Landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon):
    Virðulegur forseti. Það var eingöngu til að leiðrétta hv. 2. þm. Norðurl. e. Hann ætti að halda sig hérna inni í þingsalnum þannig að hann heyrði rétt það sem hér er rætt um en misskildi það ekki eða misheyrði. Ég sagði að það hefði verið staðið við þau fyrirheit sem bændum voru gefin vegna uppgjörs jarðræktarframlaga. Ég sagði ekki eitt orð um það sérstaklega að staðið hefði verið við fyrirheit til loðdýrabænda. Ég rakti það hins vegar að loðdýrabændur hefðu vegna þeirra sérstöku erfiðleika sem þeir eiga í verið teknir fram fyrir aðra bændur vegna framkvæmda á árinu 1988 og uppgjöri við þá lokið. Í því felst sérstök afgreiðsla til loðdýrabænda en það sem ég sagði um að staðið hefði verið við fyrirheit átti almennt við fyrirheit varðandi uppgjör jarðræktar- og búfjárræktarframlaga.