Erfiðleikar í loðdýrarækt
Fimmtudaginn 26. október 1989


     Egill Jónsson:
    Virðulegi forseti. Ég fagna því að þetta mál skuli hafa verið tekið hér til umræðu í fyrirspurnatíma. Ég tek undir orð hæstv. landbrh. að því leyti að hér er um erfitt mál að ræða eins og það er nú komið.
    Það er augljóst mál að ríkisstjórnin hefur ekki náð samkomulagi um aðgerðir í þessum efnum. Reyndar liggur það nú fyrir úr hinni pólitísku og þjóðfélagslegu umræðu á þessu sumri og eins og þá var síðast frá sagt þegar sú umræða féll niður að málið yrði tekið hér upp á Alþingi eftir að það kæmi saman. Nú hefur hæstv. landbrh. staðfest það og það er að sjálfsögðu mikilvægt að málið skuli berast hingað inn á Alþingi þar sem mönnum gefst þá kostur á að ræða það í samhengi.
    Ég vil hins vegar láta það koma hér fram, án þess að ég ætli að átelja hæstv. landbrh. fyrir það, að þau loforð, sem gefin voru út sl. sumar um að loðdýrabændur fengju gálgafrest varðandi kröfur af hendi sinna lánardrottna, bankanna í landinu, hafa alls ekki staðist. Það hafa verið birtar uppboðstilkynningar í Lögbirtingablaðinu og menn hafa fengið stefnuvotta heim til sín til að krefja og tilkynna um vanskil og sérstakar aðgerðir af hendi bankanna. Þetta eru að sjálfsögðu algjörlega óforsvaranleg vinnubrögð og með öllu ólíðandi.
    Mér fannst nauðsynlegt að þetta kæmi fram í þessari umræðu því að það þóttu út af fyrir sig góðar fréttir að þetta fólk fengi að vera í friði í sumar, það fengi að vera í friði þar til niðurstaða fengist í málið. Við það hefur ekki verið staðið af hendi bankanna þó að þeir hafi gefið um það loforð og það hlýtur að vera mikið áhyggjuefni að svo skuli hafa farið.