Fjárlög 1990
Fimmtudaginn 26. október 1989


     Ásgeir Hannes Eiríksson:
    Hæstv. forseti. Ég vil í upphafi leyfa mér að óska Geir Gunnarssyni, hv. 5. þm. Reykn., til hamingju með það að í dag munu vera 30 ár frá því að hann tók sæti á Alþingi.
    Ég kvaddi mér hljóðs hér í dag upphaflega til þess að spjalla um það hvað mér þykir Sjálfstfl. lélegur í stjórnarandstöðu og í rauninni enn þá lélegri heldur en í stjórn. En áður en lengra er haldið þá langar mig, með leyfi forseta, að fara nokkrum orðum um fréttir sem ég hef séð og heyrt í dag um kauphækkun til alþingismanna.
    Við erum núna að takast á við fjárlög, erfið fjárlög sem eru barn síns tíma. Þessi fjárlög bera merki þess að það er samdráttur í þjóðfélaginu, það er verið að spara, það er verið að skera niður og fjárlögin sleppa í ár úr mörgum þáttum sem áður hafa verið, framlögum til ýmissa mála, til hinna ýmsu félaga og nauðsynjaverka í þjóðfélaginu. Ég vil nefna að skorin er niður um þriðjung afmælisgjöf til SÁÁ sem var pakkað inn á sínum tíma á afmælisfundi félagsins. Nú er búið að opna þann pakka og taka þriðjung af framlaginu í ár. Svipaða sögu er að segja um blinda, Iðnskólann og fleiri skóla að það er skorið niður. Í rauninni er ástæðan sú að við búum við þrengri kjör í dag en við höfum lengi gert, að það er talið nauðsynlegt að skera niður og mun ég ekki leggja mat á það á þessari stundu. En á sama tíma og fram koma fréttir um kauphækkanir til alþingismanna fjölgar gjaldþrotum í landinu þannig að það má búast við því að núna á þriggja ára tímabili séu um 5000 gjaldþrot og ekki óvarlegt að ætla að það sé rúm vísitölufjölskylda á bak við hvert gjaldþrot þannig að þetta tengist um 25 þúsund manns eða 10% af þjóðinni. Þess vegna hlýtur það að vera fyrsta skylda Alþingis að leita að nýjum tekjum, nýjum umsvifum í þjóðfélaginu til þess að stækka þá köku sem við höfum til skiptanna þannig að sparnaður og niðurskurður séu í lágmarki.
    Við höfum fengið til umfjöllunar álver og við höfum fengið til umfjöllunar varaflugvelli. Og við höfum fengið til umfjöllunar þann möguleika að varnarliðið taki þátt í því að greiða hér kostnað við að leggja þjóðvegi. Ýmsir hv. þm. hafa að sjálfsögðu sett sig upp á móti þessu. Þeir hafa talað gegn þeim umsvifum sem koma í kjölfarið á nýju álveri, þeim umsvifum sem leiða af varaflugvelli og þeim umsvifum sem leiða af því ef varnarliðið tekur þátt í að greiða kostnað við þjóðvegi. Þessum umsvifum fylgja nýir peningastraumar inn í æðar þjóðfélagsins á þeim tíma sem þeirra gerist mest þörf. Á móti þessu hafa menn talað hér og menn hafa sýnt andstöðu sína á einn eða annan hátt, núna síðast í dag. En þessir sömu menn sitja þegjandi þegar verið er að hækka þeirra eigin laun. Þeir sitja með hendur í skauti sér á sama tíma og það er skorið niður til líknarverka, það er skorið niður til iðnfræðslu og það er skorið niður út um allt. Það hefur enginn á móti því að hækka sín eigin laun.

    Í dag hefst iðnþing í Reykjavík. Iðnaðurinn var við mótun þessarar ríkisstjórnar talinn vera sá vaxtarbroddur sem hugsanlega gæti tekið við því fólki sem aukið atvinnuleysi plagar. Iðnaðurinn átti að koma okkur til bjargar á erfiðum tímum. Málmiðnaðurinn á sérstaklega undir högg að sækja, en hvert skipið á fætur öðru er smíðað í öðrum löndum og hvert skipið á fætur öðru er sent í önnur lönd til viðgerða. Síðan er erlendum skipum sem eru að fiskveiðum við landið ekki heimilt að koma til hafnar til að leita viðgerða á Íslandi. Þetta er þó vaxtarbroddurinn. Það er talið að það séu um 5000 ársverk sem fara í erlendar skipasmíðastöðvar frá Íslandi. Það er sama tala og var spáð að atvinnuleysið yrði hér á næsta ári, sama tala. Það er hvergi í þjóðfélaginu í einkageiranum svigrúm fyrir launahækkanir. Menn eru alls staðar að herða sultarólina. Við skulum bara ganga hér út í gamla miðbæinn í kringum okkur þar sem fyrirtæki eru að loka eða flytja, leggja upp laupana. Og við getum farið vítt og breitt um landið. Það er alls staðar sama sagan. Það er ekkert svigrúm. Það er enginn afgangur til þess að borga hærri laun. Það eru ekki einu sinni peningar til þess að borga þau laun sem eru ákveðin í dag. Ef það ætti að vera eitthvert samræmi í þjóðfélaginu þá ætti að lækka launin í dag. Það er engin spurning. Ef fyrirtækin eiga að geta lifað af þessar þrengingar þá er það eitt af því sem verður að gera, að lækka launin. Á sama tíma situr þingheimur þegjandi og tekur við hækkuðum launum eins og þetta komi okkur ekkert við.
    Hvernig í ósköpunum eigum við að gera þessi fjárlög sannfærandi þegar skorið er niður og sparað á báða bóga nema okkar eigin laun? Þess vegna legg ég til að þingmenn þiggi ekki þessar launahækkanir sem nú eru til umræðu, sem nú eru að koma til framkvæmda. Sé of seint að afþakka þær frá kerfinu, að gefa þær þá til þeirra líknarmála sem verið er að skera niður. Ég fyrir mína parta óska ekki eftir þessari launahækkun. Ekki fyrr en þingheimur hefur aflað nýrra tekna fyrir þjóðfélagið á þessari erfiðu stundu, leitað að nýjum tekjum að utan, kallað heim verkefni sem við sendum úr landi, tekið á móti álveri, varaflugvelli. Þá og þá fyrst skulum við ræða um launahækkun og þá skulum við tvöfalda launin eða þrefalda þau því þá höfum við unnið fyrir þeim.