Erfiðleikar í loðdýrarækt
Fimmtudaginn 26. október 1989


     Alexander Stefánsson:
    Virðulegi forseti. Ég vil þakka þær upplýsingar sem komu fram hjá hæstv. ráðherra um það að þetta mál sé á því stigi að senn megi búast við því að hér komi úrlausnartillögur inn á hv. Alþingi. Ég tel að það sé meginmálið eins og málið er komið í dag í meðferð þessa máls.
    Og ég vil segja það að ég tel að það sé ein af meginskyldum Alþingis í sambandi við þetta mál að það verði hægt að finna úrræði til þess að koma til móts við þá loðdýrabændur sem þegar hafa neyðst til þess að hrökklast af búum sínum með þeim hörmulegu afleiðingum að fjölskyldur hafa sundrast og allir skilja hvað það þýðir. Því miður eru þessa dæmi og þau eru hörmuleg og ég tel það skyldu Alþingis í stöðu málsins að skoða þetta þegar málið kemur í heild hér inn á Alþingi enn á ný.
    En ég fagna sem sagt þeirri yfirlýsingu ráðherra að senn líður að því að þetta mál komi inn á Alþingi. Þá reynir á hv. þm., hvernig þeir ætla að bregðast við.