Grunnskóli
Þriðjudaginn 24. október 1989


     Flm. (Ragnhildur Helgadóttir):
    Herra forseti. Ég vil þakka þeim hv. þm. sem tekið hafa til máls um þetta frv. og stutt meginsjónarmið þess. Óneitanlega vekur athygli hin áberandi fjarvist hæstv. menntmrh. Maður skyldi ætla að hér væri um mál að ræða sem hann teldi ekki miklu varða. Það vekur reyndar líka athygli að ekki einn einasti þm. úr flokki hæstv. menntmrh. er viðstaddur. Nú birtist samt hv. þm. úr flokki hæstv. menntmrh. og rennur blóðið til skyldunnar þar sem hann er einn af þremur þm. sem hér eru í salnum sem eru fyrrv. menntmrh. En hæstv. núv. menntmrh. birtist hér í dyrum áðan og hraðaði sér á brott. Ekki veit ég hverju það sætti, e.t.v. er hann að sækja frv. þetta sem hefur verið leyniskjal gagnvart stærsta þingflokknum a.m.k., e.t.v. er hann að sækja frv. sem hann er búinn að lýsa í fjölmiðlum að sé svo ágætt, hafi að geyma hin merkustu ákvæði en enginn þeirra þm. sem ég hef talað við hefur séð frv. Þeir segja hins vegar að það muni hafa verið kynnt þm. stjórnarflokkanna. Það væri nú ágætt að fá að vita frá einhverjum hv. þm. úr stuðningsflokki ríkisstjórnarinnar hvort svo er. Hvort honum sé kunnugt um þetta frv., hvort það hafi verið lagt fram í stuðningsflokkum ríkisstjórnarinnar eða hvort það hafi einfaldlega stöðvast á borðum ríkisstjórnarinnar sjálfrar. Það er e.t.v. eitt af þessum málum hæstv. ríkisstjórnar sem hún ómögulega getur komið sér saman um og það er kannski ekki að undra í öllu því flokkakraðaki sem á aðild að þessari hæstv. ríkisstjórn. En mikla fyrirlitningu sýnir þessi hæstv. ráðherra Alþingi og þessu málefni. Mikla fyrirlitningu sýnir hann því.
    Ég mun hins vegar ekki lýsa eftir því að hæstv. ráðherra sé kvaddur hér á fund eða biðja um að umræðunni sé frestað. Það er stundum gert. Ég geri ráð fyrir að það breyti engu um áhuga hæstv. ráðherra, hann veit mætavel væntanlega hvað hér er til umræðu og ég treysti sannast sagna hv. menntmn. þingsins miklu betur til þess að afgreiða þetta mál með viðhlítandi og skaplegum hætti heldur en hæstv. ráðherra, miðað við þá framkomu sem hann sýnir nú.
    Það er líka hrópandi þögn í öðru máli. Hv. þm. Lára Júlíusdóttir vakti í raun athygli á því hér í sinni ræðu að nefnd forsrn. um fjölskyldumálefni var lögð niður við stjórnarskiptin í fyrra. Hæstv. núv. forsrh. sýnir ekki þessum málefnum þann áhuga sem var í ríkisstjórn hv. þm. Þorsteins Pálssonar, alls ekki, því fer svo fjarri og það kemur því miður ekki einungis fram í því að þessi nefnd starfi ekki því að það sem máli skiptir er ekki einungis starf nefnda, heldur það hvað raunverulega gert er. Það sem hins vegar hefur komið fram í fyrirætlunum hæstv. ríkisstjórnar er m.a. það að nú hafa verið kynntar í fjölmiðlum af hálfu hæstv. ríkisstjórnar hugmyndir um að rétt sé að fara að miða barnabætur alfarið við tekjur fjölskyldna. Hvað þá um foreldra þeirra ungu barna sem leggja næstum nótt við dag við tekjuöflun vegna þess að þeir leggja hart að sér til þess að standa undir skuldagreiðslum og afla fjár til framfæris og húsnæðis

og hafa þess vegna háar tekjur og greiða mikla skatta almennt í þjóðfélaginu? Þá á líka að skerða barnabætur til þessa fólks.
    Í ríkisstjórn Þorsteins Pálssonar voru talin gild rök fyrir því að barnafjölskyldur almennt nytu tiltekins stuðnings í þjóðfélaginu og það vill Sjálfstfl. að gert sé. Við sem erum þm. Sjálfstfl. munum svo sannarlega reyna að beita okkur fyrir því.
    Herra forseti. Ég má ekki gleyma mér og fara út í almennar stjórnmálaumræður en óneitanlega erum við hér að fjalla um þvílík grundvallarmál sem varða svo miklu um aðbúnað fjölskyldna, þetta atriði í þessu frv. sem miðar að samræmingu vinnutíma allra í fjölskyldunni. Það skiptir miklu meira máli heldur en ætla mætti eftir þeim fáorðu greinum sem í frv. eru. Það skiptir því máli sem m.a. segir hér í skýrslu landlæknis sem við fleiri þm. höfum vikið að. Í skýrslunni segir á bls. 16 í tölul. 5 sem heitir Brottfall úr skóla, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Á tímum vaxandi samkeppni er mikilvægt að hljóta sæmilega menntun. Þeir unglingar sem ekki ljúka grunnskólaprófi eða samræmdum prófum eru lítið betur á vegi staddir um framtíðarstörf en þau börn sem ekki læra að lesa. Á ári hverju hverfur úr unglingaskóla töluverður hópur barna. Undanfari þess að barn hverfur úr skóla er oft margvísleg vandræði. Í skólaskýrslum Reykjavíkur 1975 kom í ljós að meðal þeirra barna er skrópuðu einna mest komu 65--70% frá brotnum heimilum. 30--35% bjuggu við áfengisvandamál foreldra. Skólinn er þessum börnum oft eina skjólið enda leggja margir skólamenn og skólahjúkrunarfræðingar mikla vinnu í að halda þessum börnum í skóla þar til skyldunni lýkur.``
    Ég vil víkja að örfáum einstökum atriðum sem fram komu í ræðum hv. þm. Hv. þm. Aðalheiður Bjarnfreðsdóttir fjallaði um það atriði í grg. frv. sem raunar var úr nál. fjölskyldumálefnanefndarinnar sem hv. þm. Lára Júlíusdóttir átti m.a. sæti í. Hún fjallaði um það atriði þar sem gerð var tillaga um betri aðstöðu og möguleika til viðvistar umsjónarkennara í skólunum. Ástæðan til þessa var ekki síst sú að þar sem við gerum ráð fyrir miklu nánara samstarfi
foreldra og kennara þá verðum við líka að gera ráð fyrir því að kennarinn þurfi meiri tíma til þess að sinna því samstarfi og það er m.a. og ekki síst þess vegna sem nefndin gerði ráð fyrir þessu eins og hv. þm. Láru Júlíusdóttur rekur sjálfsagt minni til. Þetta er ábending sem oft og tíðum hefur komið fram hjá kennurum að þetta samstarf tekur tíma og er liður í vinnu kennaranna. Af hálfu foreldranna er hins vegar það sjónarmið uppi að þeir vilja geta haft miklu meiri áhrif á skólastarfið heldur en einungis það að aðstoða við öflun fjár, laga skólalóð eða baka kökur á basar, svo ég nefni hugsanleg dæmi. Ég er ekki að segja að það sé svo en oft og tíðum er það svo að foreldrum finnst sem þeir ættu að geta haft meiri áhrif á sjálft innihald skólastarfsins, á sjálft fræðslustarfið og geta komið við meiri áhrifum á það sem þeirra eigið barn er raunverulega frætt um. Því er það að gera þarf ráð fyrir betri aðstöðu umsjónarkennarans í þessu

sambandi.
    Hv. þm. Þórhildur Þorleifsdóttir fjallaði örlítið um það ákvæði frv. þar sem gert er ráð fyrir að með leyfi fræðslustjóra sé einkaaðilum unnt að stofna til skólavistar fyrir 5 ára börn, þ.e. börn innan við skólaskyldualdur. Þar eru það 5 ára börnin sem við erum með í huga og einmitt eins og hv. þm. sagði sjálf réttilega er það æskilegt fyrir börn á þessum aldri að geta átt kost á slíku í skólakerfinu, hvort sem það er hinn opinberi aðili eða einkaaðili sem hið opinbera semur við. Það kom hins vegar fram í máli hennar að um þessi mál væri verið að fjalla í nefnd á vegum menntmrh. Það leysir hins vegar ekki þetta mál. Í menntmrn. liggur aftur á móti álit forskólanefndar frá 1981 og þar er að finna ýmsar skynsamlegar tillögur sem þarf að framkvæma. Um þau atriði fjallar m.a. þetta frv. og þess vegna er það að ég hygg að a.m.k. tillögur um það efni ættu ekki að vera langt undan.
    Ég þakka hv. þm. fyrir þeirra undirtektir við þetta frv. og ég leyfi mér að vænta þess og þykist þess raunverulega fullviss að menntmn. hv. deildar muni veita því efnislegan stuðning sinn. Ég legg til, herra forseti, að að lokinni þessari umræðu verði málinu vísað til 2. umr. og hv. menntmn.