Stofnun og slit hjúskapar
Miðvikudaginn 25. október 1989


     Dómsmálaráðherra (Óli Þ. Guðbjartsson):
    Hæstv. forseti. Ég vil þakka fyrir þá umræðu sem hér hefur þegar orðið um þetta tiltölulega stutta frv. En eins og ég gat um í upphafi þá er hér einungis um að ræða mjög litla breytingu á 44. gr. laganna nr. 60/1972, um stofnun og slit hjúskapar. Ef ég sný mér fyrst að því að reyna að svara því sem kom fram í máli hv. 4. þm. Suðurl., og raunar einnig í máli hv. 6. þm. Vesturl., um efnisatriðin í þessari breytingu, þá er það rétt að breytingin er í rauninni eins lítil og frekast er kostur án þess að endurskoða alla greinina í heild. Eins og þessi mál eru nú í lögum hljóðar 44. gr. svo, með leyfi hæstv. forseta: ,,Áður en mál er höfðað til skilnaðar að borði og sæng eða lögskilnaðar eða umsókn er afhent um leyfi til skilnaðar að borði og sæng eða lögskilnaðar, skal leita um sættir með hjónum og kanna grundvöll að framhaldandi sambúð. Sáttanefnd leitar um sættir ef bæði fara fram á það eða hvort heyrir til sínu trúfélagi.`` Það er aðeins þessi seinasti liður sem ég las, um hlutverk sáttanefndar, sem lagafrv. hljóðar um að breyta. Síðan segir í greininni eins og hún er nú í lögum: ,,Ella skal prestur leita um sættir með þeim eða löggiltur forstöðumaður trúfélags.`` Brtt. við lögin hljóðar sem sagt ekki um að breyta þessu atriði. Ég get út af fyrir sig alveg fallist á það sjónarmið sem kom fram hjá hv. 4. þm. Suðurl. að þetta mætti gjarnan vera rýmra. Og vitaskuld getur sú breyting einnig komið fram hugsanlega í nefndarstarfi hér í þessari hv. deild og síðar í þinginu. En eins og kom fram í máli mínu áður þá er sifjalaganefnd að vinna að heildarendurskoðun þessara laga og eftir því sem ég veit best þá er gert ráð fyrir að því starfi verði lokið á þessum vetri. En ég get að vísu ekki nánar fullyrt um hvort það tekst.