Fjárlög 1990
Fimmtudaginn 26. október 1989


     Kristinn Pétursson:
    Frú forseti. Hér liggur fyrir fjárlagafrv. fyrir árið 1990. Ég vil segja það fyrst að mér finnst vera margt í því sem líkist þeirri efnahagsstefnu sem rekin hefur verið af þessari hæstv. ríkisstjórn. Í máli hæstv. fjmrh. hér í dag kom fram að ríkisútgjöld mundu lækka að raungildi frá 1989 um 4%. Ég verð að segja að það er mjög eðlilegt og lítið til að hæla sér af að vera þess meðvitaður að það er samdráttur í þjóðfélaginu. Þetta er annað árið í röð sem þorskafli er minnkaður um 10%. Það er auðvitað eðlilegt að ríkissjóður dragi saman þegar þjóðartekjur minnka, fullkomlega eðlilegt. Betur að svo væri ekki, auðvitað.
    Það kom því eins og gusa í fyrra þegar enginn skilningur var á þessu. Þegar ákveðið var að skerða kvótann í fyrra um 10% voru skattar jafnframt hækkaðir á öllum sviðum, í þveröfuga átt, og virðist nú eitthvað hafa rofað til í skilningi hvað þetta snertir.
    Í annan stað kom hér fram að greiðslum til verðuppbótar á freðfiski á vegum Verðjöfnunarsjóðs fiskiðnaðarins mundi ljúka um áramótin. Ég verð að segja að mér finnst það skrýtið bókhald --- og ég sagði það hér í þinginu í fyrra --- hjá ríkissjóði að fiskvinnslan geti fært þetta sem tekjur og ríkissjóður sem eign. Ég verð að spyrja hæstv. fjmrh. hvað hann ætli að gera í því að færa þetta bókhald til siðaðra manna horfs. Það er gjörsamlega útilokað að tveir aðilar geti átt þessa 1,5 milljarða sem þetta er orðið með fjármagnskostnaði. Ríkissjóður getur ekki verið eigandi að þessu og búið að tekjufæra það allt hjá fiskvinnslunni. Hæstv. fjmrh. Svona bókhald gengur ekki upp og þar sem fjmrh. er æðsti yfirmaður skattamála í landinu getur hann ekki látið það spyrjast á sig að bókhald ríkissjóðs sé fært með þessum hætti. Þetta verður að koma annaðhvort inn á fjárlög ársins 1990 eða inn á fjáraukalög ársins í ár. Þetta er 1 1 / 2 milljarður, hæstv. fjmrh., sem ríkisútgjöldin eru hærri en sagt er til með því að kalla það lán og láta það heita eign hjá Verðjöfnunarsjóði, þetta sé eitthvað sem ríkið á sem sé ekki neitt neitt. Svona bókhald gengur bara ekki og svona meðferð á peningum og svona umgengni við fjármál er fyrir neðan allar hellur. Þetta var erlend lántaka og prentaðir fyrir það íslenskir seðlar, það versta sem hægt var að gera fyrir atvinnuveginn, sjávarútveginn. Auðvitað koma svo gengisfellingarnar á eftir þegar búið er að prenta það.
    Það kom líka fram í dag að það stefndi í að jafnvægi á peningamarkaði hefði ekki verið betra í þetta langan tíma. Mér fannst þessi setning hjá hæstv. fjmrh., jafnvægi á peningamarkaði, vera svona ofurlítill skilningsvottur um það sem hann og fleiri hafa hamast við að andmæla undanfarið, það er svokölluð frjálshyggja því að frjálsræði á fjármagnsmörkuðum er til þess að stjórnmálamaður eins og hæstv. fjmrh. geti séð hvenær eftirspurn eftir fjármagni er allt of mikil og þetta tiltekna jafnvægi sé ekki. Þannig að það rofar fyrir skilningi hjá hæstv. fjmrh. í átt til frjálshyggju þegar farið er
að tala um jafnvægi á peningamarkaði. Það er vonandi

að það haldi áfram að rofa til í átt til frjálsræðis.
    En varðandi hugmyndir um að fjárlagaár verði frá 1. júní til 31. maí ár hvert. Ég hélt nú að ég hefði heyrt vitleysu þegar ég heyrði þetta í sumar í útvarpinu. Það rignir nú fréttatilkynningum frá hæstv. fjmrh. og nógur pappír til og peningar, ekki svoleiðis. En ég hrökk nú í kút. Ég hélt að hæstv. fjmrh. sem prófessor í stjórnmálafræði væri kunnugt um það hvernig stjórnarskrá landsins er. Það verður að breyta stjórnarskránni ef þetta á að vera hægt og það hefur hann ekki minnst á. Það er ekki hægt að breyta þessu bara í einu heljarstökki án þess að breyta þá stjórnarskránni. Með leyfi hæstv. forseta ætla ég að lesa hérna aðeins úr 42. gr. stjórnarskrárinnar:
    ,,Fyrir hvert reglulegt Alþingi skal, þegar það er saman komið, leggja frumvarp til fjárlaga fyrir það fjárhagsár sem í hönd fer,,, sem er næsta fjárhagsár, sem getur auðvitað ekki verið frá hálfu ári til hálfs árs þannig að hæstv. fjmrh. þarf enn að taka sig til og lesa betur í stjórnarskránni. Það er mjög þýðingarmikið fyrir hann.
    Varðandi hugmyndir um að í framtíðinni verði lögð fram fjárlagaáætlun til þriggja ára samhliða fjárlagafrv. þá vil ég geta þess að í IV. kafla Ólafslaga segir --- með leyfi hæstv. forseta ætla ég að lesa hérna úr IV. kafla Ólafslaga sem kennd eru við Ólaf Jóhannesson en ekki núv. fjmrh.:
    ,,14. gr. Ríkisstjórnin skal leggja fyrir Alþingi fjárfestingar- og lánsfjáráætlanir fyrir eitt ár í senn, og skulu þær fylgja fjárlagafrumvarpi.`` Síðan kemur: ,,Áætlununum skal fylgja stefnumótun í meginatriðum næstu þrjú árin eftir lok þess fjárhagsárs, sem fjárlagafrumvarpið tekur til.`` Hæstv. fjmrh. er bara að gera skyldu sína. Hann þarf ekkert að vera að grobba af því þó að hann sé að fara að lögum. Er hann þá að segja það að hann hafi ekki gert þetta rétt í fyrra?
    Enn frekar úr þessari sömu grein: ,,Markmið áætlananna er að tryggja, að heildarumsvif í fjárfestingu og þróun peningamála og lánamála samrýmist
þjóðhagslegum markmiðum.`` Þetta er skýrt orðað. Og það er sannarlega tímabært fyrir hæstv. ráðherra að fara að lögum hvað þetta varðar.
    Síðan kom fjmrh. í ræðu sinni inn á hugmyndir um fjáraukalög. Ég verð að segja það að í fyrra þegar ég tók sæti á Alþingi í fyrsta sinn var það mitt fyrsta verk að kynna mér hvernig afgreiðsla fjáraukalaga hefði farið fram undanfarin ár og það var nú hálfgerð hrollvekja að komast að því hvernig það var. ( HBl: Hverjir voru þá fjármálaráðherrar?) Það er allt frá tíð fjmrh. Alþb. í upphafi þessa áratugar.
    Eftir að ég hafði gert fsp. inni í Ríkisendurskoðun og á fleiri stöðum um hvernig stæði á því að þetta hefði ekki verið gert, þá náttúrlega fór þetta af stað og fjmrh. gerði skyldu sína að hluta til að koma með þetta aftur á bak frá 1979, undanskilið 1980, og 1981, 1982, 1983, 1984, 1985, 1986, 1987. En hvað gerði hæstv. fjmrh.? Hann klikkaði á mikilvægasta atriðinu, fjáraukalagafrv. fyrir árið 1988. Það var það sem máli skipti þá. Við getum ekki spilað til baka í fortíðinni

en það var hægt að gera það þá, leggja fram fjáraukalög og ég margítrekaði það á síðasta þingi af hverju þau hefðu ekki verið lögð fram. Þau eru ekki farin að sjá dagsins ljós enn þann dag í dag. En hér er ég með ríkisreikning fyrir árið 1988. Skv. tali hæstv. fjmrh. sjálfs um mikilvægi fjáraukalaga, af hverju hafa fjáraukalög ekki verið lögð fram fyrir árið 1988? Hvað er það sem dvelur það? Hér er kominn ríkisreikningur inn í hv. Alþingi fyrir 1988 en á gömlu verðlagi. Hefur Alþingi sem löggjafarsamkoma þjóðarinnar, löggjafarvald þjóðarinnar ekki enn þá veitt heimild fyrir 8 milljörðum og það er fyrir neðan allar hellur að haga sér svona. Ég skil ekki hvað dvelur. Það er til nóg blek og prent þegar þarf að gefa út fréttatilkynningar. Er ekki til blek og pappír í að gefa út fjáraukalög?
    Við skulum aðeins minna á bráðabirgðalögin frá því í fyrrahaust. Bráðabirgðalög þessarar hæstv. ríkisstjórnar sem hæstv. fjmrh. kallaði ga-ga-stjórn sjálfstæðismanna allt aftur í tímann eins og enginn hafi stjórnað landinu nema þeir. Því miður höfðu þeir ekki hreinan meiri hluta, því miður, þeir réðu þessu ekki öllu saman. En eiga bráðabirgðalögin frá því í fyrra ekki eftir að koma inn á fjáraukalög, eitthvað af þeim? Þetta var afgreitt allt saman fyrir utan lánsfjárlög, fjáraukalög. Þetta var afgreitt með bráðabirgðalögum hálfum mánuði áður en Alþingi kom saman, ráðstafanir upp á marga milljarða. Ekki svo að skilja að það hafi ekki þurft að hjálpa til hjá illa stöddum fyrirtækjum en með því að gera það með þessum hætti er náttúrlega alveg á grófasta hátt verið að sniðganga stjórnarskrána.
    Fjáraukalög eru ekki bara mikilvæg sem stjórnarskrármál. Þetta er eitt af mikilvægustu atriðum við stjórn efnahagsmála að framkvæmdarvaldið leiti sér heimilda fyrir fram um greiðslur úr ríkissjóði og hvernig tekna verði aflað fyrir þeim. Og nú dregst og dregst og fjmrh. auglýsir sjálfan sig sem einhvern allsherjar reddara, að hann sé að bjarga hér fjáraukalögum. Af hverju koma þau ekki? Eiga þau að koma á síðustu dögum ársins? Þá eru þau alveg gagnslaus. Það er ekkert heimilt fyrir fram þegar búið er að eyða peningunum, hæstv. fjmrh.
    Bráðabirgðalögin sem voru utan við fjárlög og lánsfjárlög leiddu af sér gífurlega seðlaprentun og útþynningu á gjaldmiðli landsins sem var það alversta sem þeir gátu gert fyrir illa stödd sjávarútvegsfyrirtæki sem skulda mikið í erlendum gjaldeyri. Það versta sem hægt er að gera er að taka lán og prenta seðla þannig að sá litli höfuðstóll sem eftir er detti við gengisfellingu, því að gengisfelling er óhjákvæmileg afleiðing af seðlaprentun. En þar sem hæstv. fjmrh. hundsaði að leggja fram frv. til fjáraukalaga fyrir árið 1988, þá ákvað ég í vor að skrifa honum bréf strax eftir þingslit, eftir að það gekk ekkert að koma þessu í gegnum þingið í fyrra. Ég fór í því bréfi fram á það við ráðherrann að frv. til fjáraukalaga fyrir árið 1989 yrði lagt fram í upphafi þings. Ég ætla að lesa þetta bréf, með leyfi hæstv. forseta. Það var skrifað 23. maí 1989:

    ,,Undirritaður 5. þm. Austurlands fer þess á leit við fjármálaráðherra í ríkisstjórn Íslands að frumvarp til fjáraukalaga fyrir árið 1989 verði lagt fram strax og þingið kemur saman n.k. haust, þar sem ljóst er að útgjöld ríkisins verða meiri en fjárlög ársins gera ráð fyrir, svo og vegna þess að slíkt er skylt, sbr. 41. og 42. gr. stjórnarskrá lýðveldisins.
    Enn fremur gerir undirritaður hér með athugasemd með formlegum hætti vegna þess að frumvarp til fjáraukalaga fyrir árið 1988 var ekki lagt fram á því þingi sem var að ljúka. Það skal áréttað að gengið mun verða eftir því að ofangreind grundvallaratriði í stjórnarskrá lýðveldisins um að framkvæmdarvaldið leiti sér heimilda fyrir fram hjá löggjafarvaldinu um greiðslur úr ríkissjóði verði virt frá og með upphafi næsta þings. Fjármálaráðherra er beðinn að svara erindi þessu skriflega innan 30 daga frá dagsetningu bréfs þessa.``
    Þessu bréfi sá hæstv. fjmrh. ekki neina ástæðu til þess að svara og hundsaði þetta erindi. Hann hefur hins vegar komið í fjölmiðla og talað digurbarkalega um það að hann hafi brotið blað í sögunni með því að ætla að leggja fram fjáraukalagafrv.
    Ég verð að segja það að mér finnst það nú bara embættismannahroki af grófu tagi og virðingarleysi fyrir Alþingi sem löggjafarvaldi að svara ekki bréfi sem þingmaður skrifar ráðherra um jafnmikilvægt mál og fjármálaákvæði stjórnarskrár lýðveldisins. Það er ekkert annað en hroki, en auðvitað nota menn sinn hroka og ruddaskap eftir smekk. Ég legg mikla áherslu á þetta, að framkvæmdarvaldið leiti sér heimilda fyrir fram um greiðslur úr ríkissjóði. ( Fjmrh.: Af hverju gerði Sjálfstfl. þetta aldrei?) Það var m.a. þess vegna sem ég skrifaði forseta þingsins bréf í fyrra og óskaði eftir að það yrði gerð úttekt á allri starfsemi Alþingis. Það lagðist nú ekki vel í alla. Ég held að virðing þjóðarinnar fyrir starfsemi Alþingis sé því miður ekki mikil um þessar mundir, en það er mjög alvarlegt mál. Og ég held að til þess að ráða bót á því máli verði nú að byrja á því að ræða þetta allt saman á heiðarlegan og hreinskiptinn hátt. Það er ekkert feimnismál að það þarf að endurskoða samskipti löggjafarvalds og framkvæmdarvalds hér á Íslandi. ( Fjmrh.: En af hverju er það feimnismál að Sjálfstfl. lagði aldrei fram fjáraukalög?) Af hverju er það feimnismál, segir hæstv. fjmrh. Alþingi sem löggjafarsamkoma hefur ekki gert athugasemdir við þetta fyrr en ég fór að vinna í því í fyrrahaust ( Fjmrh.: Er það svoleiðis?) og það hefur gengið þokkalega og ég er tiltölulega ánægður með það að geta leiðbeint prófessor í stjórnmálafræði í sambandi við stjórnarskrána, ég er tiltölulega ánægður með það. Ég held, eins og ég sagði áðan, að það þurfi að endurskoða samskipti löggjafarvalds og framkvæmdarvalds frá grunni og þetta er ekkert feimnismál. Það er ekkert meira feimnismál að ráðgjafarfyrirtæki taki fyrir starfsemi Alþingis fremur en að Flugleiðir fái ráðgjafarfyrirtæki utan úr heiminum til að taka upp sína starfsemi, það er ekkert feimnismál. Ég held að aukið sjálfstæði

löggjafarvaldsins sé forsenda þess að löggjafarvaldið geti í reynd talist sjálfstætt og valdið í landinu þrískipt. Valdið í landinu á að vera þrískpt, þ.e. löggjafarvald, framkvæmdarvald og dómsvald. Ég held að aukin fagvinna þurfi að fara fram á vegum nefnda Alþingis, en ég er ekkert að tala um það að það eigi að fara að auka ríkisútgjöld. Það má fækka í ráðuneytum á móti.
    Í framhaldi af því sem ég sagði hér um fjáraukalög má ég til með að minna hæstv. fjmrh. á lög um ráðherraábyrgð. Það eru til lög um söluskatt. Fjmrh. gerði rassíu í því í sumar að innheimta söluskatt og það er að sjálfsögðu ágætismál en ég tel að hann hefði ekki þurft að fara svona ruddalega að því samt eins og hann gerði. En ég ætla að lesa hérna úr 2. gr. laga um ráðherraábyrgð, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Ráðherra má krefja til ábyrgðar samkvæmt því, sem nánar er fyrir mælt í lögum þessum, fyrir sérhver störf eða vanrækt starfa, er hann hefur orðið sekur um, ef málið er svo vaxið, að hann hefur annaðhvort af ásetningi eða stórkostlegu hirðuleysi farið í bága við stjórnarskrá lýðveldisins.`` Og í 8. gr. sömu laga stendur enn fremur:
    ,,Í samræmi við ákvæðin hér á undan varðar það ráðherra ábyrgð eftir lögum þessum ef hann leitar eigi samþykkis Alþingis, þegar skylt er skv. stjórnarskránni.`` Og c-liður: ,,Ef hann ... lætur viðgangast að framkvæmt sé nokkuð það, sem fer í bága við stjórnarskrá lýðveldisins.``
    Ég tel rétt að minna á það að þessi lög eru til og það ber að fara eftir stjórnarskrá lýðveldisins, ekki bara að fara eftir bókstafnum, heldur fyrir það að þetta er það sem er að fara með öll fyrirtæki í gröfina og skerða lífskjör hér á Íslandi, hvernig ríkisvaldið hefur hagað sér í meðferð fjármuna undanfarin ár. Og það er auðvitað alveg fráleitt að koma með einhverja skýringu um það að það sé einhver hefð fyrir þessu eins og sumir hafa nú látið sér um munn fara. Það er ekkert hægt að öðlast hefð til þess að brjóta stjórnarskrána. Ætla menn að fara að halda því fram að það sé hægt að öðlast hefð til þess að skerða mannréttindaákvæði stjórnarskrárinnar og megi fara að fangelsa fólk án þess að það sé tekið fyrir dómstóla? Það er fráleitt.
    Það eru alltaf þessa dagana að koma fram upplýsingar og hæstv. fjmrh. hælir sér af því að viðskiptajöfnuðurinn sé hagstæður, þ.e. lítill innflutningur. Ég túlka þetta ekki sem jákvætt heldur sem vísbendingu um það að lömunarveiki sósíalismans sé að halda innreið sína hér á landi, því ofsköttun og ofstjórn leiðir af sér minnkandi veltu í þjóðfélaginu og hnignun, skert lífskjör. Það er reynslan alls staðar fyrir austan tjald. Það hægir á allri starfsemi í þjóðfélaginu. Og það er nú alla vega vitað fyrir austan járntjald að skert lífskjör eru uppskera sósíalismans en það er eins og sumum hér á landi gangi ákaflega illa að skilja það.