Fjárlög 1990
Fimmtudaginn 26. október 1989


     Málmfríður Sigurðardóttir:
    Herra forseti. Við fyrstu umræðu um fjárlagafrv. fyrir næsta ár hljóta menn að hugleiða hvaða áhrif það hafi á líf fólksins í landinu. Hvað boðar þetta plagg fjölskyldum og heimilum? Þessar spurningar vakna óhjákvæmilega í hvert sinn er rekstrar- og framkvæmdaáætlun ríkisins fyrir komandi ár lítur dagsins ljós.
    Þetta frv. boðar landsmönnum stórfelldan niðurskurð á opinberum framkvæmdum. Það boðar samdrátt í þjóðartekjum og atvinnuskort. Það boðar samdrátt í þjónustu en þenslu í ríkiskerfinu og það boðar stórfelldar kerfisbreytingar sem menn bera ugg í brjósti um hvaða afleiðingar hafi fyrir einstaklinga, fyrir fyrirtæki og fyrir sveitarfélög.
    Það má einnig segja um þetta frv. í stuttu máli að framsetning þess er á þann veg að oft er erfitt að átta sig á merkingu ýmissa atriða auk þess sem málfarið er oft þannig að það er torvelt fyrir venjulegt fólk að skilja hvert verið er að fara. Málræktarátakið blessað þyrfti greinilega að ná til þeirra sem semja textann.
    Margt í frv. er misvísandi, óljóst og óútfært. Erfitt er um samanburð til fyrri ára, bæði vegna þess hvernig það er uppsett og eins vegna kerfisbreytinganna sem orðnar eru. Fjölmargar lagabreytingar verður að framkvæma áður en hægt er að afgreiða fjárlög endanlega og er nú kominn tími til að leggja þau mál fram ef afgreiðsla á að nást í tæka tíð.
    Það er nú að verða árlegur viðburður að fjármálaráðherrar geysist fram á völlinn með frv. til fjárlaga í faðminum og telji það boða tímamót og brjóta blað í efnahagssögunni. Þetta gerðist haustið 1987 og aftur fyrir tæpu ári og nú enn í ár. Og nú áttu landsmenn að lifa þessi tímamót, þessi gleðilegu umskipti á þessu ári, að fastur rammi fjárlaga væri um efnahagsmálin og allt
innan hans væri sem best væri á kosið. Skemmst er af því að segja að ekkert af þessu hefur gengið eftir --- ekkert blað hefur verið brotið við fjárlagagerð, hvorki 1987--1988 né heldur nú. Tekjuöflunarkerfi ríkisins hefur að vísu tekið gagngerum breytingum á þessum árum, skattheimta aukist --- gjöld ríkisins farið sívaxandi --- en grundvallarbreytingar hafa engar orðið á gerð fjárlaga, hvorki fyrr né nú. Fæstar af forsendum fjárlaganna hafa staðist og gjöld farið úr öllum böndum og ég undrast sannarlega kokhreysti hæstv. ráðherra, að koma hér fram á ný undir sömu formerkjum og áður og ætlast til þess að fólk trúi honum þegar veruleikinn blasir við. Forsendur fjárlaga þessa árs urðu markleysa, og hví skyldu menn trúa þessum betur?
    Forsendur frv. byggjast sem endranær á efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar og áætlun Þjóðhagsstofnunar um horfur um efnahag á næstu árum og spyrja má hversu tryggur sá grunnur sé í ljósi þess sem ég sagði áðan, að verðlagsforsendur fjárlaga á undangengnum árum hafa sjaldan staðist. Minna má á að í fjárlögum þessa árs var verðbólga

áætluð 12% en stefnir nú í að vera 25% og gengisbreytingar hafa einnig orðið meiri á árinu en gert var ráð fyrir.
    Í frv. er gert ráð fyrir að verðbólga verði 16% og gengi haldist óbreytt á næsta ári. Þegar litið er til þess hvernig slíkar spár hafa staðist yfirleitt undanfarin ár er ástæða til að setja spurningarmerki við þessar niðurstöður. Í ljósi þess að ekki mun ætlað að ganga mikið lengra í fyrirgreiðslu við útflutningsatvinnuvegina liggur fyrir að gengið mun verða fellt á næstu vikum og óhjákvæmilegt er að búast við gengissigi eða jafnvel gengisfellingu fljótlega eftir áramót.
    Í áætlun Þjóðhagsstofnunar er gert ráð fyrir verulegri kaupmáttarrýrnun á næsta ári og kjarasamningar eru lausir um áramót. Því spyr ég: Er líklegt að launafólk sætti sig við þennan boðskap? Er líklegt að þessi kaupmáttarrýrnun verði staðfest við gerð nýrra kjarasamninga við launafólk? Þarna er enn eitt atriðið sem vekur efasemdir um forsendur frv. og ég vil lýsa fyllstu vantrú á að forsendur þess um laun, verðlag og gengi standist fremur nú en undanfarið.
    Virðisaukaskattur tekur gildi um næstu áramót og ég vil minna á að þrátt fyrir allt það hagræði sem af honum á að hljótast er beinn kostnaður við að koma honum á 105 millj. fyrir utan ótal stöðugildi sem koma til vegna hans. Skatthlutfall virðisaukaskattsins er nú miðað við 26% og þá er ástæða til að minna á að í allri umræðu um upptöku hans á undanförnum árum hefur verið talað um og nánast lofað að prósentan yrði lægri en í söluskattinum illræmda, a.m.k. alls ekki hærri. Nú hafa þessi fyrirheit verið svikin og skattprósentan hækkuð. Það væri fróðlegt að vita hverju þessi hækkun skilar í ríkissjóð umfram það sem söluskatturinn hefði gert.
    Fólk er að vísu friðað með því að skattprósenta á helstu nauðsynjavörur heimilanna verði 13%, en þessum nauðsynjavörum heimilanna fækkar nú stöðugt í umræðunni. Nú eru þær ekki orðnar aðrar en kjöt og mjólk. Þar á ofan lækka niðurgreiðslur þannig að búast má við að lækkun á matvörum verði í raun lítil sem engin. Virðisaukaskatturinn tekur til miklu fleiri þátta í sölu og þjónustu en söluskatturinn gerði og veldur víðtækum verðlagsbreytingum. Það er einnig augljóst að gjaldskrár ýmissa þjónustustofnana muni hækka og það er
líka skattlagning. Í ljósi þessara staðreynda vil ég ítreka þá skoðun að verðlag muni hækka meira en ráð er fyrir gert.
    Undanfarin ár hafa orðið mjög gagngerar breytingar á tekjuöflunarkerfi ríkissjóðs og um áramót tekur virðisaukaskatturinn gildi. Eins og ég sagði áðan: enn ein breytingin.
    Í skjóli fyrri breytinga hafa orðið gífurlegar skattahækkanir á almenning og enn er haldið áfram á sömu braut. Hæstv. ríkisstjórn ætti að fara að gæta sín. Þessi skattpíningarstefna bætir að vísu hag ríkissjóðs í bráð, en hún hlýtur að valda samdrætti í sölu og þjónustu og rýra með því gjaldstofninn. Skattpíningarstefnan magnar kreppuna og þegar fram

í sækir lamar hún hagkerfið.
    Fullyrt er að vextir muni ekki hækka á næsta ári. Þó er ljóst að innlend lánsfjárþörf ríkissjóðs er a.m.k. 6 milljarðar og trúi því nú hver sem trúa vill að samkeppni ríkisins á lánsfjármarkaðnum valdi ekki vaxtahækkunum. Hæstv. fjmrh. talar um að lánsfjárþörfin verði leyst með sölu spariskírteina en treystir hann því virkilega að á þessum samdráttartímum eigi landsmenn 6 milljarða undir koddanum?
    Á undanförnum árum hafa einmitt lántökur ríkisins verið ein af stærstu orsökum fyrir hve vextir hafa verið háir. Engan veginn er tryggt að þær greiðslur til ríkissjóðs á lánum og afborgunum sem ætlað er að draga úr lánsfjárþörfinni gangi eftir. Það væri þá í fyrsta sinn í sögunni ef slíkt yrði. Því vil ég enn ítreka að verðlags-, gengis-, launa- og lánaforsendur frv. eru ekki til þess fallnar að vekja tiltrú eða traust.
    Nýr liður, Ráðstöfunarfé, er nú hjá hverju ráðuneyti og í skýringum með frv. er sagt að það sé ætlað til einstaklinga, heimila og félagasamtaka. Við hljótum að velta því fyrir okkur hvort þarna sé verið að gefa ráðherrum ávísanahefti sem þeir síðan geta ráðstafað eftir vild. Auðvitað er nauðsynlegt að hafa fé til að bæta upp augljósar vanáætlanir og til óvæntra og óhjákvæmilegra útgjalda sem alltaf geta komið upp. En notkun þessa fjár verður að setja strangar skorður eigi það ekki að bjóða upp á pólitíska misnotkun.
    Ég ætla svo ekki að fjölyrða meira um forsendur frv. en drepa á nokkra einstaka þætti þess, þá sem hljóta að ofbjóða fólki gersamlega.
    Sl. mánudag flutti hæstv. forsrh. stefnuræðu sína, þ.e. langa tölu sem hann kallaði stefnuræðu. Í þessum langhundi var hvergi minnst á menningarmál nema í setningarbroti, alls sjö orð sem sögðu ákaflega lítið og voru augljós vottur um áhugaleysi og tómlæti. Það er nú svo að menning er ekkert sem sprettur af sjálfu sér. Að menningarmálum þarf að hlúa og sýna þeim ræktarsemi og umhyggju eigi menning þjóðarinnar að dafna og blómgast.
    Viðhorf stjórnvalda til menningarmála birtust í stefnuræðu hæstv. forsrh. með þeim hætti sem ég gat um, en þau birtast einnig á ýmsan hátt í fjárlagafrv. Þar vil ég nefna nokkur dæmi og tek þá fyrst Háskóla Íslands. Í lögunum um Happdrætti Háskóla Íslands er Háskólanum veitt einkaleyfi til rekstrar happdrættis með tilteknum skilyrðum. Meðal skilyrðanna er að ágóða skuli varið ,,til að reisa byggingar á vegum Háskóla Íslands``.
    Tekjur Háskólans af happdrætti hafa dregist verulega saman. Þrátt fyrir það er Háskólanum gert að láta 60 millj. af því fé renna til byggingar Þjóðarbókhlöðu og sú ráðstöfun réttlætt með því að Þjóðarbókhlaðan sé að hluta háskólastofnun þó að hingað til hafi byggingin aldrei verið talin ,,á vegum Háskólans``. Ef til vill væri hægt að fóðra þetta hefði samkomulags verið leitað við forráðamenn Háskólans. Það hefur ekki verið gert og þessi ráðstöfun kemur þeim í opna skjöldu, enda mótmæla þeir hástöfum og skyldi engan undra þar sem þessi ráðstöfun hlýtur að

raska öllum áætlunum stofnunarinnar auk þess sem tekjuskerðing vegna minnkandi hagnaðar af happdrættinu kemur hart niður á starfsemi og framkvæmdum. Með þessum aðgerðum er verið að raska grundvallarsjónarmiðum við uppbyggingu og starfsemi skólans.
    Ég tel rétt í þessu sambandi að rekja nokkuð sögu Þjóðarbókhlöðunnar og minna á hvernig þeim tekjustofnum sem stofnuninni voru ætlaðir hefur verið ráðstafað á liðnum árum.
    Í ársbyrjun 1978 var tekin fyrsta skóflustunga að Þjóðarbókhlöðu, en þá voru liðin 21 ár frá því að Alþingi ákvað að reisa Þjóðarbókhlöðu sem rúmaði Landsbóka- og Háskólabókasafn undir einu þaki. Síðan hefur byggingarframkvæmdum stöðugt verið haldið áfram, hægt og bítandi, ótal áætlanir verið gerðar um kostnað og verklok sem engar hafa staðist og ekki sér enn fyrir endann á framkvæmdum.
    Að fenginni reynslu eru menn sannast sagna trúdaufir á að sú áætlun um verklok sem gerð var fyrir tæpu ári standist fremur en aðrar. Kostnaður við bygginguna hefur aukist stöðugt í áranna rás og fram yfir öll þau mörk sem ætlað var í byrjun. Því var það að árið 1986 var gripið til þess ráðs að sækja aukið fé til framkvæmdanna beint í vasa skattgreiðenda. Á Alþingi vorið 1986 voru samþykkt lög um sérstakan eignarskatt er renna skyldi beint til byggingar Þjóðarbókhlöðu næstu þrjú ár. Samstaða var um álagningu þessa skatts og var þá talið að málið væri í höfn. En sú hefur ekki orðið raunin og er rétt að nota tækifærið til að upplýsa hvernig framkvæmdarvaldið hefur leyft sér að ráðstafa
þessum lögboðna tekjustofni Þjóðarbókhlöðunnar.
    Árið 1987 var tekjuskattsaukinn 177,1 millj. Það ár var 74 millj. varið til Þjóðarbókhlöðu, 103 millj. hélt ríkið eftir. Árið 1988 var skattaukinn 230,2 millj. 50 millj. runnu þá til Þjóðarbókhlöðunnar, hitt fór til annarra verkefna. Árið 1989 var skattaukinn 284,5 millj. 110 millj. af því fékk Þjóðarbókhlaða en 174,5 millj. fóru til annarra hluta. Af 692 millj. sem þessi skattur varð á þremur árum runnu aðeins 234,5 millj. til þess sem lögin um eignarskattsaukann ákváðu, en 457,5 millj. fóru beint í ríkissjóð.
    Þessar ráðstafanir eru lögbrot þó að ríkisstjórnir þessara ára hafi knúið fram samþykki um að heimila þær í lánsfjárlögum í krafti meiri hluta á Alþingi. Landsmenn eru blekktir, látnir halda að þeir séu að greiða fé til að halda uppi menningarlegri reisn þjóðarinnar. Þeim fjármunum sem þeir hafa greitt í þeirri trú að þeir rynnu til byggingar hússins sem átti að hýsa menningararfinn sjálfan var síðan að meiri hluta varið til annarra hluta. Landsmenn eru ekki aðeins blekktir í þessu máli, þeir eru líka sviknir, sviknir um að sjá framlög sín nýtt til þess átaks sem ætlað var.
    Á síðastliðnu vori voru síðan samþykkt ný lög um sérstakan eignarskatt undir yfirskriftinni ,,til byggingar menningarstofnana``. Ég vil í ljósi þessara staðreynda sem ég hef lýst um meðferð þess tekjustofns sem Þjóðarbókhlöðunni var markaður lýsa alvarlegum

efasemdum um að þeir fjármunir sem þessi skattur á að skila verði friðhelgir í framtíðinni fyrir ásælni þeirra sem ríkissjóði ráða fremur en verið hefur.
    Enn sér ekki fyrir endann á byggingarsögu Þjóðarbókhlöðunnar, og er þá ekki úr vegi að minna á annað lögbrot sem framið var við upphaf þeirrar sögu. Til eru lög um skipan opinberra framkvæmda og segir í 2. gr. þeirra laga, með leyfi hæstv. forseta, að í áætlanagerð um framkvæmdir skuli einnig vera áætlun um árlegan rekstrarkostnað, þar með talinn lánsfjárkostnað, og tekjur ef við á. Slík áætlun um árlegan rekstur Þjóðarbókhlöðu hefur aldrei verið gerð. Er nú ekki kominn tími til að fara að skoða endinn, skoða hvað tekur við þegar byggingu er lokið, úr því að það var ekki gert í upphafi svo sem lög mæla fyrir um, hugsa fyrir því hvað þarf til þess að starfsemi Þjóðarbókhlöðu geti orðið með þeirri reisn sem hæfir afmælisgjöf þjóðarinnar þó síðbúin sé og byggingarsaga hennar sé stjórnvöldum lítt til sóma?
    Þá er ekki úr vegi að velta fyrir sér í framhaldi af þessu hvernig staðið er að byggingum á vegum þess opinbera. Ríkissjóður hefur lengst af verið stærsti byggingaraðili í landinu og tugþúsundir rúmmetra af húsnæði eru árlega byggðar fyrir starfsemi á vegum ríkisins. Vegna mismunandi félagslegra og pólitískra þarfa og jafnvel í nafni byggðastefnu hefur þessum framkvæmdum verið dreift vítt um landið sem verður til þess að svo margar byggingar eru árlega í gangi að framlag til hverrar um sig verður lægra en skynsamlegt má telja frá framkvæmdasjónarmiði séð. Byggingartími verður of langur, fé nýtist illa og liggur árum saman ávöxtunarlaust í hálfkláruðum byggingum sem stundum eru komnar á viðgerðarstig áður en byggingu er lokið. Þetta er dýrt fyrir ríkissjóð, dýrt fyrir skattgreiðendur og þessari stefnu verður að breyta. Það kann þó að verða erfitt að snúa af þessari braut þó að vilji væri til. Og þó að vilji væri til að gera mat á þörfum, setja forgangsröð á framkvæmdir, þá er á það að líta að framkvæmdir sem ráðist er í og lokið á 1--2 árum og síðan settur punktur við kunna að valda óæskilegum sveiflum í atvinnulífi innan byggðarlaga og við því verður á hinn bóginn að reisa skorður.
    En hvað sem því líður er fullkomin ástæða að taka á og breyta þeim handahófskenndu aðferðum sem hafðar eru í frammi við opinberar byggingarframkvæmdir, setja upp skynsamlegar áætlanir um framkvæmdaþörf og forgangsröð og halda sig síðan við hana. Það trúi ég að gæti orðið ríkissjóði drjúgur sparnaður.
    Norður í landi er ný stofnun að stíga sín fyrstu skref, Háskólinn á Akureyri. Miklar vonir eru bundnar við að þessi nýi háskóli verði landsbyggðinni lyftistöng, og mætti ætla, ef honum yrðu búin viðhlítandi vaxtar- og starfsskilyrði, að þá gæti hann valdið verulegum áhrifum um að snúa til betri vegar þeirri öfugþróun í byggðamálum sem hefur verið að undanförnu.
    Reynsla Norðmanna, Svía og Finna bendir til þess að áhrifaríkasta aðgerð þeirra í byggðamálum hafi

verið sú að færa framhaldsmenntun, einkum háskólamenntun út um landið. Þetta hefur leitt til þess að fólk sest að í sinni heimabyggð, menntunin nýtist þar og leiðir til uppbyggingar og fjölbreytni í atvinnulífinu og menningarlífið blómgast. Þessa reynslu frændþjóða okkar hafa Norðlendingar haft að leiðarljósi með stofnun Háskólans.
    Háskóla á Akureyri var aldrei og er ekki ætlað að vera smækkuð mynd eða eftirlíking af Háskóla Íslands. Þar eiga að vera námsbrautir sem ekki eru kenndar við Háskóla Íslands og ber þar hæst kennslu í sjávarútvegsfræðum sem þegar hefur verið undirbúin. Og vitanlega er löngu tímabært að hefja kennslu í sjávarútvegsfræðum á Íslandi, hjá þjóð sem byggir afkomu sína í svo miklum mæli sem raun ber vitni á sjósókn og fiskvinnslu.
    Hingað til hafa þeir Íslendingar sem aflað hafa sér menntunar í þessum
fræðum orðið að gera það utan lands. Eftirspurn eftir þessari námsbraut er slík að ekki þarf að óttast nemendaskort. Fleiri hafa sótt um en hægt er að sinna. Störf þess fólks sem lyki þessu námi yrðu ómetanleg fyrir okkar undirstöðuatvinnugrein. Því skýtur það nokkuð skökku við þegar fjárframlög til þessarar stofnunar, sem nú er að byggja sig upp, eru svo skorin við nögl að fyrirsjáanlegt er að sjávarútvegsbrautin getur alls ekki farið af stað. Þvert á öll loforð og þvert á þá yfirlýsingu í stjórnarsáttmálanum að unnið skuli markvisst að byggðaþróun. Hver verður eiginlega framtíð þessarar stofnunar ef strax í byrjun er kippt stoðunum undan því sem ætlað var að yrði hennar mikilvægasta ætlunarverk á næstu árum?
    Umhverfisvernd og umhverfismál eru mikið til umræðu nú sem ekki er að undra þegar augu manna eru loks að opnast fyrir því hvernig þessum málum er komið um heim allan og einnig hér á okkar landi. En sér þess stað í fjárlagafrv. að taka eigi þau mál föstum tökum? Það verður nú varla komið auga á það þó að að vísu eigi að stofna umhverfismálaráðuneyti því þar er enn allt í lausu lofti. En í framlögum til stofnana sem sinna umhverfismálum kemur viðhorf stjórnvalda fram. Náttúruverndarráði er ekki ætlaður nema helmingur þess sem það telur sig þurfa til nauðsynlegustu starfsemi. Ferðamálaráð má sæta því að lögboðnum tekjustofni þess er ekki skilað nema að hluta. Á þessu ári eru það rétt um 20% af honum sem það fær sem þýðir það að þau verkefni sem þessi stofnun á að sinna viðvíkjandi verndun þeirra staða sem ágangur ferðamanna spillir í auknum mæli ár frá ári hljóta að verða út undan með ófyrirsjáanlegum og e.t.v. óbætanlegum afleiðingum. Sama er að segja um Ferðamálasjóð. Þar er ekki gert ráð fyrir aukinni starfsemi og framlög til hótela standa í stað sem þýðir lækkun. Þetta gerist á þeim tíma sem ferðamannaþjónusta er sú eina atvinnugrein sem einhver vaxtarbroddur er í og skilar umtalsverðum hagnaði auk þess að vera gjaldeyrisskapandi.
    Hæstv. forsrh. fór fjálgum orðum um það í stefnuræðu hversu mikilvægt væri að eiga óspjallað

land og hreint loft að selja útlendum ferðamönnum. En hversu lengi verður landið söluhæft á þessum nótum ef ekki fæst fé til að kosta eftirlit með umgengni sem víða er í algeru öngþveiti og hefur þegar valdið stórkostlegum landspjöllum? Þetta sem annað stangast á við markmiðin í stjórnarsáttmálanum. Það er ekki nóg að moka erlendum ferðamönnum inn í landið. Við verðum að skipuleggja hvað við viljum sýna þeim, kynna þeim menningu þjóðarinnar og sjá til þess með góðri umgengni og eftirliti að menn beri virðingu fyrir landinu og náttúru þess. Ef við gerum það ekki sjálf getum við ekki krafist þess af öðrum. Þessi starfsemi kostar vitanlega fé --- það verða menn að gera sér ljóst --- en það skilar sér aftur. Verði hins vegar ekkert að gert eigum við innan tíðar ekkert til að selja á þessu sviði sem aðrir ekki eiga.
    Ég vil aðeins drepa á málefni Þróunarsamvinnustofnunarinnar. Þegar hún var sett á stofn var ætlast til að framlag til hennar væri 0,1% af þjóðarframleiðslu. Þessu marki hefur aldrei verið náð. Þróunarsamvinnustofnun hefur unnið gott verk með sínum takmörkuðu fjármunum, en framlagið til hennar lækkar stöðugt. Við hljótum að bera kinnroða fyrir því á alþjóðavettvangi hvernig stjórnvöld standa að þessu máli, hvernig stöðugt er klipið af framlögunum þar til nú er svo komið að stofnuninni er ekki gert fært að standa við gerðar skuldbindingar.
    Niðurskurðurinn í opinberum framkvæmdum sem ég gat um í upphafi kemur vitaskuld mjög víða fram, en þegar á allt er litið má telja að landsbyggðin verði harðast úti. Vegagerð ríkisins fær á sig lækkun um milljarð og eru þó sennilega ekki öll kurl til grafar komin. Þar á ofan eru framlög til hafnamála skorin verulega niður og hafa þó ekki verið í neinu samræmi við þarfir undanfarin ár. Þannig mætti áfram telja. Og þannig er staðið að uppbyggingu á landsbyggðinni.
    Í þeirri stöðu sem nú er í efnahagsmálum þar sem við blasir samdráttur í þjóðartekjum er e.t.v. ekki svo auðvelt að leggja til að auknu fé sé varið til einstakra málaflokka, en það má breyta forgangsröð. Við kvennalistakonur teljum hvorki eðlilegt né réttlætanlegt að yfirstjórnir ráðuneyta þenjist sífellt út á þeim tíma sem fjmrh. boðar í fjárlagafrv., og yfir höfuð hvar sem hann kemur, samdrátt á öllum sviðum og sparnað, í kennslu, í heilbrigðiskerfi, í félagslegri þjónustu og opinberum framkvæmdum.
    Í þessu frv. hækkar kostnaður við yfirstjórn ráðuneyta umtalsvert umfram verðlag, við öll ráðuneytin. Kostnaður við yfirstjórn forsrn. hækkar um rúmar 13 millj. umfram verðlag. Við hefðum viljað sjá þessu fé varið til átaks í atvinnumálum kvenna í dreifbýli sem lofað var í stjórnarsáttmála en hvergi sést framlag til úr því að byggðamálin heyra nú einu sinni undir forsrn. Framlag til yfirstjórnar menntmrn. hækkar um 34,2 millj. Væri dregið úr þessari hækkun þyrfti ekki að skerða svo sem orðið er sérkennsluna fyrir þá sem standa höllum fæti innan skólakerfisins og e.t.v. mætti bæta fleiri þætti þjónustunnar. Og ráðstöfunarféð er ríflegt og það mætti þá hugsa til Háskólans á Akureyri í leiðinni þegar farið væri að

deila því út. Þó að hækkun á
yfirstjórn utanrrn. sé kannski ekki eins rífleg og hjá öðrum telja kvennalistakonur að bæta mætti hag Þróunarsamvinnustofnunar ef hún fengi hluta af þeim 22 milljónum sem aukið er við umfangið.
    Framlag til yfirstjórnar sjútvrn. hækkar um 15,1 millj. Kvennalistakonur telja að hluta þess framlags væri betur varið til Rannsóknastofnunar fiskiðnaðarins þar sem þyrfti að stórauka rannsóknir og tilraunir með nýjar fiskafurðir í ljósi stórfelldra breytinga sem fram undan eru í markaðsmálum erlendis.
    Yfirstjórn dóms- og kirkjumála hækkar um 10 millj. og í því sambandi viljum við benda á að þó framlag til almennrar löggæslu hafi hækkað umtalsvert á þessu ári var það að vonum því framlag þessa árs var til skammar. Við viljum hins vegar benda á að löggæsla og umferðareftirlit á vegum landsins, einkum á hálendinu er alls ófullnægjandi. Þar hafa orðið hörmuleg slys og óhöpp og væri full þörf á auknum framlögum til gæslu og eftirlits sem mætti þá taka af hækkun til yfirstjórnar.
    Yfirstjórnarþáttur félmrn. hækkar um 10,5 millj. Kvennalistakonur benda á að framlag til Kvennaathvarfs eykst ekki í neinu samræmi við vaxandi þörf starfseminnar. Ofbeldi gegn konum og börnum í þjóðfélagi okkar fer sívaxandi, bæði leynt og ljóst. Þeim fjölgar stöðugt sem leita á náðir Kvennaathvarfsins og nú er svo komið að þær konur sem þar vinna geta ekki sinnt nema hluta þess fjölda sem á aðstoð þarf að halda. Hluti þessarar hækkunar gæti komið þar að góðum notum.
    Yfirstjórn heilbr.- og tryggingamála hækkar um 15,5 millj. Það er upphæð sem við teljum að gæti bætt úr ýmsu sem aflaga fer. Vil ég þar fyrst telja kostnað vegna laga nr. 25/1975 sem eru lög um ráðgjöf um kynfræðslu, barneignir og fóstureyðingar. Þessi fræðsla hefur verið stórlega vanrækt og full þörf á átaki í þeim málum. Ég vil í leiðinni benda á að nú eru uppi hugmyndir um að breyta skipulagi á Framkvæmdasjóði aldraðra á þann veg að fé hans, sem lögum samkvæmt á að vera einungis til framkvæmda, eigi einnig að verja til rekstrar. Þetta stangast algerlega á við það sem sjóðnum var upphaflega ætlað og eins gott að hafa það í huga þegar frumvarp kemur í þá veru.
    Yfirstjórn fjmrn. hækkar gífurlega og er trúlega af ásettu ráði öllum þeim málum hrært saman svo að erfitt er að sundurgreina hækkanir. En við kvennalistakonur leggjum til að á lið 999 Ýmislegt verði í framtíðinni í framhaldi af greiðslum til lífeyrissjóða sjómanna og lífeyrissjóðs bænda liðurinn: Lífeyrissjóður heimavinnandi fólks. Það fólk býr nú við það að vera utan kerfis og án réttinda.
    Yfirstjórn samgrn. fær nokkra hækkun. Minni ég á það sem ég áður sagði um Ferðamálaráð og bæti við í leiðinni að ferðamálasamtök landshlutanna ættu vissulega skilið að fá framlag þó ekki væri nema til viðurkenningar fyrir sín störf.
    Ég fer ekki lengra í þessari úttekt á ráðuneytunum sem var aðeins ábending frá kvennalistakonum um

skynsamlega forgangsröð því þegar ráðherrar predika aðhald og ráðdeild er best að hver byrji heima hjá sér, í sínu ráðuneyti. Þessar ábendingar teljum við, að þeirri síðustu meðtalinni, að séu allar jákvæðar og veitir ekki af því í því svartnætti sem frv. boðar.
    Eitt get ég þó ekki látið hjá líða að minnast á sem má enn einu sinni tala um því slíkt á ekki að gleymast þó að menn kannski kysu það helst. Flugstöð Leifs Eiríkssonar stendur ekki undir rekstri. Þrátt fyrir stóraukna umferð og aukin gjöld til Flugstöðvarinnar frá því sem áætlað var í fyrstu, þrátt fyrir að fyrirtæki í húsinu verði að borga leigugjöld sem þau eru að kikna undan, þrátt fyrir meiri tekjur en nokkurn tíma var ráð fyrir gert, vantar a.m.k. 88 millj. upp á að reksturinn beri sig. Byggingarsaga þessa fyrirtækis var og er eitt samfellt hneyksli og niðurstaðan af rekstrinum sannar okkur einu sinni enn hve flottræfilshátturinn er okkur dýr fjárhagslega svo að ekki sé minnst á að þetta steinsteypu- og glerbrotahrúgald er og verður okkur til ævarandi hneisu.
    Ég vil að lokum segja þetta. Þetta plagg sem við ræðum hér ber öll merki þess að við erum að gjalda fyrir gamlar syndir. Ofveiði, sóun á fjármunum, fyrirhyggjuleysi, offjárfestingar á uppgangstímum, fastgengisstefnu og okurvexti. E.t.v. væri ekki svona komið ef kvenleg varfærni og gát hefði verið með í stjórnun efnahagsmála og við bíðum þess nú að sjá hvernig tekst að spila úr þeim spilum sem á hendi eru.
    Ég hef aðeins drepið á fátt eitt af því sem vert væri að ræða, en það gefast tækifæri til þess þótt seinna verði og engar líkur eru til annars en þetta frumvarp taki miklum breytingum í meðferð þingsins. Það getur enginn sætt sig við þetta plagg óbreytt sem málalok.