Fyrirspyrjandi (Alexander Stefánsson):
    Virðulegi forseti. Ég hef leyft mér á þskj. 30 að bera fram fsp. til hæstv. landbrh. um greiðslur til bænda samkvæmt jarðræktar- og búfjárræktarlögum.
,,1. Hver er staða lögboðinna greiðslna til bænda samkvæmt jarðræktarlögum: a) fyrir árið 1987 og eldra, b) fyrir árið 1988?
    2. Hver er staða lögboðinna greiðslna til bænda samkvæmt búfjárræktarlögum: a) fyrir árið 1987 og eldra, b) fyrir árið 1988?
    3. Hver er staða lögboðinna greiðslna til búnaðarsambanda: a) fyrir árið 1987 og eldra, b) fyrir árið 1988?``
    Tilefni þess að þessi fsp. er borin fram er sú að við umræður um fjárlög fyrir árið 1989, um lánsfjárlög fyrir árið 1989 og við setningu nýrra jarðræktarlaga og búfjárræktarlaga var þetta mál upplýst þannig að það var ljóst að bændur landsins eiga samkvæmt lögum inni allmiklar fjárhæðir hjá ríkissjóði og rætt um það hvaða ráðstafanir væri hægt að gera til þess að staðið yrði við lög að þessu leyti til.
    Við þessar umræður komu fram yfirlýsingar frá hæstv. landbrh. í sambandi við þessi mál sem gerði ráð fyrir ákveðinni lausn á þessu vandamáli og í lánsfjárlögum fyrir 1989, sbr. 28. og 29. gr., er gefin heimild til að leysa þetta vandamál, sbr. 28. gr. lánsfjárlaga, en þar segir, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Þrátt fyrir ákvæði 10. gr. laga nr. 56/1987, jarðræktarlaga, skal framlag ríkissjóðs til jarðabóta eigi fara fram úr 100.000 þús. kr. á árinu 1989. Þó er fjármálaráðherra heimilt, að höfðu samráði við landbúnaðarráðherra og fjárveitinganefnd Alþingis, að semja um uppgjör ógreiddra framlaga til jarðræktarframkvæmda á árinu 1988.``
    Og sama gildir um 29. gr., um búfjárræktarlögin.
    Þetta er að vísu samningsheimild en hins vegar er ljóst að eins og staðan er í dag, að því er ég hef upplýsingar um, eru þessar greiðslur ekki komnar til bænda nema að hluta til fyrir árið 1987 og þar af leiðandi er ástæða til, með tilliti til þess sem stendur í fjárlögum fyrir árið 1990, að óska eftir upplýsingum á þessu stigi máls. Þess vegna eru þessar fsp. hér lagðar fram.