Stofnun og slit hjúskapar
Miðvikudaginn 25. október 1989


     Danfríður Skarphéðinsdóttir:
    Virðulegur forseti. Ég ætlaði aðeins að gera hér örstutta athugasemd og snertir hún raunar sama efni og hv. 4. þm. Suðurl. minntist á hér áðan.
    Það er nú svo að hjónaskilnuðum hefur farið mjög fjölgandi í okkar þjóðfélagi á síðustu árum og það má vera að oft séu sættir um leið ráðgjöf þeirra sem sátta leita milli hjóna. Þar er fjallað bæði um félagsleg, efnahagsleg og tilfinningaleg málefni. Á seinni árum hafa margir prestar farið til framhaldsnáms í fjölskyldu- og hjónabandsráðgjöf. Spurning mín til hæstv. dómsmrh. er varðandi það yfirvald sem hann ætlar þessar sættir skv. því frv. sem hér liggur fyrir, hvort hann telji þessi tilteknu yfirvöld hafa þær aðstæður og þá faglegu þekkingu einmitt á þessum málum, þ.e. sem snerta félagslega og tilfinningalega þáttinn, til að standa í sáttaumleitunum. Það hvarflaði að mér þegar ég sá þetta hvort þetta væri ekki verkefni t.d. fyrir félagsráðgjafa.
    En ég vildi einnig koma að því atriði sem hv. 4. þm. Suðurl. nefndi hér áðan. Hvað með fólk sem er í trúfélögum? Getur það ekki valið hvort það leitar til borgaralegs yfirvalds? Vil ég í því sambandi benda á að á seinni árum hafa mjög margir látið gefa sig saman hjá borgaralegu yfirvaldi þó þeir séu í sama trúfélagi, hvort sem það er þjóðkirkjan eða önnur trúfélög. Eins og fram kom í máli hæstv. dómsmrh. þá er þetta gert til bráðabirgða vegna endurskoðunar á sifjalögum sem nú fer fram. Ég vildi því spyrja hann að lokum: Hvenær er ætlunin að sú nefnd skili tillögum að frumvarpi til laga um endurskoðuð sifjalög?