Landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon):
    Virðulegur forseti. Svör við fsp. hv. fyrirspyrjanda eru samkvæmt upplýsingum sem ég hef fengið hjá Búnaðarfélagi Íslands eftirfarandi:
    1. Staða lögboðinna greiðslna bænda samkvæmt jarðræktarlögum: a) greiðslur fyrir árið 1987 hafa að fullu verið inntar af hendi; b) fyrir árið 1988 er staðan þannig að heildarskuldbindingar til bænda voru 159 millj. 136 þús. Greitt hefur verið vegna framræslu 24 millj. 463 þús. og til loðdýrabænda 11 millj. 886 þús. þannig að ógreiddar eru 122 millj. 787 þús. kr.
    2. Til lögboðinna greiðslna til bænda samkvæmt búfjárræktarlögum: a) fyrir árið 1987 eru ógreiddar 15 millj. 835 þús. kr.; b) fyrir árið 1988 25 millj. 969 þús. kr.
    3. Staða lögboðinna greiðslna til búnaðarsambanda: a) fyrir árið 1987 samkvæmt jarðræktarlögum 2,5% af framkvæmdafjárhæð, 5 millj. 453 þús. kr. og samkvæmt búfjárræktarlögum 9 millj. 822 þús. kr. eða samtals 15 millj. 275 þús. kr.; b) fyrir árið 1988 samkvæmt jarðræktarlögum 7 millj. 39 þús. kr. og samkvæmt búfjárræktarlögum 23 millj. 994 þús. kr. eða samtals 31 millj. 33 þús. kr.
    Ofangreindar fjárhæðir eru á verðlagi hvers framkvæmdaárs.
    Því er svo við að bæta að nú bíður og hefur beðið um hríð afgreiðslu í fjmrn. áætlun um uppgjör þeirra skulda sem hér hefur verið gerð grein fyrir og fjallað var um, sbr. mál fyrirspyrjanda á sl. vori við afgreiðslu frv. um breytingu á jarðræktar- og búfjárræktarlögum. Sú áætlun verður væntanlega afgreidd innan skamms og mun efni hennar að hluta til líta dagsins ljós við afgreiðslu fjáraukalaga en að öðru leyti verður efni þess skuldauppgjörs hluti af fjárlögum næsta árs og næstu ára.