Hagstofuráðherra (Júlíus Sólnes):
    Virðulegi forseti. Góðir áheyrendur. Á síðustu vikum og mánuðum hefur kveðið við einkennilegan tón í stjórnmálaumræðunni á Íslandi. Í stað þess að ræða opinskátt um vandamál þessa fámenna þjóðfélags á norðurhjara veraldar, framtíð þess, menningu og afstöðu til umhverfis síns hafa ýmsir foringjar stjórnarandstöðunnar reynt að draga umræðuna niður í svaðið. Kveður svo rammt að því að allt virðist snúast um það að færa sönnur á að forustumenn stjórnarflokkanna séu siðspilltir, valdagírugir eiginhagsmunaseggir sem leggja nótt við dag til að finna nýjar aðferðir til að pína landslýð. Á næsta leiti eru hins vegar riddarar stjórnarandstöðunnar á hvítum fákum reiðubúnir til að bjarga þjóðinni úr þessum álögum. Illu heilli búa flestir þessir riddarar stjórnarandstöðunnar í glerhúsi og kasta þaðan grjóti sínu. Mikið held ég að glerbrotunum rigni nú yfir sjálfstæðismenn.
    Þetta er ljótur leikur því það vita allir sem vilja hugleiða þessi mál af sanngirni að þeir sem gefa sig að stjórnmálum á Íslandi eru hver á sinn hátt að reyna að láta gott af sér leiða. Flestir ef ekki allir þm. vinna langan vinnudag og vilja landi og þjóð allt hið besta. Því er þessi umræða afar hvimleið. Ég hef engan áhuga á því að taka þátt í henni. Þótt sjálfstæðismenn kjósi að eyða tíma sínum og kröftum í að finna einhverja ímyndaða siðferðisbresti í fari forustumanna stjórnarflokkanna mun ég eftir sem áður leitast við að hafa umræðuna málefnalega. Við í Borgfl. höfum meiri áhuga á því að velta fyrir okkur framtíðinni og hvernig við getum byggt upp manneskjulegt þjóðfélag á Íslandi þar sem atvinnulífið og menning okkar blómstrar hlið við hlið.
    Eins og öllum er kunnugt ákvað þingflokkur og aðalstjórn Borgfl. að ganga til liðs við fráfarandi stjórnarflokka um myndun nýrrar ríkisstjórnar í byrjun september eftir viðræður sem höfðu staðið yfir með hléum frá því í janúar á þessu ári. Valkostir Borgfl. voru greinilega tveir. Í fyrsta lagi gátum við hafnað með öllu að ganga til samstarfs við ríkisstjórnina og þannig knúið fram kosningar nú í haust. Þeim möguleika var vissulega velt fyrir sér í stjórn Borgfl. í sumar sem leið. Við vorum ekkert hræddir við kosningar, enda með mjög góða málefnalega stöðu.
    Í öðru lagi var um að ræða að ganga til þessa stjórnarsamstarfs og reyna að hafa sem jákvæðust áhrif atvinnulífinu og fólkinu í landinu til heilla. Í raun voru það sjálfstæðismenn sem auðvelduðu okkur að taka lokaákvörðun. Málflutningur þeirra einkenndist m.a. af miklu skítkasti í garð Borgfl. og sú afstaða Sjálfstfl. til þjóðfélagsins í heild sem hefur birst landsmönnum nú í sumar og í haust er ógnvekjandi. Hörðu markaðshyggjukerfi er greinilega ætlað að leggja framleiðsluatvinnuvegi landsmanna í rúst. Þeir eru ekki taldir nógu arðbærir. Menn eiga að lifa á því að flytja inn vörur frá útlöndum og selja hver öðrum verðbréf, flytja innistæður milli banka í takt við hækkun vaxta. Frumframleiðslan má eiga sig og á

helst að leggjast af því að hún borgar sig ekki með því vaxtastigi sem frjálshyggjupostularnir telja að eigi að vera á Íslandi.
    Tilraun í þessa átt var gerð undir forustu Sjálfstfl. í ríkisstjórninni sem var mynduð eftir kosningarnar 1987. Öllum ættu að vera í fersku minni afleiðingarnar fyrir atvinnulífið sem nánast var að þrotum komið haustið 1988 þegar sú stjórn hrökklaðist frá völdum við lítinn orðstír. Stjórn Borgfl. taldi það því ekki vænlegan kost að stuðla að því nú í haust að afhenda Sjálfstfl. öll völd í landinu, eyðileggja þar með þær björgunaraðgerðir í þágu útflutningsfyrirtækjanna sem nú eru langt komnar með að skila þvílíkum árangri að staða þeirra er aftur orðin viðunandi. Þrátt fyrir mikinn aflasamdrátt og minnkandi þjóðartekjur er gott jafnvægi í peningamálum og verðbólga á niðurleið. Það hefðu einhvern tíma þótt góð tíðindi. Því ríður á að sá þingmeirihluti sem hefur skapast með þátttöku Borgfl. í ríkisstjórn beri gæfu til að halda saman út kjörtímabilið og framfylgja þeirri stefnu sem dugar við þessar erfiðu aðstæður til að koma okkur í gegnum þetta samdráttarskeið sem áfallaminnst. Að eiga þátt í að mynda og treysta þennan þingmeirihluta er hið sögulega hlutverk Borgfl. sem hann er staðráðinn í að rækja af festu og eindrægni.
    Það er samstaða um það hjá stjórnarflokkunum að brátt verði hægt að setja endapunkt fyrir aftan skuldbreytingu og millifærslu til útflutningsgreinanna. Skuldbreytingasjóðunum verði komið fyrir hjá bankakerfinu og ríkisvaldið hætti að hafa bein afskipti af atvinnulífinu. Skylda stjórnvalda er hins vegar sú að tryggja atvinnurekstri landsmanna sem hagstæðust ytri skilyrði en standa jafnframt vörð um það velferðarkerfi sem þjóðin er sammála um. Að öðru leyti eiga stjórnvöld að láta atvinnuvegina í friði nema þau hafi eitthvað jákvætt fram að færa varðandi þróun og nýsköpun í atvinnulífinu.
    Fastgengisstefnan í tíð ríkisstjórnar Þorsteins Pálssonar er dæmi um neikvæð afskipti af atvinnulífinu. Hún miðar af því að halda uppi fölskum kaupmætti í landinu á kostnað útflutningsframleiðslunnar. Það heitir á alþýðumáli að pissa
í skóinn sinn. Því lagði Borgfl. áherslu á það í hinum nýja stjórnarsáttmála að gengisskráning íslensku krónunnar skuli taka mið af afkomu útflutningsfyrirtækja og fyrirtækja í samkeppnisiðnaði og því markmiði að viðhalda jákvæðum viðskiptajöfnuði. Það verður að verða sú hugarfarsbreyting meðal þjóðarinnar að útflutningsframleiðslan hafi algeran forgang. Við lifum ekki af innflutningi og í einhverjum hávaxtaleik. Við getum ekki haldið við fölskum kaupmætti á erlendum lánum. Þess vegna viljum við afnema óþarfa höft og hömlur sem setja útflutningsversluninni og gjaldeyrisviðskiptunum þröngar skorður. Við viljum skapa hagstæðara rekstrarumhverfi fyrir útflutnings- og framleiðslufyrirtækin og búa þau þannig undir hina vægðarlausu samkeppni sem hinn stóri markaður

Evrópulandanna mun hafa í för með sér eftir 1992. Hins vegar verðum við að gera þá kröfu til útflutnings- og framleiðslufyrirtækjanna að þau séu rekin af ýtrustu hagsýni og aðhaldssemi. Við viljum ekki verðlauna skussana.
    Því er ekki að leyna að sá samdráttur sem hefur orðið í íslensku efnahagslífi hefur farið mjög illa með launþega, einkum þó lágtekjufólkið. Því hefur Borgfl. barist fyrir því að lækka verð á matvælum og öðrum nauðsynjum heimilanna. Áfangasigur næst í þeirri baráttu um áramót, en þá lækkar verð á helstu innlendum matvælum um 10%. Um það blandast engum hugur að verðlag í landinu er of hátt. Því verður að leita leiða til að draga úr skattlagningunni, en það verður ekki gert í einu vetfangi.
    Við sitjum uppi með allt of viðamikið velferðar- og menntakerfi sem þessi fámenna þjóð ræður ekkert við. Á næstu árum verður að leita allra leiða til að einfalda þetta kerfi og draga úr því á allan hátt án þess þó að skerða um of þá þjónustu sem við viljum búa við. Öðruvísi verður ekki hægt að lækka beina eða óbeina skatta. Allir geta verið sammála um að 26% virðisaukaskattur er nánast óðs manns æði. Það er því umhugsunarvert að þrátt fyrir einhvern mesta niðurskurð á útgjöldum ríkisins sem hefur sést um áraraðir og þennan háa neysluskatt er gert ráð fyrir miklum halla á fjárlögum. Hefðu menn viljað halda virðisaukaskattinum í 22% eins og var fyrirhugað og öðrum sköttum óbreyttum var ekki um annað að ræða en loka fjölmörgum skólum, bæði grunnskólum og æðri skólum, t.d. Háskólanum á Akureyri, svo og mörgum heilsugæslustöðvum og sjúkrahúsum vítt um land, loka ýmsum öðrum ríkisstofnunum og hætta við framkvæmdir í vega- og hafnagerð. Það tekur sinn tíma að ná samstöðu um slíkar aðgerðir. En þær verða e.t.v. ekki umflúnar. Það verður að vinna að því á næstu árum að lækka óbeina skatta til samræmis við það sem gerist í næstu nágrannalöndum okkar svo samkeppnisstaða okkar verði ekki með öllu vonlaus.
    Borgfl. hefur fengið mörg mikilvæg verkefni í hinni nýju ríkisstjórn, m.a. það verkefni að undirbúa nýja stefnumótun í atvinnumálum. Sú vinna er hafin af fullum krafti og verður ekkert dregið undan. Það er ljóst að við verðum að fara að gera það upp við okkur hvað við ætlum að fást við á næstu árum og áratugum. Við eigum mikla ónotaða möguleika í að fullnýta sjávarafurðir og framleiða tilbúna rétti sem við getum komið á markað erlendis með því jafnvel að kaupa hlut í hinum stóru matvælafyrirtækjum nágrannalandanna. Við eigum mikla hagleiks- og uppfinningamenn sem hafa þróað ýmiss konar hátæknibúnað fyrir sjávarútveg. Upp hafa risið nokkur hérlend iðnfyrirtæki til framleiðslu á slíkum búnaði sem hafa vakið heimsathygli. Þekking okkar á hátæknifiskveiðum og vinnslu sjávarafla er verðmætari en okkur grunar. Mörg erlend ríki, t.d. Arabalöndin, leita nú eftir samstarfi og viðskiptum við Íslendinga á þessu sviði. Ýmsir horfa vonaraugum til stóriðju og orkuiðnaðar. Góðar líkur eru nú á því að það náist samkomulag um stækkun álversins í Straumsvík og

auknar virkjunarframkvæmdir í tengslum við hana. Borgfl. styður heils hugar alla viðleitni til þess að ná þessum samningum. Með þeim miklu framkvæmdum sem þeir leiða af sér má skapa atvinnu fyrir um þúsund manns, en nokkur varnaðarorð eru þó við hæfi. Við megum ekki láta stóriðjudraumana trufla hina nauðsynlegu atvinnuuppbyggingu um land allt og leit að nýsköpun í atvinnulífinu. Stóriðjusamningur er lottóvinningur. Sá sem vinnur í lottóinu hættir hins vegar ekki að vinna sín venjulegu störf og fer að treysta algerlega á lottóið. Þá megum við ekki fara að karpa um staðsetningu stóriðjufyrirtækja. Við getum ekki pantað lottóvinninginn á einhvern ákveðinn stað. Náum við stóriðjusamningi græðir öll íslenska þjóðin.
    Undirbúningur að stofnun nýs umhverfisráðuneytis svo og yfirumsjón umhverfismála fyrir hönd ríkisstjórnarinnar þar til ráðuneytið er lögformlega orðið að veruleika er meðal annarra stórra verkefna sem Borgfl. hefur tekið að sér í ríkisstjórn. Umhverfismál eru mál framtíðarinnar. Gífurleg vakning á sér nú stað um allan heim þar sem krafan um betra umhverfi og óspillta náttúru víkur til hliðar lífsgæðakapphlaupinu og neytendaþjóðfélaginu. Áður voru það ýmsir utangarðshópar svo sem lopapeysuklæddir hippar og grænfriðungar og aðrir slíkir sem einir ræddu umhverfismál. Nú eru þau hins vegar efst á baugi þegar æðstu valdamenn heimsins hittast og ræða saman.
    Við Íslendingar eigum hlutverki að gegna í því alþjóðlega samstarfi sem nú
fer í hönd á sviði umhverfisverndar. En fyrst verðum við að sjálfsögðu að taka til í eigin bakgarði. Við verðum að stöðva gróðureyðinguna og koma í veg fyrir alla ónauðsynlega mengun lofts, láðs og lagar. Því er það mikilvægt að við byggingu stóriðjufyrirtækja svo og auðvitað allra annarra fyrirtækja á Íslandi verði gætt ýtrustu varúðar og mengunarvarnir eins fullkomnar og nokkur kostur er á. Íslendingar eiga að hasla sér völl á sviði mengunarvarna. Við fáum kjörið tækifæri til þess þegar stækkun álversins í Straumsvík hefst. Við eigum að láta íslenska tæknimenn og íslensk fyrirtæki hafa þar eins mikið frumkvæði og framast er unnt. Á vegum norrænu ráðherranefndarinnar hefur verið tekin ákvörðun um að stofna sérstakan umhverfisverndarfjárfestingarsjóð. Er honum aðallega ætlað að fjármagna mengunarvarnir í Austur-Evrópulöndunum en iðnfyrirtæki þeirra spúa nú eldi og eimyrju yfir Norðurlöndin. Norræn fyrirtæki á þessu sviði geta nú boðið fram samstarf og fjármagn til að leysa mengunarvandamál Pólverja og Austur-Þjóðverja svo að dæmi séu tekin. Íslendingar eiga hiklaust að fara í þetta samstarf og láta ekki hin Norðurlöndin stinga þessum sjóði í vasann.
    Góðir landsmenn. Við eigum góða og bjarta framtíð fyrir höndum í þessu góða og gjöfula landi þótt tímabundið syrti í álinn. Látið ekki ómerkilegt karp í líkingu við það sem ég fjallaði um í upphafi máls míns villa ykkur sýn. Við erum ekki nema 250 þúsund manns sem byggjum Ísland. Við erum eins og

lítil fjölskylda í mannhafi heimsins. Við skulum því snúa bökum saman og vinna sem einn maður að því að skapa betra þjóðfélag þar sem allir hafa nóg að bíta og brenna. Það verður hins vegar ekki gert með því að eyða öllum tíma og kröftum í það að níða niður náungann. --- Ég þakka áheyrnina.