahagslegri og stjórnmálalegri skipan Evrópu. Sárin eftir
hildarleikinn mikla eru nú loks að gróa. Annars vegar er að myndast sameiginlegur innri markaður Evrópubandalagsríkjanna fyrir lok ársins 1992 og hins vegar sjáum við stórkostlegar breytingar í stjórnarfari í átt til lýðræðis og frjálsræðis í Austur-Evrópu, ekki síst í Ungverjalandi og Póllandi en einnig í sjálfum Sovétríkjunum. Allt hnígur þetta að því að Evrópa öll verði í framtíðinni eitt viðskiptasvæði, ein viðskiptaheild. Íslendingar eiga mikilla hagsmuna að gæta þar sem langstærsti hluti utanríkisviðskipta okkar er við þær þjóðir sem eru nú þátttakendur í þessari þróun. Á undanförnum mánuðum hafa Íslendingar haft forustu fyrir EFTA-ríkjunum í óformlegum viðræðum

við Evrópubandalagið um framtíðarskipan í viðskiptum og efnahagssamvinnu í Evrópu. Aðild Íslands að Evrópubandalaginu er ekki á dagskrá að svo stöddu. Við höfnum því að aðgang að markaði þurfi að kaupa með því að veita aðgang að auðlindum. Markmið okkar í viðræðunum milli EFTA-ríkjanna og Evrópubandalagsins er að tryggja sem best íslenska hagsmuni í bráð og lengd.
    Í fyrsta lagi þurfum við að tryggja og víkka út þau fríverslunarréttindi í vöruviðskiptum sem við höfum fengið með gagnkvæmum samningum við Evrópubandalagið. Í því sambandi er sérstaklega mikilvægt að tryggja tollfrjálsan aðgang fyrir unnar fiskafurðir að mörkuðum Evrópubandalagsríkja.
    Í öðru lagi þurfum við að ná samkomulagi um viðskipti með þjónustu sem sífellt verður mikilvægari þáttur í þjóðarbúskapnum. Þessu fylgir einnig nauðsyn á auknu frjálsræði í viðskiptum með fjármagn milli Íslands og annarra landa sem ætti að veita íslenskum fyrirtækjum aðgang að fjármagni á heimsmarkaðskjörum og jafnframt bæta ávöxtunarmöguleika innlendra sparifjáreigenda.
    Í þriðja lagi þurfum við að tryggja Íslendingum rétt til náms og starfa í öllum ríkjum Evrópu. Þetta er árangursríkasta leiðin til þess að flytja hingað nýja þekkingu, auðga þjóðlífið með ferskum menningarstraumum. Sagan sýnir að íslenskt þjóðlíf og menning blómstrar best í náinni snertingu við meginstrauma evrópskrar menningar.
    Í fjórða lagi þurfum við að gerast virkir þátttakendur í þeirri víðtæku samvinnu á sviði vísinda og tækni og umhverfisverndar sem að er stefnt í Evrópu framtíðarinnar. Höfum við efni á því að sitja hjá í þessari þróun og sleppa þeim tækifærum sem hún býður? Hafa íslenskir sjómenn og fiskvinnslufólk efni á því eða íslensk fyrirtæki sem þurfa á fjármagni að halda? Hvað með íslenskt námsfólk? Hefur íslensk menning efni á því að einangrast frá Evrópu? Svarið liggur í augum uppi: Við megum ekki einangrast.
    Við stöndum nú frammi fyrir því stóra verkefni að búa íslenskt samfélag undir framtíðina. Við þurfum að halda okkar hlut í hinu opna samfélagi þjóðanna. Til þess þurfum við að treysta okkar efnahag til að geta boðið lífskjör sem jafnast á við það sem best gerist með öðrum þjóðum. Til þess þurfum við að efla hér innan lands opið, réttlátt samfélag lýðræðis, menningar og skynsemi, þar sem sérhver einstaklingur hefur tækifæri til þroska í samræmi við sína hæfileika en er jafnframt búið öryggi um afkomu sína. En það er öflugt atvinnulíf sem er grundvöllurinn sem allt hvílir á, undirstaða velferðar í landinu. Hér eru stóru verkefnin fram undan.