Stefán Valgeirsson:
    Virðulegi forseti. Góðir Íslendingar. Það var 16. sept. sl. sem rógsherferðin gegn þeim sem hér stendur byrjaði og hún hefur staðið allar götur síðan eins og tilheyrendur mínir heyrðu áðan í ræðu Friðriks Sophussonar, 1. þm. Reykv. Það var Alþýðublaðið sem hóf þessa rógsherferð. Það var Dagblaðið sem tók undir hana og síðan Morgunblaðið. Og formaður Sjálfstfl., Þorsteinn Pálsson 1. þm. Suðurl., lét sig hafa það að lepja upp ruglið úr Dagblaðinu og Alþýðublaðinu. En lengst gekk Björn Bjarnason, aðstoðarritstjóri Morgunblaðsins. Hann ritaði grein í Morgunblaðið sem var um hæstaréttardómarann og hann hóf þá grein á formála þar sem hann lýsti hvernig farið hefði fyrir Papos-flokknum í Grikklandi og var að líkja því saman við það sem var að gerast hér og fyrst og fremst í kringum mig. Og síðan segir hann í grein sinni orðrétt, með leyfi forseta:
    ,,Við sjáum hér hvernig ráðherrar og ríkisstjórn standa vörð um Stefán Valgeirsson alþingismann og allt sem fyrir hann hefur verið gert á kostnað almennings til tryggingar stuðningi hans við ríkisstjórnina. Þar eru gífurlega miklir opinberir fjárhagslegir hagsmunir í húfi og stjórnmálamennirnir fara sínu fram og stjórnkerfið snýst í kringum þá.``
    Ég ritaði ritstjórum Morgunblaðsins opið bréf og lagði fyrir þá nokkrar spurningar út af þessum skrifum. Ég hef sjaldan eða aldrei heyrt vesældarlegri svör en þeir komu með. Ég vil hér koma með eina af þessum spurningum sem var þannig, með leyfi forseta:
    ,,Hvaða gífurlegum opinberum fjárhagslegum hagsmunum almennings hefur verið fórnað til þess að tryggja stuðning minn við ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar?``
    Svarið var: ,,Millifærslu- og sjóðakerfið sem núv. ríkisstjórn stendur að með stuðningi Stefáns Valgeirssonar veitir gífurlegum fjárhæðum og er þar í húfi fé almennings. Það eru orð Stefáns sjálfs að fjárhagslegum hagsmunum almennings muni hafa verið fórnað til þess að tryggja stuðning hans við ríkisstjórnina.``
    Þessi tilvitnuðu orð munu hafa verið höfð eftir mér þegar fyrri ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar var mynduð og það var í sambandi við það hvernig var búið að leika landsbyggðina. Það var búið að fórna gífurlegum fjármunum. Það var búið að sjúga atvinnuvegi og einstaklinga með okurvöxtum. Og svo leyfa þessir herrar, formaður Sjálfstfl. og fyrrverandi varaformaður Sjálfstfl., sér að tala eins og þeir gerðu hér áðan, mennirnir sem stóðu upp frá öllu í strandi og flúðu skipið. Nú tala þeir digurbarkalega og nú segja þessir menn að það sé þessari ríkisstjórn að kenna hvernig komið er. Ég hef orðið vitni að því að menn hafa kvartað yfir 22% vöxtum á gráa markaðnum sem Þorsteinn Pálsson vildi vernda og fékkst ekki, þegar hann var fjmrh., til þess að gera ráðstafanir til að koma böndum á þennan markað. Og nú tala þessir menn um frelsi. Um frelsi alls. Frjálsa vexti, áfram verðtryggingu, frjálsan fjármagnsmarkað

og jafnvel vinnuafl frá öðrum löndum. En hvað er að gerast í okkar þjóðlífi? Var ekki sagt frá því hér fyrir nokkru að útlendingar væru að kaupa í fyrirtæki á Vesturlandi, í fiskvinnslufyrirtæki? Og vita menn ekki dæmi þess að ýmsir þeir, sem hafa verið að kaupa báta erlendis frá, hafa fengið fyrirgreiðslu erlendis til að tryggja sér afla? Hvað halda menn að gerist ef frelsi, fjármagnsfrelsi útlendinga verður ótakmarkað hér? Hafa menn hugsað þá hugsun til enda?
    Í sambandi við þessa rógsherferð gagnvart mér, hvað er nú á bak við það að ég hafi verið studdur í þessa sjóði af núv. ríkisstjórn? Ég var kosinn í bankaráð Búnaðarbankans og Stofnlánadeildina í ársbyrjun 1985. Var þessi ríkisstjórn þá? Ég var kosinn í Byggðastofnun af Alþb., Kvennalista og Borgfl. eftir síðustu kosningar. Voru það verk þessarar ríkisstjórnar? Þetta vissu þeir vel, Þorsteinn Pálsson og Friðrik Sophusson. Og það eina sem ég hef heyrt að þeir hafi áhuga fyrir í sambandi við fjárlagafrv. er það að aðstoðarmaður minn, sem samið var um að ég fengi, falli af launaskrá. Það er það eina sem ég hef heyrt þá a.m.k. leggja áherslu á. Þannig er nú vanþekkingin.
    En getur það verið að þau öfl sem standa á bak við þessa rógsherferð gegn sjötugum manni sem er, eins og þið sjáið, orðinn hvíthærður, sé eingöngu gerð til þess að ærumeiða hann og sverta í augum alþjóðar? Ætli það sé ekki frekar vegna þess að ég hef reynt, og mín samtök, að verja landsbyggðina fyrir áframhaldandi áföllum? Ætli það geti verið vegna þess að við höfum lagt áherslu á að við það verði miðað að dregið sé úr launa- og aðstöðumun í þjóðfélaginu og gerðar verði allar tiltækar ráðstafanir til þess að koma í veg fyrir atvinnuleysi? Ætli það geti verið vegna þess --- eða maður gæti ætlað það af þeim málflutningi sem hér hefur heyrst að undanförnu --- að ég studdi þessa ríkisstjórn fyrst og fremst til þess að það yrðu ekki stöðvuð atvinnufyrirtækin úti á landsbyggðinni? Getur það verið fyrir það? Eða ætli það sé fyrir það að við viljum gera ráðstafanir til þess að bæklaðir og sjónskertir þurfi ekki að bíða jafnvel svo árum skiptir eftir aðgerð eins og
nú er? Eða sömuleiðis að foreldrar lamaðra og þroskaheftra barna eigi þess kost að vistun fyrir börn þeirra verði nálægt heimabyggð án þess að kostnaður verði þeim ofviða? Eða ætli það geti verið vegna þess að við höfum viljað fá fjármuni til þess að auka fjölskylduvernd og forvarnir? Því margt bendir til þess að uppeldisskilyrðum barna víða um land sé ábótavant og réttur þeirra fyrir borð borinn. Ætli það sé ekki fyrir eitthvað af þessum málflutningi frekar en persónan Stefán Valgeirsson?
    Þið hafið sjálfsagt tekið eftir því að í gærkvöldi voru talsmenn útgerðar á Suðurnesjum að tala um það hvaða ástæður lægju til þess að það hefði verið seldur mikill kvóti frá Suðurnesjum. Þeir tóku það fram að það væri fyrst og fremst vegna þess hvernig rekstrarskilyrði hefðu verið fyrir sjávarútveginn á árinu 1988. Hvað segir þetta okkur? Það var í fréttum í kvöld að tvö kaupfélög voru gjaldþrota. Ég hef bent

á það alla tíð, til hvers það mundi leiða ef þetta fjármagnsokur mundi halda áfram. Í mars 1988 sendi ég opið bréf til þings og þjóðar vegna þess ástands sem hefði skapast með vaxtaokrinu, og hluti af því bréfi var á þessa leið:

Flokkarnir gáfu fyrirheit
um félagslegt jafnrétti í raun,
bæta aðstöðu í bæjum og sveit,
borga lífvænleg laun,
lækka verðbólgu og lánakjör,
loforðin mörg og góð.
Íhaldsstjórn var svo ýtt úr vör
eftir stóð þjóðin hljóð.
Fjármagnið sýgur framleiðsluna
og fátækan almenning,
skattinn fræga á matinn muna
margir sem kjósa á þing.

    Dagblaðið sagði frá því í maímánuði sl. að Ríkisendurskoðun hefði verið með harða ádrepu á Jón Helgason vegna búvörulaganna og talið að það væri um einn milljarður sem hefði verið greiddur sem ekkert leyfi var fyrir. Nú eru tveir lögfræðingar búnir að láta álit sitt í ljósi um þessa skýrslu Ríkisendurskoðunar. Og ég veit um fleiri lögspekinga sem hafa athugað þessa skýrslu og komist að sömu niðurstöðu. Er ekki kominn tími til fyrir þessa virðulegu stofnun, Alþingi Íslendinga, að láta skoða þessi vinnubrögð og það sem ég vil kalla dómsvald sem þeir hafa tekið sér í hendur miðað við þá niðurstöðu sem er í þessari umræddu skýrslu?
    Það var haft eftir Davíð Oddssyni borgarstjóra þegar hann ákvað framboð sitt til varaformanns Sjálfstfl. nú á dögunum að hann hefði gert þetta fyrir Friðrik Sophusson að bjóða sig fram. Í helgarviðtali sem kom í DV við Friðrik Sophusson, 1. þm. Reykv., sagði hann: ,,Ég er frjáls.`` Maður sem hefur verið frjáls kemst ekki þannig að orði. Það eru ekki nema þeir sem finna fyrir því að þeir eru í raun og veru ekki frjálsir og maður hefur ástæðu til að ætla að það séu fleiri sjálfstæðismenn sem finni þannig til miðað við þeirra ræður hér á Alþingi og það sem maður hefur heyrt í fjölmiðlum.
    Góðir Íslendingar. Við þurfum ekki að horfa með kvíða til framtíðarinnar ef við á annað borð kunnum að stjórna okkur, kunnum að lifa í þessu landi og gera ráðstafanir til þess að reyna að jafna lífskjörin. Það er krafa okkar samtaka að lífskjörin verði jöfnuð og gerðar ráðstafanir til þess að það sem við lifum á, þ.e. framleiðslan, hafi rekstrarmöguleika þannig að hún þurfi ekki að þæfa þannig til að svo líti út að það séu styrkveitingar sem hún lifir á vegna þess að framleiðslan er það sem er auðsuppsprettan fyrir okkur. Það er bara verið að skila svolitlum hluta af því aftur til baka með þessum styrkveitingum. --- Góða nótt.