Samgöngur yfir Hvalfjörð
Fimmtudaginn 26. október 1989


     Eiður Guðnason:
    Virðulegi forseti. Ég verð að viðurkenna að það kom mér dálítið á óvart þegar þessi fsp. kom fram vegna þess að ég hygg að öllum þingmönnum Vesturl. hafi verið ágætlega vel kunnugt um stöðu málsins. Svar hæstv. samgrh. var skýrt og greinargott. Þar kemur fram að þessi vinna er í gangi og ég tek undir það sem fram kom í hans ræðu, að auðvitað ber að vanda þetta vel og ígrunda alla þætti málsins. Kannski var það óraunhæft í upphafi að nefna dagsetninguna 10. okt. Því held ég að allir geri sér grein fyrir eftir á. Ég ber fullt traust til þess sérfræðingahóps sem er að vinna að málinu og mér finnst ekkert óeðlilegt við það þó þeirra álit verði ekki tilbúið fyrr en undir áramót því auðvitað skiptir mestu máli að þessi vinna sé vel af hendi leyst og að byggt sé á traustum grunni, hvað sem gert verður, og um það sé breið samstaða. Og ég endurtek að það kom mér á óvart að spurt skyldi um það sem ég taldi að allir þingmenn Vesturl. vissu mætavel.