Atvinnumálanefndir
Fimmtudaginn 26. október 1989


     Hagstofuráðherra (Júlíus Sólnes):
    Virðulegur forseti. Hv. 6. þm. Reykn. sá ástæðu til þess að fara að gera tortryggilega skipun nefndarmanna í starfshóp um atvinnustefnumál sem ég hef skipað mér til ráðuneytis. Vekur það nokkra furðu mína því ég tek undir með hv. 4. þm. Reykn. að það hlýtur að vera málefni þeirra sem eru atvinnulausir og þeirra úti á landsbyggðinni sem eru að leita sér að nýjum atvinnutækifærum að leysa þau mál en ekki að reyna að gera það tortryggilegt hverjir eru fengnir til þess að hjálpa til við að leita uppi nýjar lausnir í þeim efnum. Varðandi Ernu Hauksdóttur sem hefur fallist á að starfa með nefndinni þá er það ofur einfalt mál. Þegar við hittumst á fyrsta fundi nefndarinnar kom okkur saman um að okkur vantaði liðsauka til þess að fjalla um ferðamálaþáttinn sem er mikilvægur þáttur í atvinnuuppbyggingu, sérstaklega úti á landsbyggðinni. Ferðamál hafa skilað okkur miklum og góðum tekjum undanfarin ár og það eru allar líkur á því að það geti orðið mjög blómlegur iðnaður á Íslandi að sinna ferðamönnum og þjónusta þá. Þess vegna þótti okkur ráðlegt að fá einn góðan starfskraft eða liðsmann í lið með okkur til þess að fjalla um þann þátt mála. Þar varð Erna Hauksdóttir fyrir valinu og ég held að þar hafi tekist vel til.
    Hitt er öllu sérkennilegra að gera athugasemd við það þó leitað sé aðstoðar sérfræðinga um markaðsmál og alþjóðleg peningaviðskipti sem hlýtur á næstu árum að verða geysilega þýðingarmikill þáttur í allri atvinnuuppbyggingu á Íslandi. Ef við ætlum að reyna að fara út í að framleiða hér eitthvað sem við ætlum að reyna að koma á markað erlendis þá er það fyrst og fremst markaðssetning og markaðsleit sem ræður þar úrslitum. Og það er ekki síst hinn stóri markaður Evrópubandalagsins sem blasir við okkur. Það er þar sem við þurfum að þreifa fyrir okkur á næstunni. Og hverjir eru það meðal nágranna okkar sem eru þar innan dyra? Það eru einmitt Danir. Það er engin önnur Norðurlandaþjóð sem hefur eins góða yfirsýn yfir þann stóra markað og getur veitt okkur eins mikla aðstoð og hjálp við það að leita og þreifa fyrir okkur með markaðssetningu á okkar afurðum inn á þann stóra markað. Þess vegna þykir mér það alveg með ólíkindum að vera að fetta fingur út í það að leitað sé til sérfræðinga einmitt á þessu sviði sem geta veitt okkur ómetanlega aðstoð í þessum efnum. Þetta hefur gífurleg áhrif á hugsanlega atvinnuþróun og atvinnuuppbyggingu á Íslandi. Ég lýsi því vonbrigðum með svona málflutning. ( Gripið fram í: Hvað kostar hún, ráðherra?) Fyrirgefið, ég gleymdi að geta þess. Þess skal getið að þessi ágæti maður, sem hefur fallist á að starfa með þessari nefnd, hann gerir það okkur að kostnaðarlausu.