Fyrirspyrjandi (Alexander Stefánsson):
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. landbrh. fyrir svör hans. Ég taldi nauðsynlegt einmitt á þessu augnabliki að fá upplýsingar um þessi mál beint frá hæstv. ráðherra þar sem ég veit að hann á í samningum við hæstv. fjmrh. um að standa við það sem stendur í lánsfjárlögum, möguleikum á því að gera þessi mál upp og eins það sem hefur komið fram áður í þeim yfirlýsingum sem ég greindi hér frá áðan, bæði að því er varðar setningu þessara nýju laga og einnig í sambandi við afgreiðslu lánsfjárlaga fyrir árið 1989.
    Hér er um mjög alvarlegt mál að ræða ef ekki verður hægt að koma góðri skipan á þessi mál, greiðslu lögbundinna framlaga, eftir að búið er að setja ný jarðræktarlög og ný búfjárræktarlög sem gera beinlínis ráð fyrir því að það verði hægt að ganga til hreinni aðgerða í sambandi við þessi mál en fyrri lög gerðu ráð fyrir. Þess vegna tel ég að það sé mjög mikilvægt að skoða þessi mál nú í ljósi þeirrar reynslu sem fyrir liggur í dag og ég treysti því eins og ég hef áður lýst yfir, að hæstv. landbrh. gangi þannig fram í þessu máli að það verði staðið við þau fyrirheit og þær yfirlýsingar sem gefnar hafa verið í sambandi við þessar lagabreytingar sem ég nefndi hér fyrr og bændur treysta á að þeir hafi nú fast land undir fæti hvort sem um beinar greiðslur er að ræða eða hreina samninga um væntanlegar greiðslur.