Jöfnun raforkuverðs
Fimmtudaginn 26. október 1989


     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson):
    Virðulegi forseti. Í fyrirspurnatíma í Sþ. síðasta fimmtudag urðu umræður um þetta efni eða efni náskylt þessu. Þar kom m.a. fram að á síðasta áratug hefur náðst verulegur árangur í því að jafna húshitunarkostnaðinn í landinu. Ég minni sérstaklega á yfirtöku skulda orkufyrirtækja á undanförnum árum í því sambandi. Nú síðast í sumar var létt af Orkubúi Vestfjarða og Rafmagnsveitum ríkisins tveggja milljarða skuldum auk þess sem Rafmagnsveiturnar fengu afhent til eignar að nýju skuldabréf upp á 1 milljarð kr. sem stofnað var til þegar Hitaveita Suðurnesja keypti dreifikerfið á Suðurnesjum. Þessar aðgerðir höfðu þá þegar verulega mikil áhrif til þess að jafna raforkuverðið í landinu.
    Ég vék hins vegar líka að því, í svari við spurningu hv. 2. þm. Austurl. í þeim sama fyrirspurnatíma, að iðnrn. á nú í viðræðum við Landsvirkjun um fjölgun á afhendingarstöðum, sölupunktum raforku í stofnlínukerfinu. Tilefni þessara viðræðna eru kvartanir frá dreifiveitum sem nú kaupa raforku frá Rafmagnsveitunum og greiða um 13% hærra heildsöluverð fyrir orkuna, miðað við sömu spennu, en þær veitur sem eiga kost á beinum viðskiptum við Landsvirkjun. Álagning Rafmagnsveitnanna á gjaldskrá Landsvirkjunar er að sjálfsögðu til að mæta kostnaði við flutning orkunnar og telja veiturnar að álagningin hrökkvi þar rétt til.
    Ég hef gengist fyrir þessum viðræðum í því skyni að jafna þennan mun á heildsölugjaldskránni. Ég tel að milliliðalaus viðskipti Landsvirkjunar við allar rafveitur í landinu séu í samræmi við lögin um Landsvirkjun og ég hef lagt á það áherslu í þessum viðræðum að samkomulag gæti tekist um slíka jöfnun. En auðvitað er rétt að benda á að veiturnar sem hér eiga hlut að máli standa mjög misjafnlega að vígi og það væri í raun og veru nauðsynlegt, til þess að sanngirni og hagkvæmni sé gætt, að jafna um leið kjörin innan héraða, að bæta skipulag raforkukerfisins, bæði frá sjónarmiði hagkvæmni og sanngirni heima í héraði. Ég vona að sá aðlögunartími sem ég hef ætlað til þessara breytinga verði notaður til þessa og það mun auðvitað flýta fyrir því að hægt sé að afhenda raforkuna á sama verði í öllum landshlutum.
    Ég geri ráð fyrir að það samkomulag, sem ég vona að takist um þetta mál milli ráðuneytisins, Landsvirkjunar og Rafmagnsveitna, feli í sér að allar rafveitur muni eiga kost á að kaupa rafmagn í heildsölu samkvæmt sömu gjaldskrá eftir nokkurra ára aðlögunartíma. Á aðlögunartímanum verði sá munur sem nú er á þessum heildsölugjaldskrám lækkaður í áföngum. Ég vona að þetta svari þeirri spurningu sem hv. fyrirspyrjandi beindi til mín undir fyrri lið sinnar tvíþættu fsp.
    Ég vík þá að síðari liðnum en þar spurði hv. 1. þm. Vesturl. hvaða áform ríkisstjórnin hefði uppi til þess að smásöluverð á raforku verði hið sama til notenda hvort sem um er að ræða til húsahitunar eða almennra nota.

    Ég leyfi mér að skilja þessa spurningu svo að hann eigi annars vegar við að verð á raforku til húsahitunar og hins vegar verð á raforku til almennra nota verði hið sama til allra notenda í landinu. Vegna þess eðlismunar sem er á þessum tvennum viðskiptum með orkuna tel ég varla líklegt að það verði nokkurn tíma alveg sama verð á orku til hitunar og ljósa eða annarra almennra nota. En eins og kom fram í svari mínu við fsp. hv. 2. þm. Austurl. sl. fimmtudag hef ég falið Hagfræðistofnun Hagstofu Íslands að gera athugun á orkuverði, orkusköttum og niðurgreiðslum og reyndar að meta áhrif allra afskipta stjórnvalda af orkuverði á þessum áratug og um þessar mundir sem til hefur verið gripið til þess að jafna orkuverðið. Ég ítreka það sem ég sagði þá, að ég mun móta tillögur um endurskoðun stefnunnar hvað varðar skattlagningu og niðurgreiðslu á orku, m.a. með orkujöfnun fyrir augum, en líka hagkvæman orkubúskap, þegar Hagfræðistofnunin hefur lokið því verkefni sem henni hefur verið falið.