Atvinnumálanefndir
Fimmtudaginn 26. október 1989


     Forsætisráðherra (Steingrímur Hermannsson):
    Virðulegi forseti. Ég vil svara örstutt því sem hér kom fram frá hv. þm. Guðrúnu Agnarsdóttur. Ríkisstjórninni er að sjálfsögðu mjög vel kunnugt um þessa áætlun. Hún hefur verið send öllum stofnunum, ekki bara þeim sem heyra undir félmrn. og ég leyfi mér að fullyrða að þetta sé mjög haft að leiðarljósi þegar ráðið er í stöður. Hins vegar er í mörgum tilfellum svo að konur fást ekki í ákveðnar stöður eða talið er að einhver karlmaður sé færari í ákveðið verkefni og vitanlega verður það þá að ráðast. Ég held að hv. þm. sé ljóst að fjölmargar prýðiskonur hafa verið ráðnar í ýmsar stöður á vegum þessarar ríkisstjórnar án þess að ég fari að telja það upp, t.d. aðstoðarmenn ráðherra o.fl. Í þessu tilfelli vill því miður svo til að þeir menn sem taldir voru hafa þá þekkingu sem þyrfti að koma inn í þessa nefnd eru ekki konur, eins og t.d. formaður Atvinnutryggingarsjóðs útflutningsgreina, efnahagsráðgjafi ríkisstjórnarinnar, efnahagsráðgjafi fjármálaráðherra, svo ég nefni þarna nokkra. Því miður, segi ég. Ekki vegna þess að konur séu ekki færar á þessum sviðum en í þessi ákveðnu störf höfðu konur því miður ekki valist.
    Mér er ekki kunnugt um það hvort farið er eftir þessum tillögum eða reglum hjá Vinnuveitendasambandi Íslands, Vinnumálasambandi samvinnufélaganna og Alþýðusambandi Íslands, en vitanlega er mjög eðlilegt að koma þeim þar einnig á framfæri.