Fjárlög 1990
Fimmtudaginn 26. október 1989


     Birgir Ísl. Gunnarsson:
    Virðulegi forseti. Ég hef ekki hugsað mér að hafa mörg orð um þetta fjárlagafrv. almennt. Hv. 2. þm. Norðurl. v. gerði mjög ítarlega grein fyrir sínum skoðunum, þær fara saman, skoðanir hans og okkar sjálfstæðismanna á hinum almennu atriðum þessa fjárlagafrv. og hv. 4. þm. Austurl. hefur nú gert grein fyrir þeim þáttum í þessu frv. sem snúa að byggðamálum og landbúnaðarmálum.
    Ég vil þó aðeins vekja athygli á því að allur málatilbúnaður hæstv. fjmrh. og allur hans málflutningur miðast við umbúðir. Við fáum hér pakka vafinn skrautpappír, það eru margir vafningar og það eru silkislaufur af ýmsum gerðum sem eru utan um þennan pakka. Það er einkenni hæstv. fjmrh., innihaldið skiptir hann oft minna máli, hann dregur upp ýkjumyndir oft óháðar öllum staðreyndum og það reynist svo gjarnan að það er lítið innihald í skrautbögglunum þegar búið er að taka umbúðirnar utan af.
    Við minnumst vel stóru orðanna frá því í fyrra þegar við fengum skrautböggulinn inn á borð til okkar hér á hv. Alþingi. Þá var verið að brjóta blað eins og nú. Þá var í fyrsta sinn verið að leggja fram hallalaus fjárlög og öllu þessu fylgdi mikill orðaflaumur um öll þau nýmæli sem hæstv. fjmrh. taldi sig bera á borð fyrir þing og þjóð.
    Stjórnarandstaðan sá auðvitað fyrir að þetta stóðst ekki og sagði hæstv. fjmrh. það umbúðalaust. Hann lét ekki segjast, hann vildi halda áfram að blekkja fólk í lengstu lög en loks kom að því að spilaborgin hrundi. Hæstv. fjmrh. missti öll tök á ríkisfjármálunum og hallinn óð áfram og allir þekkjum við hvaða tölur er nú verið að tala um í halla ríkissjóðs á þessu ári og eru vafalaust ekki öll kurl komin til grafar.
    Nú er hæstv. fjmrh. byrjaður að byggja nýja spilaborg. Nú er aftur verið að brjóta blað eins og hann segir. Í fyrsta skipti á þessum áratug, jafnvel í sögu lýðveldisins, er verið að gera þetta og hitt í fjármálum og efnahagsmálum þjóðarinnar. Þessi spilaborg sem hann er að hrúga hér upp fyrir framan okkur á eftir að hrynja alveg á sama hátt og sú fyrri. Þetta frv. er umbúðir með silkislaufum en þegar betur er að gáð hvílir það á veikum grunni. Beitt er blekkingum í allt of ríkum mæli. Fé er millifært úr einum vasa í annan til að dylja hvað raunverulega er verið að gera og ekki hikað við að fremja lögbrot til þess að reyna að skreyta pakkann enn betur og dylja innihaldið fyrir þingi og þjóð.
    Ég ætla að nota þennan tíma minn hér til þess að ræða fyrst og fremst mál sem snerta Háskóla Íslands. Það er auðvitað nauðsynlegt að ræða við 2. umr. ítarlega einstök atriði í þessu fjárlagafrv. en mér finnst nauðsynlegt strax við þessa 1. umr. að taka til meðferðar hér mál sem snerta Háskólann og ég ætla að byrja á Lánasjóði ísl. námsmanna.
    Á bls. 344 í fjárlagafrv. er gerð grein fyrir fjárveitingu til Lánasjóðs ísl. námsmanna og á hvaða

grunni hún er byggð. Ráðstöfunarfé verður tæpir 3,7 milljarðar á árinu 1990 og hækkar um 40,6% frá árinu 1989. Fjárveiting úr ríkissjóði er 2,2 milljarðar og lántaka tæpir 1,5 milljarðar. Um þessa fjárveitingu segir í grg. að fjárveitingin í frv. 1990 sé að raungildi jöfn fjárveitingu 1989 að viðbættri aukinni greiðslubyrði sjóðsins af teknum lánum. Gert er ráð fyrir að útlán sjóðsins verði 2 milljarðar 871 millj. og 500 þús. og aukist um 44% frá fjárlögum 1989. Orðrétt segir svo í grg.:
    ,,Sú fjárhæð miðast við það að við ákvörðun úthlutunarreglna fyrir skólaárið 1990--1991 verði heildarútlán sjóðsins miðuð við útlán í forsendum fjárlaga 1989 að teknu tilliti til breytinga á verðlagi, gengi og fjölda lánþega. Að því leyti sem útlán sjóðsins á fyrri hluta árs 1990 verða umfram áðurnefndar forsendur verður að mæta þeim með lántöku. Hækkanir á framfærslugrunni námslána umfram breytingu á verðlagi rúmast ekki innan þess fjárhagsramma sem er gengið út frá.``
    En hvað þýðir þetta í raun? Áður en ég svara þeirri spurningu er rétt að vekja nokkra athygli á ferli þeirra alþýðubandalagsmanna undanfarin ár varðandi málefni Lánasjóðs ísl. námsmanna. Sá ferill er orðinn mjög skrautlegur.
    Fyrir síðustu alþingiskosningar voru málefni Lánasjóðs ísl. námsmanna mjög á dagskrá, ekki síst vegna þess að námslán höfðu nokkuð verið skert á árinu 1986. Ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar sem þá sat að völdum varð sammála um að takmarka fjárveitingar til sjóðsins og það kom í hlut Sverris Hermannssonar þáverandi hæstv. menntmrh. að útfæra þá stefnu og var það gert með því að taka vísitölubindingu lána úr sambandi um nokkurt skeið. Alþb. hóf mikla baráttu gegn þessari aðgerð. Sú barátta kom fram í ýmsum myndum. Á vorþingi 1987 fluttu þm. Alþb. þáltill. um málið. Flm. voru eftirfarandi hv. þm.: Steingrímur J. Sigfússon, Guðrún Helgadóttir, Ragnar Arnalds og Svavar Gestsson, núv. hæstv. menntmrh. Þáltill. hljóðaði svo, með leyfi forseta:
    ,,Alþingi ályktar að fela menntamálaráðherra að fella úr gildi breytingar á reglugerð nr. 578/1982, um námslán og námsstyrki, sem gerðar voru 3. janúar og
2. apríl 1986, þannig að þau ákvæði sem áður giltu um útreikning á framfærslukostnaði námsmanna taki gildi að nýju.
    Jafnframt felur Alþingi ríkisstjórninni að gera ráðstafanir með aukafjárveitingum og lántökum til að tryggja eðlilega framkvæmd laganna nr. 72/1982, um námslán og námsstyrki, út árið sem er að líða.``
    Í grg. með þessari þáltill. kom fram að flm. vildu öllu til fórna að þessi stefna kæmist í framkvæmd. Þeir voru reiðubúnir að ræða sérstaka skattheimtu, svo sem á bankastarfsemi, stóreignamenn og fjármagnstekjur til fjáröflunar í þessu skyni eins og fram kom í grg.
    Veturinn 1987 komu þessi mál oft til umræðu og m.a. á fundi sem samtök námsmanna héldu með talsmönnum stjórnmálaflokkanna í Háskólabíói. Það

var mjög fjölmennur fundur og ekki skorti á loforðin hjá núv. hæstv. menntmrh. en hann var ræðumaður Alþb. á þessum fundi. Svavar Gestsson, hæstv. menntmrh., sagði að upphæð námslánanna mundi vera 20% hærri nú ef farið væri eftir lögum um námslán frá 1982. Hann sagði að Alþb. gerði það að skilyrði fyrir stjórnarsamstarfi að í stjórnarsáttmála kæmi fram að lögunum um námslán yrði framfylgt. Hér dugði ekkert minna en að fullyrða og lofa því að Alþb. mundi gera það að skilyrði fyrir stjórnarþátttöku að þessi skerðing yrði afnumin.
    Alþb. fór inn í núv. ríkisstjórn, stjórnarsáttmáli var gerður og í honum var ekkert einasta orð um málefni Lánasjóðs ísl. námsmanna. Það tók því núv. hæstv. menntmrh., formælanda Alþb. í málefnum Lánasjóðsins, ekki langan tíma að gleyma þeim loforðum sem hann hafði gefið á fjölmennum fundi námsmanna í Háskólabíói.
    Eitthvað vöfðust nú þessi stóru orð fyrir hæstv. menntmrh. enda var hann oft minntur á þau eftir að núv. ríkisstjórn var mynduð, m.a. hér á Alþingi á sl. vetri. Í byrjun þessa árs gerði hæstv. menntmrh. samkomulag við samtök námsmanna sem gerði ráð fyrir að námslán hækkuðu um 20,8% í þremur áföngum, þ.e. 1. mars og 1. sept. á þessu ári og að lokum 1. jan. á næsta ári. Hækkunin 1. mars kom til framkvæmda orðalaust en nokkuð stóð í mönnum hvað gera skyldi þegar leið að 1. sept. Hæstv. fjmrh. sagði t.d. í fjölmiðlum að frekari útgjöld yrðu ekki leyfð umfram fjárlög nema Alþingi samþykkti. Hann vildi vísa ábyrgðinni til Alþingis og það væri því þingmanna að taka ákvörðun um það hvort þessi hækkun á Lánasjóðnum ætti að koma til framkvæmda. Engu að síður var þessi hækkun látin koma til framkvæmda 1. sept. en áður hafði stjórn Lánasjóðsins vakið athygli á því að fjárvöntun í sjóðinn umfram fjárlög yrði um 280 millj. kr. Nú er það dæmi óleyst. Mér er ekki kunnugt um að hæstv. fjmrh. hafi heimilað aukafjárveitingu í þessu skyni og alþingismenn hafa ekki séð þau aukafjárlög fyrir árið 1989 sem boðuð hafa verið og því er allt í fullkominni óvissu um fjárhag Lánasjóðsins að þessu leyti.
    Þriðja hækkunin átti svo að koma til framkvæmda 1. jan. á næsta ári. Nú er ljóst samkvæmt þessu fjárlagafrv. að ekki er gert ráð fyrir því að sú hækkun komi til framkvæmda. Það sem meira er um vert er það að það er heldur ekki gert ráð fyrir að þær hækkanir á framfærslugrunni námslána sem samið var um og komu til framkvæmda 1. mars og 1. sept. eigi að ganga út allt árið 1990. Það er alveg ljóst að það er hugmynd Alþb. samkvæmt þessu fjárlagafrv. að skerða námslánin verulega frá því sem nú er. Það er þetta sem átt er við með því orðalagi sem ég vitnaði til áðan úr greinargerð með fjárlagafrv.
    Námsmenn eru að vonum óhressir og telja hér um svik að ræða, ekki síst þegar tekið er tillit til þess að í samkomulaginu frá því í janúar færðu námsmenn sínar fórnir sem þegar hafa komið til framkvæmda, þ.e. fólk má nú hafa minni tekjur en áður þar til

kemur að skerðingu lána vegna tekna. Hæstv. menntmrh. reynir að breiða yfir þetta í viðtölum við fjölmiðla og segir að hækkunin muni koma til framkvæmda þótt síðar verði. Hann hefur hins vegar enga grein gert fyrir því hvernig það megi verða en til að breiða yfir svik sín í þessu máli hefur hann gripið til þess ráðs að rita öllum stjórnmálaflokkum bréf, reyna að gera þá samábyrga í málinu og ritaði m.a. þingflokki sjálfstæðismanna bréf þar
sem var farið fram á að þingflokkurinn skipaði fulltrúa í nefnd til að fjalla um málefni Lánasjóðsins og þá m.a. hvernig hægt væri að breyta úthlutunarreglum til samræmis við þær tölur sem í fjárlagafrv. stæðu.
    Þingflokkur Sjálfstfl. hefur samþykkt að skipa ekki mann í þessa nefnd og hefur ritað hæstv. menntmrh. af því tilefni bréf sem ég sé ekki ástæðu til að lesa upp hér. Þar er hafnað þátttöku í þessari nefnd. Við viljum ekki vera meðábyrgir í því sem hæstv. ríkisstjórn er að gera í þessum efnum og teljum auðvitað að hún verði að leysa sjálf úr þeim vanda sem hún er búin að koma sér í.
    Annað mál sem ég vil ræða varðandi Háskóla Íslands er framkvæmdafé Háskólans og hvernig farið er með Háskólann í því efni í þessu fjárlagafrv. Um langt árabil hefur Háskóli Íslands rekið happdrætti sem kallað er Happdrætti Háskóla Íslands og allir þekkja. Alþingi hefur sett um þetta happdrætti sérstök lög, og nú gilda um það lög nr. 13/1973. Í 1. gr. þeirra laga segir að ágóðanum skuli varið til að reisa byggingar á vegum Háskóla Íslands. Enn fremur er heimilt að verja honum til greiðslu kostnaðar á viðhaldi háskólabygginga, til
fegrunar á háskólalóðinni, til þess að koma á fót og efla rannsóknarstofur við hinar ýmsu deildir Háskólans, svo og til að greiða andvirði rannsóknar- og kennslutækja sem Háskólinn telur sér nauðsynlegt að eignast. Tekjurnar af Happdrætti Háskóla Íslands eru einu tekjurnar sem Háskólinn hefur haft til uppbyggingar. Það tíðkaðist reyndar hér áður fyrr að ríkissjóður legði Háskólanum til fé í fjárlögum samhliða tekjum happdrættisins, en það hefur ekki verið gert um langt árabil. Þessar tekjur eru sveiflukenndar. Þær sveiflast upp og niður og nú eru þær á niðurleið. Þær hafa gefið vel sl. tvö ár vegna skafmiðanna, en nú eru þessar tekjur á niðurleið.
    Í fjárlögum 1989 varð vart tilhneigingar hjá hæstv. fjmrh. til að næla í hluta af tekjum Happdrættis Háskóla Íslands og setja þær í verkefni sem ríkissjóður hefur áður fjármagnað. Þá varð sú breyting gerð að stofnkostnaður, viðhald og tækjakaup Raunvísindastofnunar Háskólans, Tilraunastöðvar Háskólans að Keldum og Stofnunar Árna Magnússonar var fjármagnað af tekjum Happdrættis Háskóla Íslands. Hér var farið inn á nýja braut, ég vil segja vafasama braut, og a.m.k. farið á ystu nöf í lagatúlkun eins og háskólaráð hefur bent á varðandi þessar stofnanir sérstaklega.
    En þetta reyndist aðeins fyrirboði stærri og alvarlegri tíðinda. Í þessu frv. til fjárlaga er áfram

haldið á sömu braut varðandi ofangreindar þrjár stofnanir. En höfuðið er bitið af skömminni og nú á að taka 60 millj. kr. af tekjum Happdrættis Háskóla Íslands og setja í Þjóðarbókhlöðu með þeim rökum í grg. að Þjóðarbókhlaðan sé að hluta til háskólastofnun sem taka muni við starfsemi Háskólabókasafns og stórbæta aðstöðu þess.
    Háskólaráð hefur ályktað sérstaklega um þetta mál og sent frá sér langa ályktun. Ég vil ekki tefja tímann í umræðunni með því að lesa hana alla upp. En um þetta atriði segir í ályktun Háskólans að í lögum frá 1969 um Landsbókasafn Íslands sé gert ráð fyrir því að Háskóli Íslands varðveiti Háskólabókasafn í Landsbókasafni undir yfirstjórn landsbókavarðar er ný Þjóðarbókhlaða skapi skilyrði til þess, jafnframt því sem stofnanir Háskólans hafi söfn í sinni vörslu. Síðan segir orðrétt í þessari ályktun háskólaráðs:
    ,,Er af þessu ljóst að Þjóðarbókhlöðubyggingin er ekki reist á vegum Háskólans í þeim skilningi sem gert er ráð fyrir í lögum um Happdrætti Háskóla Íslands. Háskólaráð telur því að um ótvírætt lögbrot sé að ræða eins og málið er sett fram í fjárlagafrv.``
    Þessi ráðstöfun er auðvitað enn óbilgjarnari fyrir þær sakir að þjóðin er sérstaklega skattlögð til þess að byggja Þjóðarbókhlöðu. Eignarskattsauki hefur verið innheimtur 1987, 1988 og nú árið 1989. Það er nú reyndar svo að hluta hans hefur ávallt verið stungið í ríkissjóð og það var mikið ágreiningsefni milli mín og þáv. hæstv. fjmrh. þegar ég átti sæti í ríkisstjórn, eins og glögglega kom þá fram á Alþingi og ég skal ekki rifja upp hér. Síðan voru samþykkt ný lög á síðasta þingi til að framlengja þennan skatt og þar kemur glöggt fram að Þjóðarbókhlaðan eigi að hafa forgang. Nú er gert ráð fyrir að þessi skattur, sem að Þjóðarbókhlöðu slepptri á samkvæmt nýju lögunum að fara til endurbóta á menningarstofnunum, muni samkvæmt þessu fjárlagafrv. gefa 270 millj. kr. í tekjur. Þar af fær Þjóðleikhúsið 125 millj. kr., Þjóðarbókhlaðan 60, á móti 60 millj. sem Happdrætti Háskólans á að láta, Þjóðskjalasafn 10, Þjóðminjasafn 13 og óráðstafað 7 og síðan til almennrar eyðslu í ríkissjóð 55 millj. kr. Það er auðvitað alveg augljóst að það er verið að fara krókaleið til að hrifsa tekjur Happdrættis Háskóla Íslands í ríkissjóð og ef einu sinni er byrjað á því líst mér nú ekki á það og hætt er við að áður en langt um líður verði ríkissjóður farinn að hirða allar tekjur Happdrættis Háskóla Íslands.
    Happdrætti Háskólans hefur notið mikillar velvildar almennings. Fólk vill styðja Háskólann. Því þykir vænt um hann og kaupir því happdrættismiða, meira að segja í hinu gamla happdrætti, burtséð frá skafmiðunum. Þó að það sé að sumu leyti úrelt happdrætti kaupir fólk það og það hefur vakið undrun hversu vel það happdrætti hefur staðið sig. Það er auðvitað hætt við því eins og Háskólinn hefur sjálfur reyndar bent á að happdrættið missi tiltrú og vinsældir hjá almenningi þegar farið er að taka tekjur í ríkissjóð. Hver ætli mundi vilja kaupa t.d. miða í Happdrætti Ólafs Ragnars Grímssonar? Ég hygg að

það séu ekki margir sem það munu vilja gera þegar upp er staðið þegar farið er að hrifsa happdrættisféð á þennan hátt. ( Fjmrh.: Bærilega hefur sala spariskírteinanna gengið.)
    Hæstv. ráðherra hefur tjáð sig um þetta opinberlega, ræddi við Þjóðviljann á dögunum. Þetta er fróðlegt viðtal og ber reyndar vott um þann hroka sem einkennir málflutning ráðherrans. Hann segir í þessu viðtali, em það er á forsíðu Þjóðviljans þann 24. okt., með leyfi forseta.:
    ,,Ég þarf ekki að láta neina innan Háskólans segja mér hver eru brýnustu verkefnin í húsnæðismálum Háskólans. Þau þekki ég vel af eigin raun eftir 20 ára starf við Háskóla Íslands.`` Og síðar segir: ,,Í samtali við Þjóðviljann sagði Ólafur Ragnar að vinir hans í Háskólanum segðust vilja ákveða í hvað peningarnir færu. Það hefði verið ánægjulegt ef háskólaráð hefði haft
frumkvæði og víðsýni til að skilja og ákveða að hagsmunum Háskólans væri best þjónað með því að Þjóðarbókhlaðan kæmi sem fyrst til starfa.``
    Hér talar sólkonungurinn sjálfur. ,,Vi alene vider,,, var haft eftir dönskum einvaldskonungi og þetta er að sjálfsögðu nákvæmlega sami hugsunarhátturinn sem þarna er á ferðinni. Hæstv. fjmrh. nýtur þess að láta kenna á valdi sínu við möguleg og ómöguleg tækifæri. En það virðist vera að hann hafi sérstaka unun af því að kúga sína fyrrum samstarfsmenn í Háskóla Íslands, taka af þeim ákvörðunarvald sem þeir lögum samkvæmt eiga að hafa samkvæmt eðli máls og taka ákvörðun af þessu tagi. Þetta er hin mesta ósvinna. Þetta er lögbrot. Þetta er siðleysi og þetta er auðvitað eitt af þeim málum sem Alþingi verður að taka rækilega til athugunar og hér verður að taka í taumana.
    Virðulegi forseti. Ég ætlaði ekki að fara í almenna umræðu um fjárlögin. Mér þótti nauðsynlegt, strax við 1. umr., að gera þessi alvarlegu mál sem snerta Háskólann að umtalsefni. Ég vil að lokum segja við hæstv. fjmrh.: Honum varð tíðrætt um eitthvað sem hann kallar ga-ga-stefnu. ( Fjmrh.: Sjálfstæðisflokksins.) Ég hef verið að velta því fyrir mér hverju hefur lostið saman í huga hæstv. fjmrh. þegar hann var að hugsa upp þessa nafngift. Sú spurning vaknar hvort þetta eigi rætur að rekja í alkunnri kímnigáfu hæstv. fjmrh. Það kann vel að vera. Ég hef þó verið að leika mér að annarri kenningu. Ga-ga er skylt sögninni að gagga, en það er sagnorð sem manni dettur ósjálfrátt í hug þegar hinn marklausi orðaflaumur stendur út úr hæstv. ráðherra.
    Svo má líka rifja það upp að hallarekstur ríkissjóðs, sem hann vill gjarnan kenna þessa stefnu við, hófst í tíð hv. þm. Ragnars Arnalds þegar hann var fjmrh. og allir þeir sem þekkja Ragnar Arnalds vel, vinir og skólabræður, vissu að hann var kallaður Gaggi þegar hann var í skóla. Og það er ekkert ólíklegt að ráðherrann vilji kenna þessa stefnu við hann, a.m.k. kemur manni það ekkert á óvart þegar maður hefur í huga þá ádrepu sem hv. þm. Ragnar Arnalds gaf hæstv. fjmrh. í útvarpsumræðunni hér á

mánudaginn var, því að lýsing hans á hinu fagra ástandi sem hæstv. fjmrh. dró upp var allt önnur en fjmrh. vildi vera láta eins og hv. þm. Pálmi Jónsson gat um hér áðan.
    Hæstv. fjmrh. leggur ofurkapp á að afsanna þau orð hæstv. forsrh., Steingríms Hermannssonar, að nú ætti að hverfa frá vestrænum hagstjórnaraðferðum, og ég vek sérstaklega athygli á því vegna endurtekinna ummæla hæstv. fjmrh. að þetta eru orð forsrh. Þetta eru ekki orð Sjálfstfl. Við höfum að vísu vitnað til forsrh. í okkar umræðum, en hann er upphafsmaður þessara orða og höfundur þeirra. En hæstv. fjmrh. leggur ofurkapp á að reyna að ómerkja þessi orð forsrh. Auðvitað tekst hæstv. fjmrh. það ekki. Þetta fjárlagafrv. og reyndar öll efnahagsstefna þessarar hæstv. ríkisstjórnar einkennist af miðstýringu og geðþóttaákvörðunum. Það vantar alla heildstæða stefnu eins og margoft hefur komið fram í umræðum og orðagjálfur hæstv. fjmrh. breytir auðvitað engu þar um.
    Virðulegi forseti. Ég læt nú lokið máli mínu. Það er alveg augljóst af þessu fjárlagafrv., eins og það liggur fyrir, að hv. fjvn. á mikið verk óunnið í því sambandi. Í þessu fjárlagafrv. eru ótrúleg göt sem þarf auðvitað að stoppa upp í og margt mjög óljóst og óskýrt og þess vegna veitir fjvn. ekki af að láta hendur standa fram úr ermum nú næstu vikur ef takast á að afgreiða þetta fjárlagafrv. fyrir jól.