Atvinnumálanefndir
Fimmtudaginn 26. október 1989


     Forseti (Guðrún Helgadóttir):
    Vegna orða hv. 2. þm. Austurl. skal hér lesið úr 31. gr. þingskapalaga en þar segir svo:
    ,,Fyrirspyrjandi eða framsögumaður fyrirspyrjenda mælir fyrir fyrirspurn. Ráðherra, er hlut á að máli, svarar síðan fyrirspurn. Hvor um sig, fyrirspyrjandi og ráðherra, má ekki tala oftar en tvisvar, fyrirspyrjandi eigi lengur en tvær mínútur og ráðherra eigi lengur en fimm mínútur í senn. Öðrum þingmönnum er heimilt að gera stutta athugasemd.``
    Það fer því ekki á milli mála að það er rangt hjá hv. fyrirspyrjanda að hann eigi minnsta rétt á að tala oftar en tvisvar.
    Varðandi síðari þátt gagnrýni hans á því að hæstv. ráðherra Hagstofu Íslands hefur fengið leyfi forseta til að fara tvisvar í ræðustól, þá er ástæðan fyrir því einfaldlega sú að mál það er hér er á dagskrá varðar einnig hans ráðuneyti svo forseta þótti rétt að hann fengi að svara fyrir það. Og í raun og veru hefði hv. fyrirspyrjandi átt að beina fsp. sinni til beggja ráðherranna, hæstv. forsrh. og hæstv. ráðherra Hagstofu Íslands.