Grunnskóli
Þriðjudaginn 24. október 1989


     Friðjón Þórðarson:
    Herra forseti. Hér er vissulega verið að ræða stórmál sem við þyrftum að gefa okkur langan tíma til að athuga. Ég ætti nú ekki að fara að taka þátt í þessari umræðu þegar hún er komin að lokum áður en málinu er vísað til nefndar. En okkur er sannarlega mikill vandi á höndum. Hvernig eigum við að ala upp börn okkar í framtíðinni? Það er að vísu ágætt að koma þeim sem allra fyrst í skóla og hafa þau sem lengst í skóla. En ég hygg að stærsti vandinn sem við þurfum að horfast í augu við nú á tímum sé sá að börn koma allt of oft að luktum dyrum á sínu eigin heimili.
    Við sem þekkjum það að hafa alist upp á góðum heimilum vitum hvers virði þau eru. Og allt fram á okkar daga hefur okkur þó held ég tekist að koma málum þannig fyrir að a.m.k. annað foreldrið hefur verið heima svona nokkurn veginn oftast nær. Ég hef stundum sagt við mína kunningja að ég telji það einn mesta sorgarmars á síðari tímum þetta lag sem ég man nú aðeins brot úr: Súrmjólk í hádeginu og Cheerios á kvöldin, mér er sagt að þegja meðan fréttatíminn er, o.s.frv. sem þið sjálfsagt kunnið öll og kannist við. Ég held þess vegna að jafnframt því sem við þurfum að sjálfsögðu að sjá um að bæta skóla okkar og þetta frv. sé væntanlega merkilegt innlegg í alla þá umræðu, þá þurfum við líka að leggja okkar af mörkum til að styðja við fjölskylduna sem ég tel að þurfi hér eftir sem hingað til að vera undirstöðueining í okkar þjóðfélagi. Ég skal ekki eyða tímanum lengur að sinni í að spjalla um þetta mál þó um það mætti margt fleira segja. En að lokum vil ég leggja til að sú nefnd sem hér hefur verið talað um og hefur eitthvað hugað að fjölskyldumálefnum verði endurvakin.