Erfiðleikar í loðdýrarækt
Fimmtudaginn 26. október 1989


     Stefán Valgeirsson:
    Virðulegi forseti. Það er auðvitað nauðsynlegt að þetta mál komist hér inn á þing sem allra fyrst og það liggi nokkuð ljóst fyrir hvernig staða málsins mundi verða hér á Alþingi. Ég verð að taka það svo að t.d. fyrirspyrjandi og hv. 4. þm. Austurl. muni verða fúsir til þess að styðja ráðherrann í þeirri lausn sem hann er að reyna að berjast fyrir að koma í gegnum Alþingi.
    En ég vil bara segja eitt í þessu sambandi. Það eru auðvitað margar ástæður fyrir því hvernig komið er. Það er verðhrun en það er ekki síst fjármagnskostnaður.
    Í sambandi við það sem hefur komið fram að bankarnir hafi ekki staðið við það í einhverjum tilvikum að geyma þessi mál fram á haustið, þá er það að vísu rétt að sumir hafa t.d. sent auglýsingu, en ég veit ekki til annars en það hafi verið stoppað í hvert einasta sinn og það eru þá ýmsar aðrar ástæður sem liggja þá fyrir því heldur en mér er kunnugt um að ráðherra hefur gengið frá þessum málum að þetta átti að standa. Og ég vona að það hafi staðið í flestum tilvikum og ég veit ekki, það getur vel verið, en ég veit ekki til þess t.d. að ríkisstofnanir eða sjóðir hafi gengið að þessum mönnum nema þar sem var orðið gjaldþrot áður. ( HBl: Ég er að tala um ríkissjóð.) Ég veit ekki til þess.