Atvinnumálanefndir
Fimmtudaginn 26. október 1989


     Guðmundur H. Garðarsson:
    Virðulegur forseti. Ég ætla að reyna að taka hæstv. forsrh. á orðinu. Hann sagði hér áðan í sinni ræðu að hann vildi endurskoða aðild að þessum nefndum með það sérstaklega í huga að konur fengju þar aukna aðild. Ég sé að ráðherra samþykkir það. Þess vegna vildi ég beina því til hæstv. ráðherra að hann láti nú ekki aðila vinnumarkaðarins eina um það að skipa í nefndir. Ég þekki það af fenginni reynslu frá fyrri tíð að sú skipan manna í nefndir gerist með öðrum hætti en það sé gert eftir því hvort það eru konur eða karlar. Þess vegna vildi ég vekja athygli ráðherra á því að atvinnuleysi er mjög mikið meðal kvenna í verslunarstétt þannig að það væri ekki óeðlilegt að konur úr þeirri grein fengju aðild að þessum nefndum með sérstöku tilliti til þess að styrkja stöðu þeirra. Þetta er láglaunafólk, þetta er fólk sem á í miklum erfiðleikum með að fá störf annars staðar. Ég vildi því beina því sérstaklega til ráðherra, og einnig með tilliti til þess að nú er nýbúið að kjósa konu til forustu í Landssambandi ísl. verslunarmanna, hvort ekki kæmi til greina að ráðherra mundi standa við það sem hann sagði, að endurskoða skipan nefndanna og tilnefna þar fleiri konur.