Atvinnumálanefndir
Fimmtudaginn 26. október 1989


     Fyrirspyrjandi (Hjörleifur Guttormsson) (um þingsköp) :
    Virðulegur forseti. Mér þykir það mjög leitt að þurfa að koma hér inn í þessa umræðu undir forminu um þingsköp en ég tel það algjörlega óhjákvæmilegt vegna úrskurðar forseta þess efnis að mér gefist ekki kostur á því sem fyrirspyrjanda að gera hér örstutta athugasemd þó svo að ég hafi nýtt rétt minn til þess að tala hér samkvæmt þingsköpum varðandi fsp.
    Ég vil inna hæstv. forseta eftir því í ljósi hvaða ákvæða hæstv. hagstrh. er heimilað að koma inn í þessa umræðu og tala hér tvívegis undir heimildinni um örstutta athugasemd.
    Ég les það í 31. gr. þingskapa að öðrum þingmönnum en fyrirspyrjanda og hæstv. ráðherra sem svarar fsp. er heimilt að gera stutta athugasemd. Það hefur til þessa ekki verið túlkað þannig að viðkomandi geti komið tvívegis inn í umræðu. Ég þekki það einnig eftir að þessi þingsköp voru samþykkt 1985 að það var af fyrrv. forsetum sameinaðs þings farið með þingsköpin þannig að fyrirspyrjanda gafst ætíð kostur á því ef hann óskaði eftir að gera örstutta athugasemd eftir að hann hafði nýtt rétt sinn til þess að koma inn í umræðu.
    Ég ætlaði hér að nota þennan rétt sem ég taldi að væri helgaður að venju samkvæmt þingsköpum til þess að gera athugasemdir við það sem fram kom hjá hv. þm. Karli Steinari Guðnasyni og reyndar hjá fleirum að því er snerti samsetningu nefnda. En ég ætla ekki að fjalla um það hér. Ég er að ræða hér þingsköp og ég harma það að forseti skuli fara þannig með vald sitt að brjóta gegn þingsköpum varðandi það að hleypa mönnum hér tvívegis inn í umræðuna, og það ráðherrum sem ekki er beint fyrirspurnum til, en neita fyrirspyrjanda um það að gera örstutta athugasemd.