Erfiðleikar í loðdýrarækt
Fimmtudaginn 26. október 1989


     Landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon):
    Virðulegi forseti. Það er kunnara en frá þurfi að segja að erfiðleikar loðdýrabænda eru miklir og hafa verið nánast viðvarandi viðfangsefni núna um eins og hálfs til tveggja ára skeið. Þessi ríkisstjórn hefur ítrekað gripið til ráðstafana til að reyna að styðja við bakið á loðdýraræktinni í hennar miklu erfiðleikum. Þannig var í byrjun þessa árs ákveðin umtalsverð niðurgreiðsla eða verðjöfnun á fóðri til loðdýrabænda og teknar ákvarðanir um að hraða endurgreiðslu söluskatts til greinarinnar. Síðar á árinu var ákveðið að taka loðdýrabændur sérstaklega fram úr og gera upp við þá jarðræktarstyrki vegna framkvæmda á árinu 1988, eina bænda. Snemma sumars var enn ákveðið að auka við fóðurniðurgreiðsluna þar sem sýnt þótti að eftir sem áður mundu menn naumast ná að klára framleiðsluferli þessa árs með viðráðanlegum hætti og er nú svo komið að á hvert kg fóðurs eru greiddar 5,50 kr. og mun kostnaður af þessum aðgerðum á þessu ári einu nema 70--80 millj. kr., ef ég man þessar tölur rétt. Og enn var ákveðið um mitt sumar í framhaldi af nefndarstarfi og umtalsverðri vinnu að skipa þriggja manna nefnd til að undirbúa endanlegar tillögur um ráðstafanir, og nánast lyktir á þessu máli í vissum skilningi þess orðs, sem lagðar yrðu fyrir á haustinu í tæka tíð áður en pelsunartími hæfist þannig að mönnum mætti þá verða ljóst hvað í boði væri og hvað fram undan væri, hvað ráðstafanir stjórnvalda og lánastofnana snerti varðandi loðdýraræktina. Ef með þarf verða þær tillögur, eins og opinberlega hefur verið gerð grein fyrir, lagðar fyrir Alþingi og ætlunin var að þær lægju fyrir nú sem allra fyrst á starfstíma þingsins. Þessa nefnd skipa fulltrúar frá Byggðastofnun, Þjóðhagsstofnun og landbrn. Hún hefur starfað mikið að undanförnu og ég átti síðast í fyrradag með henni langan fund þar sem farið var yfir hennar mál og þá stöðu og ég geri mér vonir um að því nefndarstarfi megi ljúka núna innan tiltölulega fárra daga og þær tillögur sem í framhaldi
af því verða lagðar fram líti þá dagsins ljós ef svo æxlast hér inni á Alþingi í formi þáltill. og/eða lagafrv. um ráðstafanir gagnvart loðdýrarækt og verður þá hv. þm. ljóst þar með til hvaða ráðstafana verður gripið.
    Ég er sammála hv. fyrirspyrjanda um að það er afar brýnt að fá sem allra fyrst niðurstöðu í þetta mál en vandinn er mikill og erfiður og auðvitað eru þrengingar þess fólks sem þarna hefur orðið fyrir ýmsum áföllum miklar, það er okkur öllum ljóst. Það hefur verið gripið til ákveðinna ráðstafana til að skapa svigrúm fyrir þá vinnu sem hér hefur verið gerð grein fyrir. M.a. hafa bankar og lánastofnanir samþykkt að ganga ekki að loðdýrabændum á meðan hún færi fram og halda að sér höndum varðandi innheimtu á skuldum. En augljóst má vera að það verður að fást í þetta niðurstaða nú á næstu vikum þannig að áður en pelsunartími hefst eða a.m.k. áður en honum lýkur þá liggi fyrir endanleg afgreiðsla málsins. Það verður

sem sagt unnið að því með öllum tiltækum ráðum á næstunni.