Varaflugvöllur fyrir alþjóðaflug
Fimmtudaginn 26. október 1989


     Landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon):
    Virðulegi forseti. Það var eitt af mínum fyrstu verkum í samgrn. í lok septembermánaðar fyrir rúmu ári síðan að setja í gang athugun á möguleikum okkar Íslendinga til að leysa hið svonefnda varaflugvallarmál á okkar forsendum og í okkar þágu og alþjóðlegs farþegaflugs og alls borgaralegs flugs sem leið á um hina íslensku lofthelgi. Í framhaldi af því vann Flugmálastjórn álit sem var lagt til grundvallar tillögu um stefnumörkun að þessu leyti sem ég kynnti og lagði fram í ríkisstjórninni í janúarmánuði sl. og hlaut þar afgreiðslu. Í þeirri tillögu fólst í meginatriðum þrennt:
    Í fyrsta lagi að gerðar voru ráðstafanir til að auka viðbúnað á Akureyrarflugvelli, þannig að hann gæti betur en áður þjónað varaflugvallarhlutverki sem hann hefur reyndar gert um langt árabil fyrir Evrópuflugflota íslensku flugfélaganna. Þessar ráðstafanir fólu m.a. í sér eflingu tækjabúnaðar og hafa nú þegar komið á Akureyrarflugvöll endurnýjuð og öflug tæki, snjóruðningstæki, öflugur slökkvibíll. Í ár var lokið framkvæmdum við öryggissvæði meðfram flugvellinum. Settur var upp seint á síðasta ári og prófaður á þessu ári endurnýjaður og endurbyggður aðflugsradar og fleira mætti telja. Sumt var þetta inni á hinni samþykktu flugmálaáætlun. Annað hefur komið til sem viðbótarráðstafanir á Akureyrarflugvelli til að hann gæti betur sinnt sínu hlutverki. Þetta hefur reyndar þegar komið sér vel, eins og ég hygg að landsmenn kannist við, því að Akureyrarflugvöllur tók t.d. ítrekað við stórum hluta flugflota Íslendinga í sumar þegar flugvellirnir hér suðvestanlands lokuðust vegna þoku.
    Í öðru lagi fól þessi stefnumörkun og samþykkt í sér að við allar framkvæmdir og undirbúning frekari framkvæmda á Egilsstaðaflugvelli skuli við það miðað að sá flugvöllur geti þjónað öllu almennu flugi og verið varaflugvöllur fyrir nánast allt flug, hvers kyns sem það er, þ.e. brautin þar verði lengd í allt að 2700 metra. Hún verður samkvæmt ákvæðum flugmálaáætlunar að öllu leyti búin, brautin og allt sem henni tilheyrir, samkvæmt alþjóðlegum kröfum eins og reyndar öll okkar flugmálaáætlun gerir ráð fyrir. Þar er hver flugvöllur samkvæmt alþjóðlegum stöðlum í sínum stærðarflokki. Að þessu hefur þegar verið unnið á árinu, þ.e. allar framkvæmdir sem nú eiga sér stað á Egilsstaðaflugvelli taka mið af því að völlurinn geti í framtíðinni þjónað þessu hlutverki og undirbúnar hafa verið frekari framkvæmdir í framhaldi af þeim sem nú standa yfir. Rætt hefur verið við landeigendur um land undir stækkun flugvallarins, kannaðar hafa verið þar jarðvegsaðstæður og fleira mætti telja.
    Í þriðja lagi fól svo þessi afgreiðsla í sér að við þá endurskoðun flugmálaáætlunar sem mun fara fram á þessum vetri samkvæmt henni verða áherslur endurmetnar einnig í þessu ljósi, til að mynda hvort reikna eigi með því á næstu árum að fleiri

mikilvægustu héraðs- og/eða landshlutaflugvellir færist upp í svonefndan 1. flokk og komist þar með í raun í hóp þeirra flugvalla sem sinnt geta varaflugvallarhlutverki.
    Í fjórða lagi vil ég vekja athygli hv. fyrirspyrjanda á því að í fjárlagafrv. er gert ráð fyrir sérstakri upphæð, að vísu lágri, en það þarf ekki meira til sem stendur, til að halda áfram þessum undirbúningi að framkvæmdum á Egilsstaðaflugvelli, en stefnumörkunin fól það í sér að þær framkvæmdir, þ.e. lenging Egilsstaðaflugvallar, yrðu fjármagnaðar sérstaklega af fjárlögum en kæmu ekki af tekjustofnum flugmálaáætlunar, þannig að sú framkvæmd, viðbót á Egilsstaðaflugvelli, á ekki að hafa áhrif á framkvæmdahraða samkvæmt hinni almennu flugmálaáætlun.
    Þetta held ég og vona að svari hv. fyrirspyrjanda nokkuð vel. Það er alveg ljóst að það er enginn kostur sem er jafnhagstæður og getur jafnfljótt komið til framkvæmda, að mínu mati og að mati allra þeirra sérfræðinga sem á vegum Flugmálastjórnar og samgrn. hafa unnið að þessu máli, og sá að bæta við í beinu framhaldi af yfirstandandi framkvæmdum á Egilsstaðaflugvelli þeirri lengingu sem til þarf þannig að sá völlur geti að fullu þjónað öllu almennu flugi sem varaflugvöllur. Reyndar verður hann þar með fullnægjandi veður- og neyðarvaraflugvöllur fyrir hvaða flug sem er því að ég hygg að þær flugvélategundir fyrirfinnist tæpast á byggðu bóli, nema þá ef vera skyldi geimskutlan, sem ekki geti lent á 2700 metra flugbraut sem fullnægir öllum alþjóðlegum kröfum.
    Ef ég má svo bæta við einni setningu varðandi það sem hv. þm. nefndi réttilega: Nú er að verða veruleg breyting á samsetningu íslenska millilandaflugflotans og reyndar líka stórs hluta þess flugflota sem fer um okkar svæði. Þar eru þriggja og fjögurra hreyfla flugvélar að hverfa og í staðinn koma tveggja hreyfla flugvélar. Þetta er einmitt mjög jákvæð þróun vegna þess að þessar flugvélagerðir hafa það undantekningarlaust með sér að þær þurfa styttri flugbrautir, hvort sem heldur er til að lenda eða taka sig af og þess vegna liggur það í hlutarins eðli að fleiri af okkar flugvöllum, til að mynda flugvellir eins og Akureyrarflugvöllur og Sauðárkróksflugvölllur, geta í framtíðinni sinnt varaflugvallarhlutverki ef svo ber undir.