Fjárlög 1990
Fimmtudaginn 26. október 1989


     Forseti (Guðrún Helgadóttir):
    Hv. 2. þm. Norðurl. e. til upplýsingar skal þess getið að hér hófst þingfundur að vanda kl. 10 í morgun og fyrirspurnum var svarað og eins og hv. þingmanni er fullkunnugt um leggja hv. þm. mikla áherslu á að fyrirspurnum sé svarað á réttum tíma. Þeim fundi lauk skömmu fyrir kl. 12. Síðan hófst fundur að vanda kl. 2. Sami háttur var hafður á á síðasta ári og bárust engar kvartanir vegna þess.
    Ég hygg að þess séu fjölmörg dæmi að þegar ekki fleiri hafa kveðið sér hljóðs en nú er um að ræða hafi forsetar freistað þess að ljúka fundinum fremur en að boða þingmenn aftur til fundar að loknum kvöldverði. Forseti vill því mjög gjarnan reyna að ljúka þessum fundi nú án kvöldverðarhlés. Verði því hins vegar harkalega mótmælt mun forseti að sjálfsögðu verða við þeirri beiðni, ef hún er mjög eindregin, að gert verði fundarhlé. (Gripið fram í.) Hv. 2. þm. Norðurl. e. segir að það sé mjög eindreginn vilji sinn að nú verði fundi frestað og forseti vill ekki hafna þeirri beiðni.