Samgöngur yfir Hvalfjörð
Fimmtudaginn 26. október 1989


     Fyrirspyrjandi (Alexander Stefánsson):
    Virðulegi forseti. Á þskj. 32 hef ég leyft mér að gera fsp. til hæstv. samgrh. um úttekt og álit starfshóps um samgöngur undir eða yfir utanverðan Hvalfjörð sem hljóðar þannig:
    ,,Hver er niðurstaða starfshóps sem samgönguráðherra skipaði 1. ágúst sl. til að fjalla um hugmyndir um samgöngur undir eða yfir utanverðan Hvalfjörð og ætlað var að skila áliti eigi síðar en 10. okt. 1989 er Alþingi kæmi saman?``
    Það þarf ekki að hafa langt mál um þetta mál. Það hefur verið gert opinbert að stjórnendur Sementsverksmiðju ríkisins og Íslenska járnblendifélagsins tóku visst frumkvæði í þessu máli með bréfi til samgrh. dags. 8. febr. 1989, þar sem fyrirtækin ásamt verktakafyrirtæki bjóðast til að taka á sig kostnað og áhættuna af því að gera undirbúningsrannsóknir sem nauðsynlegar eru til að ganga úr skugga um hvort jarðgangagerðin sé tæknilega möguleg og fjárhagslega fýsileg. Enn fremur var í samningsdrögum gert ráð fyrir stofnun sérstaks hlutafélags sem fengi einkarétt til byggingar og reksturs slíks mannvirkis um tiltekið árabil og jafnframt að göngin yrðu síðar eign ríkisins án endurgjalds að þeim tíma liðnum.
    Þingmenn Vesturl. áttu fund með hæstv. samgrh. 25. júlí sl. þar sem þessi mál voru rædd og viðhorf ráðherra og ríkisstjórnar og lögð áhersla á það að svar við þessu erindi yrði gefið.
    Eins og hér kom fram skipaði hæstv. ráðherra nefnd 1. ágúst sl. sem gert var ráð fyrir að skilaði áliti 10. okt. sl. Þar sem mikill áhugi er fyrir þessu máli, þá taldi fyrirspyrjandi rétt að inna hæstv. ráðherra eftir því hvernig þetta mál stæði í dag og fá um það upplýsingar í sambandi við framhald málsins.