Fjárlög 1990
Fimmtudaginn 26. október 1989


     Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson):
    Virðulegur forseti. Þessi umræða hefur senn staðið í um níu klukkustundir og sumir þeirra sem í henni hafa tekið þátt eru ekki lengur viðstaddir hér í þingsalnum svo að ég ætla ekki að taka mjög langan tíma til að fjalla um ýmis af þeim atriðum sem hér hafa komið fram, enda munu eflaust gefast tækifæri til þess að gera þeim nánari skil, bæði í umræðum um önnur frv. sem ég mun mæla fyrir hér á Alþingi á næstu dögum og enn fremur við 2. umr. fjárlagafrv.
    Ég vil í upphafi þakka fyrir þessa umræðu sem hér hefur farið fram. Hún hefur að mörgu leyti verið fróðleg og athyglisverð og gæfi út af fyrir sig tilefni til þess að fjalla ítarlega um nokkuð marga þætti.
    Ef ég má byrja aftast í röð þeirra ræðumanna sem hér hafa tekið til máls vil ég þakka hv. þm. Guðmundi H. Garðarssyni fyrir hans ræðu. Hann gerði það nokkuð að umtalsefni að ég hefði í minni framsöguræðu brotið hefð og það má kannski nokkuð til sanns vegar færa. Ég leyfði mér það að tala dálítið um pólitík í framsöguræðu fyrir fjárlagafrv. í stað þess að þylja þessa talnadálka sem gert hefur verið á undanförnum árum og áratugum og taldi skynsamlegra að gera það vegna þess að tölurnar má í sjálfu sér allar lesa í fjárlagafrv. og hlutverk fjmrh. við þessa umræðu væri meira að setja hlutina í pólitískt samhengi.
    Ég vil hins vegar óska hv. þm. Guðmundi H. Garðarssyni til hamingju með það að hann braut líka hefð hér í umræðunum með því að taka sér allgóðan tíma til að flytja hér ítarlega ræðu um fjárlagafrv. og ýmsa þætti þess þrátt fyrir það að allir fulltrúar Sjálfstfl. í fjvn. hefðu flutt ítarlegar ræður og einn fyrrv. ráðherra flokksins að auki ásamt síðan varaformanni þingflokksins sem hér flutti einnig nokkra tölu. Ég get alveg verið sammála hv. þm. Guðmundi H. Garðarssyni í þeim efnum að það væri vissulega tilefni til þess að umræðan um fjárlagafrv. væri á svona nokkuð víðtækari og almennari grundvelli en hún hefur stundum verið áður.
    Vegna þeirra einstöku efnisatriða sem hv. þm. Guðmundur H. Garðarsson vék að vil ég aðeins víkja að nokkrum þeirra og þá fyrst þeirri kenningu hans að húsnæðislánakerfið sé millifærslukerfi og þess vegna sé fullyrðing mín um það að millifærslukerfinu verði lokað frá og með áramótum ekki rétt. Ég tel að hér hafi ríkt ákveðin málvenja í stjórnmálaumræðu á Íslandi, að tala fyrst og fremst um millifærslukerfi tengt atvinnuvegunum í þessu sambandi. Ef aftur á móti það á að vera skilningurinn að húsnæðislánakerfið sé einnig millifærslukerfi er auðvitað ekki hægt að draga aðra ályktun af því en þá að Sjálfstfl. sé stærsti millifærsluflokkur þessa lands því að stærri millifærslubreyting hefur varla verið gerð á húsnæðislánakerfinu en sú sem gerð var í stjórnartíð Sjálfstfl. á kjörtímabilinu 1983--1987.
    Ég er nú ekki sammála þessari túlkun þó að ég skilji alveg rökin og ætla þess vegna ekki að gera það nánar að umræðuefni, en vek hins vegar athygli á því,

af því að hv. þm. varð tíðrætt um forustusveit verkalýðshreyfingarinnar, að forustusveit verkalýðshreyfingarinnar kaus að velja sér sjálf sérstaka fulltrúa í stjórn þessa millifærslukerfis sem hv. þm. kallaði spillta stjórn hér í ræðu sinni ( GHG: ... gæti það, leitt til spillingar.) --- eða gæti leitt til spilllingar, já --- og þar sitja m.a. fyrrv. formaður Landssambands ísl. verslunarmanna, Björn Þórhallsson, og einnig forustumenn atvinnurekendasamtakanna. Það er reyndar engin önnur stjórn í landinu þar sem fulltrúar verkalýðssamtakanna og atvinnurekendasamtakanna hafa kosið að sitja með jafnformlegum hætti og húsnæðismálastjórn og vegna þess að ég veit að hv. þm. Guðmundur H. Garðarsson var um langa hríð og er kannski enn einn af forustumönnum Sjálfstfl. í sveit verkalýðssamtakanna fundust mér þessi ummæli hans og skoðanir vera mjög athyglisverðar og ég hef ekki áður tekið eftir því að hann hafi flutt þær á opinberum vettvangi. (Gripið fram í.) Ég átti nú ekki aðeins við fullyrðinguna um að það gæti leitt til spillingar, heldur dóminn almennt yfir þessu kerfi sem sett var upp hér í kjarasamningunum á sínum tíma og því samkomulagi aðila vinnumarkaðarins og þáv. ríkisstjórnar.
    Varðandi Atvinnuleysistryggingasjóðinn vil ég aðeins vekja athygli hv. þm. á því, vegna þess að hann gerði mikið úr þessum eina milljarði, að u.þ.b. þriðjungur hans er tilkominn vegna breytingar á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga og vegna þess að ríkið tekur að sér að greiða framlag sveitarfélaganna á næsta ári í samræmi við þær breytingar sem gerðar verða og voru ákveðnar á hv. Alþingi um breytta verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga. Hélt ég satt að segja að hv. alþm. væri kunnugt um þá meginástæðu.
    Hin ástæðan er fólgin í því að ríkisstjórnin ákvað, gagnstætt því sem ríkisstjórnir hafa gert á ýmsum fyrri árum, að skerða ekki framlagið til sjóðsins, heldur byggja hann upp, ekki endilega vegna atvinnuástandsins á næsta ári, heldur sem almenna aðgerð.
    Hv. þm. flutti hér nokkurn pistil um fjmrh. og formann Alþb. og þessa ríkisstjórn og dró ýmsar ályktanir af fjarveru félaga minna í ríkisstjórninni við þessa umræðu sem ég ætla ekki að gera að umræðuefni hér. Ég vil hins vegar
þakka honum fyrir þessa nafngift sem hann valdi mér, nútímasósíalisti, en vildi aðeins fá að bæta því við að ef hann vildi hafa lýsinguna réttari væri e.t.v. nákvæmara í hinu hugmyndafræðilega samhengi að orða þetta nútímamarkaðssósíalisti, ef hv. þm. hefur áhuga á því að hafa hina hugmyndafræðilegu skilgreiningu rétta. ( GHG: Þetta heyrði ég nú í Austur-Þýskalandi fyrir 15 árum.) Það má vel vera að hv. þm. hafi heyrt þetta í Austur-Þýskalandi fyrir 15 árum, en ég vona að hann hafi hins vegar fylgst það vel með hugmyndafræðiumræðu á Vesturlöndum og þar sem sósíalistaflokkar hafa farið með forustu í ríkisvaldi um langt árabil, eins og t.d. í Frakklandi, á Spáni, í Svíþjóð, Danmörku og víðar, að hann skilji

vel merkingu þess orðs að vera nútímamarkaðssósíalisti í vestrænu samfélagi. ( HBl: Ég skil ekki vel merkingu orðsins. Það væri fróðlegt að fá skilgreiningu á því.) Já, ég er alveg tilbúinn að gera það við annað tækifæri í umræðum hér á Alþingi, hv. þm. Halldór Blöndal, en tel kannski ekki eðlilegt að ég sé að gera það hér í tiltölulega stuttri svarræðu við lok fjárlagaumræðunnar.
    Hv. þm. Guðmundur H. Garðarsson fór einnig með nokkra talnaþulu varðandi breytt hlutföll á skuldabyrði þjóðarinnar sem hlutfall af landsframleiðslu, og fannst mér nú satt að segja að þar væri illa farið með góðan dreng að hann væri að draga þær ályktanir sem hann gerði af þessari talnaþulu vegna þess að það er nú einu sinni þannig þegar menn taka hráar töflurnar frá Seðlabankanum að það getur verið nauðsynlegt að spyrja sjálfan sig um orsakirnar og tímasetningarnar sem liggja að baki þeim tölum sem þar birtast.
    Ástæðurnar fyrir því að þessar hlutfallstölur eru hærri á allra síðustu árum en þær voru áður eru fyrst og fremst þrjár. Í fyrsta lagi sá hallarekstur ríkissjóðs sem hófst að magni frá og með árinu 1985 og var síðan ærið mikill 1986, 1987 og einnig á árinu 1988 þegar Sjálfstfl. fór með forsvar fyrir ríkisstjórn rúmlega tvo þriðju hluta þess árs. Þessi hallarekstur ríkissjóðs var fjármagnaður með erlendum lántökum. Þau lán voru yfirleitt tekin í byrjun næsta árs á eftir, þannig að tímasetningar þessarar lántöku falla yfirleitt á næsta ár á eftir. Þannig féll t.d. erlenda lántakan vegna hins mikla hallareksturs ríkissjóðs á árinu 1988 á árið 1989 vegna þeirrar hefðar Seðlabankans og ríkissjóðs að taka slík lán yfirleitt á fyrstu tveimur til þremur mánuðum ársins á eftir. Hallareksturinn í fjármálaráðherrastjórnartíð Sjálfstfl. og í tíð ríkisstjórnar Þorsteins Pálssonar er því fyrsta meginástæðan fyrir því að hlutfallstölur skuldabyrðarinnar hafa vaxið á allra síðustu árum. Ég nefni t.d. til samanburðar þá tölu sem birtist í Dagblaðinu fyrir fáeinum dögum síðan, þ.e. að ef halli ríkissjóðs í fjármálaráðherratíð Þorsteins Pálssonar væri umreiknaður á verðlag ársins 1990 næmi hann 12 milljörðum kr.
    Önnur meginástæðan fyrir því að þessar hlutfallstölur hafa breyst er að landsframleiðslan hefur dregist saman. Eins og fram hefur komið ærið oft er þetta í fyrsta skipti í 20 ár sem tvö samdráttarár fylgja og á næsta ári verður í fyrsta skipti síðan 1950 að um þrjú samdráttarár í landsframleiðslu í röð verði að ræða og ég veit að hv. þm. er það kunnugur einföldum reikningsaðferðum að þegar sjálfur viðmiðunargrundvöllurinn minnkar, landsframleiðslan í þessum efnum, hlýtur hlutfallstalan að hækka, jafnvel þótt skuldabyrðin í krónutölu væri óbreytt. Það þarf því ekki að hafa átt sér stað nein raunbreyting á skuldasöfnuninni sjálfri þegar landsframleiðslan dregst saman þótt hlutfallstalan hækki.
    Þriðja meginástæðan fyrir því að þessar tölur hafa verið að breytast á allra síðustu árum er virkjanaframkvæmdirnar, Blönduvirkjun, þar sem meginhluti framkvæmdanna og erlendrar lántöku vegna

Blönduvirkjunar hefur átt sér stað á allra síðustu árum og um 3 milljarðar á næsta ári. Ef farið verður hér í stækkun álversins í Straumsvík og virkjanaframkvæmdir í framhaldi af því vænti ég að hv. þm. Guðmundur H. Garðarsson átti sig á því að þá munu þessar hlutfallstölur, sem hann gerði hér að miklu umræðuefni sem stórfellt hættumerki í efnahagslífinu, rjúka upp úr öllu valdi, einfaldlega vegna þess að þá verður að taka mikil erlend lán til þess að standa undir virkjanaframkvæmdum vegna stækkunar álversins í Straumsvík.
    Ég nefni þetta ekki í neinum ásökunartón gagnvart hv. þm., heldur einfaldlega til viðvörunar um að leita fyrst skýringa þess að prósenttölur taka breytingum í dálkunum frá Seðlabankanum áður en menn draga af þeim breytingum efnislegar ályktanir. Staðreyndin er hins vegar sú að árið í ár, 1989, er fyrsta árið í langan tíma þar sem allt útlit er fyrir að það takist að fjármagna halla á ríkissjóði nær eingöngu innan lands og fjárlagastefnan fyrir næsta ár er miðuð við að það takist einnig að gera það gagnvart hallanum á næsta ári. Það er þess vegna sem betur fer þannig að þær tölur sem hv. þm. lagði út af eru í sjálfu sér ekki hættumerki. Þær endurspegla í fyrsta lagi afleiðingar hallareksturs liðinna ára, í öðru lagi samdráttinn í landsframleiðslunni einan og sér sem hækkar hlutfallstöluna án nokkurra raunbreytinga og í þriðja lagi virkjunarframkvæmdirnar vegna Blönduvirkjunar.
    Hv. þm. Guðmundur H. Garðarsson vék einnig nokkuð að ýmsum útgjaldatölum og
dró í efa að þær fengju staðist. Það gerðu einnig nokkrir aðrir þm. hér í umræðunni. Mitt svar varðandi flestar af þessum tölum er það að að baki þeim liggja alveg markvissar ákvarðanir ríkisstjórnarinnar. Þessar tölur hafa þegar verið samþykktar af þingmönnum ríkisstjórnarflokkanna, áður en fjárlagafrv. var lagt fram, þannig að þær munu ekki taka neinum breytingum hér í meðferð þingsins. Þær eru grundvallaratriði í þeirri niðurskurðaraðgerð gagnvart ríkisútgjöldunum sem ríkisstjórnin sameinaðist um í septembermánuði og ágústmánuði sl. Hins vegar get ég vel skilið að mönnum komi það dálítið á óvart að ríkisstjórninni skuli takast að ná saman um svo stórfelldan niðurskurð á ríkisútgjöldum vegna þess að ferill ríkisstjórna fyrri ára sýnir einfaldlega að það hefur oft og tíðum mistekist. Mér fannst satt að segja gæta, ef ég má víkja nokkuð að því hér, töluverðrar þversagnar í málflutningi ýmissa hv. þm. Sjálfstfl. í þessum umræðum. Annars vegar var fjmrh. og ríkisstjórnin fordæmd fyrir það að hafa ekki aukið ríkisútgjöldin meira, hafa ekki bætt við ríkisútgjöldin á fjölmörgum sviðum, og var þar kannski fremstur í upptalningunni hv. þm. Egill Jónsson, og hins vegar var ríkisstjórnin sökuð um það að hafa ekki skorið ríkisútgjöldin nægilega mikið niður.
    Ég vona að ég hafi þá vikið að flestum af þeim efnisatriðum sem komu fram í ræðu hv. þm. Guðmundar H. Garðarssonar og snúa beint að þessu fjárlagafrv., en ég ítreka það að mér fannst ærið margt í hans ræðu vera mjög athyglisvert og vissulega

verðskulda ítarlegri umræðu.
    Hv. þm. Halldór Blöndal vék hér að nokkuð mörgum atriðum. Í raun og veru má skipta umfjöllun hans í kannski þrjá höfuðþætti. Í fyrsta lagi vék hann nokkuð að yfirlýsingum sem gefnar voru í tengslum við síðustu kjarasamninga. Það er verið að vinna að þeim stefnumálum sem þar er greint frá og aðilum vinnumarkaðarins og hv. Alþingi verður greint frá því þegar þau mál eru orðin fullþroskuð.
    Varðandi virðisaukaskattinn tel ég réttara að ræða það mál ítarlegar síðar, en í þeirri greinargerð sem ég sendi til allra þingflokka en að forminu til fyrst til þingflokka ríkisstjórnarinnar greindi ég frá þeirri staðreynd sem ég hélt að væri öllum kunn að vegna þess að það er frjáls álagning á fiski og grænmeti en ekki á kjöti og mjólk er einfaldara að framkvæma beint verðlækkun á mjólk og kjöti í gegnum endurgreiðslukerfið en á fiski og innlendu grænmeti. Ég vek í þessu sambandi athygli á því að vörugjaldið var fellt niður hér á allmörgum vöruflokkum 1. sept. Það virðist því miður ekki hafa leitt til verðlækkunar, heldur hefur verslunin og framleiðendur tekið þá lækkun fyrst og fremst til sín án þess að skila henni til neytenda og húsbyggjenda þótt meginrökin, m.a. af hálfu forsvarsmanna atvinnurekenda, fyrir því að knýja fram þetta afnám vörugjaldsins hafi verið þau að það mundi leiða til verðlækkunar neytendum og húsbyggjendum til hagsbóta. Og það er satt að segja dálítið lærdómsríkt að horfa á þá reynslu.
    Í þriðja lagi vék hv. þm. Halldór Blöndal að jöfnunargjaldinu og það er alveg rétt að í þessu fjárlagafrv. er reiknað með að jöfnunargjaldið verði innheimt áfram. Í því sambandi vil ég vekja athygli hv. alþm. á því sérstaklega að við samanburð á Íslandi og Evrópubandalaginu, frjálsri verslun og frjálsum viðskiptum á Íslandi og í Evrópubandalaginu, styrkjakerfi á Íslandi og í Evrópubandalaginu, ríkisfjölmiðlum á Íslandi og í Evrópubandalaginu, hættir mönnum til að bera Ísland saman við stórborgarhagkerfi og meginhagkerfi Evrópubandalagslandanna og segja: Þess vegna á jöfnunargjaldið ekki rétt á sér. Staðreyndin er hins vegar sú að innan Evrópubandalagsins er stórfellt ríkisstyrkjakerfi gagnvart hinum svokölluðu jaðarsvæðum Evrópubandalagsins. Jaðarsvæði Evrópubandalagsins eru t.d. nánast allt Skotland, verulegur hluti Norður-Englands, stór hluti Norður-Þýskalands, að ógleymdum verulegum hluta Portúgals, Spánar, Grikklands og Suður-Ítalíu. Ríkisstyrkirnir á þessum svæðum eru svo miklir að t.d. fiskiðnaðarfyrirtæki í Bremerhaven fær greidd, beint úr sjóðum Evrópubandalagsins, 30--35% af öllum fjárfestingarkostnaði, jafnvel þó um stórverksmiðjur sé að ræða sem kosta marga milljarða íslenskra króna. Til viðbótar eru svo ríkisstyrkir frá sambandsstjórninni í Vestur-Þýskalandi, í heild í kringum helmingur af öllum fjárfestingarkostnaði. Það er ekkert óeðlilegt að Ísland segi við lönd Evrópubandalagsins: Meðan þið eruð með stórfellt ríkisstyrkjakerfi í atvinnulífi jaðarsvæðanna hjá ykkur sem er á margan hátt mjög

líkt íslenska efnahagskerfinu, þá er ekkert óeðlilegt að Íslendingar séu með innan sinna ríkisfjármála jöfnunargjöld af ýmsu tagi. Ég teldi satt að segja mjög hættulegt fyrir íslenska hagkerfið og fyrir hagsmuni íslenskra atvinnuvega að halda þannig á viðræðunum við Evrópubandalagið að menn geri sér ekki skýra grein fyrir ríkisstyrkjakerfinu og Evrópubandalagsstyrkjakerfinu sem þar er grundvallarþáttur í kagkerfi hinna svokölluðu jaðarsvæða sem eru það sem við á Íslandi ættum fyrst og fremst að bera okkur saman við. Ef við ætlum að falla í þá gryfju að bera okkur fyrst og fremst saman við stórborgarhagkerfið í Evrópubandalaginu værum við að glata mjög tökum á íslenskum hagsmunum. Þar að auki er nokkuð ljóst að fram á næsta ár verða ýmis uppsöfnunaráhrif frá hinu
gamla skattkerfi enn þá í gildi og þess vegna, til viðbótar um ákveðinn tíma, ekki óeðlilegt að jöfnunargjaldið sé í gildi. Ég vil þess vegna biðja hv. talsmenn Sjálfstfl. að hugleiða vel og rækilega hvort það þjónar ekki einmitt hagsmunum Íslands í samningaviðræðum við Evrópubandalagið, hvort sem þeir verða í fylgd annarra EFTA-landa eða með öðrum hætti, að við teflum því hvoru á móti öðru, annars vegar styrkjakerfinu til sjávarútvegsins, landbúnaðarins og iðnaðarins í norðurhluta Englands og Skotlands og norðurhluta Þýskalands og svo hins vegar þeim jöfnunargjöldum sem við erum með hér á Íslandi gagnvart íslenskum innflutningi. Það væri mikil
blinda að vera haldinn slíkri fríverslunarþráhyggju að vilja öll jöfnunargjöld einfaldlega burt út frá einhverri kreddu um frjálsa verslun án þess að gera sér grein fyrir því hvernig raunveruleikinn er innan Evrópubandalagsins.
    Hv. þm. Kristinn Pétursson flutti hér sína hefðbundnu ræðu um brot á stjórnarskránni, við að ekki væru flutt fjáraukalög. Ég ætla nú ekki mikið um þá ræðu að segja. Ástæðan fyrir því að ég svaraði ekki hans bréfi í sumar var að það var ekkert nýtt í því bréfi, það var nákvæmlega sama og hann var búinn að segja hér á Alþingi aftur og aftur allan sl. vetur og nóg er nú skriffinnskan í ráðuneytunum þó að við séum ekki að svara bréfum þm. þegar um er að ræða eingöngu endurflutning á ræðum sem búið er að svara hér á Alþingi. En auðvitað er kjarni málsins sá að sá fjmrh. sem hér stendur er þó ólíkur fyrirrennurum sínum að því leyti að á síðasta þingi kom ég með allan bunkann af fjáraukalögum fyrri ára og ríkisreikningum fyrri ára sem fjmrh. Sjálfstfl. frá 1983--1987 höfðu vanrækt að leggja fram. Og ef það á að draga einhvern fyrir landsdóm fyrir brot á stjórnarskránni, þá ætti skv. þessari kenningu að byrja á núv. hæstv. formanni Sjálfstfl., Þorteini Pálssyni. Svo skulum við hinir koma á eftir þegar búið er að dæma hann skv. kenningu hv. þm. Kristins Péturssonar.
    Sá fjmrh. sem hér stendur verður líka fyrsti fjmrh. sem leggur fyrir Alþingi fjáraukalög fyrir yfirstandandi ár. Það er gerningur sem fjmrh. Sjálfstfl., hvort heldur

Albert Guðmundsson, Þorsteinn Pálsson, Matthías Á. Mathiesen, Magnús Jónsson, Gunnar Thoroddsen eða aðrir sé lengra farið aftur í tímann hafa aldrei gert. Og ég hélt nú satt að segja að ef hv. þm. hefur áhuga á því að fagna reformation í stjórnkerfinu, þá ætti hann að taka höndum saman við núv. hæstv. fjmrh. í stað þess að flytja þessar sífelldu ræður sínar hér um stjórnarskrárbrot sem verður ekki hægt að túlka á annan veg en sem dulbúnar skammir á núv. forustu Sjálfstfl. ( KrP: Reyndu þá að koma þessu frá þér.) Það kemur. Hv. þm. þarf ekki að bíða eftir því. Hann þurfti að bíða
eftir því í hálfan áratug að fjáraukalög frá fjármálaráðherratíð Sjálfstfl. væru flutt hér á Alþingi. Hann mun ekki þurfa að bíða jafnlengi eftir mér. En ég spyr hann hins vegar, hvenær hann flutti þessa ræðu um landsdóminn og stjórnarskrárbrotið á landsfundi Sjálfstfl.? (Gripið fram í.)
    Hv. þm. Birgir Ísl. Gunnarsson flutti hér nokkra ræðu þar sem aðallega var vikið að Háskóla Íslands. Hann sagði einnig nokkur orð um Ragnar Arnalds. Ég vil nú í fullri vinsemd biðja hv. þm. Sjálfstfl. að sýna sannleikanum það mikla virðingu að hætta því að flytja hér á Alþingi þetta rugl sem hv. þm. Þorsteinn Pálsson birti í laugardagsstaksteini sínum í Morgunblaðinu í síðustu viku um það að Ragnar Arnalds hefði rekið ríkissjóð með halla. Ragnar Arnalds er eini fjmrh. á þessum áratug sem á öllum sínum árum skilaði ríkissjóði með tekjuafgangi. Það er söguleg staðreynd, það er hérna í ríkisreikningunum frá þessum árum. Menn geta bara flett því upp og það er satt að segja dálítið leiðinlegt út frá venjulegum kurteisisreglum sem hér gilda í þinginu að bæði hv. þm. Matthías Bjarnason skyldi flytja þessa vitleysu hér í útvarpsumræðum og hv. þm. Birgir Ísl. Gunnarsson koma hér með þetta efni. Árið 1983 skilaði halla, það er alveg rétt, en það vita auðvitað allir að Ragnar Arnalds fór frá sem fjmrh. þegar örfáir mánuðir voru liðnir af því ári og Framsfl. tók við stjórnarforustu og Sjálfstfl. við fjmrn. Ég vil þess vegna með fullri vinsemd biðja menn að vera nú ekki að búa til þá sögufölsun að Ragnar Arnalds hafi rekið ríkissjóð með halla. Ef á að halda þessu áfram leiðir það einfaldlega til þess að maður lætur bera ríkisreikningana hér inn á borð þm. Ef hv. þm. Birgir Ísl. Gunnarsson ætlar að dæma þetta eftir línuriti sem er birt í fjárlagafrv., þá er það einfaldlega dregið á þann hátt að miðjupunktur hvers árs er notaður til að draga frá einu ári til annars en segir einfaldlega ekkert um niðurstöðutölur hvers árs fyrir sig.
    Sama gildir auðvitað um tilvitnun í ræðu Ragnars Arnalds hér í útvarpsumræðunum fyrir fáeinum dögum síðan. Það vita auðvitað allir sem lesa þá ræðu til enda að þau orð sem hann flutti í upphafi voru lýsing á þeim viðskilnaði sem við blasti eftir stjórnarferil Sjálfstfl. undanfarin fimm ár.
    Hv. þm. Birgir Ísl. Gunnarsson vék svo einnig nokkuð að málefnum Háskóla Íslands og þeirri ráðstöfun sem deilt hefur verið um, að verja 60 millj. af tekjum háskólahappdrættisins til þess að hraða

byggingu Þjóðarbókhlöðu. Það er alveg rétt hjá hv. þm. að ég hef starfað við Háskóla Íslands í 20 ár. Ég þekki það þess vegna vel af eigin reynslu og störfum þar að um áraraðir ef ekki
áratugi hafa starfsmenn Háskólans og nemendur verið sammála um það að brýnasta úrbótamálið í húsnæðismálum Háskólans sé öflugt háskólabókasafn. Þjóðarbókhlaðan verður þetta háskólabókasafn. Þar munu um 800 stúdentar Háskólans fá lesaðstöðu. Þangað verður Háskólabókasafnið flutt. Þar verður í fyrsta sinn fullkomin tækniaðstaða fyrir nútímavísindabókasafn og auk þess munu losna inni í Háskólanum 1--2 þúsund fermetrar af öðru húsnæði. Áform forsvarsmanna háskólahappdrættisins eru hins vegar á þann veg að verja fjármunum háskólahappdrættisins á næsta ári og næstu 2--3 árum annars vegar í Tanngarð, byggingu tannlæknadeildar á Landspítalalóðinni og skv. blaðafréttum fyrir nokkrum dögum síðan að reisa risastóra skrifstofubyggingu fyrir háskólahappdrættið. Og hvað sem mönnum finnst um aðferðina við ákvarðanatökuna held ég og vona að allir geti orðið sammála því að það þjónar betur hagsmunagæslu vísinda og rannsókna við Háskóla Íslands að flýta Þjóðarbókhlöðunni en að byggja stóra skrifstofubyggingu fyrir háskólahappdrættið sem fyrirtæki.
    Auðvitað má um það deila hvort það hafi átt að taka endurbyggingu Þjóðleikhússins inn á þjóðarbókhlöðuskattinn ári fyrr en ætlað var, en ég hef átt fund með byggingarnefnd Þjóðleikhússins og á þeim fundi komu fram þeirra sjónarmið að í raun og veru þyrfti mun meira fjármagn í það en ætlað er í fjárlögunum.
    Hv. þm. Egill Jónsson flutti hér nokkuð athyglisverða ræðu. Mér fannst tónninn í hans ræðu vera sá að það sem helst skorti á væri að ríkisútgjöldin væru ekki aukin nægilega mikið. Hann flutti, hér einn þm. Sjálfstfl., mikla réttlætingarræðu vegna þeirrar miklu aukningar ríkisútgjalda sem varð á árunum 1983--1987 og gagnrýni hans á þetta fjárlagafrv. var nær eingöngu á þann veg að útgjöldin væru ekki nægilega mikil. Ekki nægilega mikil til vegamála, ekki nægilega mikil til landbúnaðarmála, ekki nægilega mikil til þeirra hagsmunamála sem snerta bændur, ekki nægilega mikil til þeirra hagsmunamála sem snerta landsbyggðina. Ég sló svona lauslega á það að hv. þm. hefði verið að tala fyrir viðbótarríkisútgjöldum um 2--3 milljarða. Hann hins vegar gerði ekki grein fyrir því hvort ætti þá að auka skattheimtuna eða hvar ætti annars staðar að skera niður. Ég veit hins vegar að hv. þm. Egill Jónsson vill vera ábyrgur þm. og einstaklingur, en því miður kom það hvergi fram í hans ræðu hvernig átti að afla fjár í þessa miklu aukningu ríkisútgjalda og þá væntanlega framfylgja þeim stefnumiðum Sjálfstfl. sem fram komu á síðasta landsfundi að afnema þá skatta sem þessi ríkisstjórn hefði komið á sem þýðir þá um 6--7 milljarða tekjutap fyrir ríkissjóð. Og jafnframt að auka ríkisútgjöldin um 2--3 milljarða til viðbótar bara í þessum tveimur málaflokkum sem hv. þm. Egill

Jónsson fjallaði um án þess að víkja nokkuð að niðurskurði á öðrum sviðum. Auðvitað má flytja hér miklar ræður um svik mín og annarra við hitt og þetta af þessu tilefni, en það verður þó að vera ákveðið samhengi í þeirri stefnu sem menn flytja í þeirri gagnrýni.
    Hv. þm. Alexander Stefánsson vék hér nokkuð að verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga. Eins og fram hefur komið þá hefur því miður orðið reyndin að rekstrarkostnaður, sérstaklega heilbrigðisþjónustunnar sem færð var yfir á ríkissjóð með breyttri verkaskiptingu, hefur reynst mun meiri sem nemur mörg hundruð millj. kr. heldur en áætlað var. Það er að hluta til vegna vanáætlana í mörgum heilsugæslustöðvum, sérstaklega í Reykjavík, og svo hins vegar vegna þess að tannlæknakostnaður féll niður í því dæmi sem sett hafði verið upp og ýmsir hv. kunnáttumenn og þm. veittu því ekki athygli að hann hafði fallið niður. Þess vegna er reyndin sú þegar upp er staðið að ríkissjóður mun taka á sig 500--600 millj. kr. meira en ætlað var þegar gengið var frá fjárhagslegu uppgjöri ríkis og sveitarfélaga á sl. vori í samræmi við breytta verkaskiptingu. Ríkisstjórnin hefur í viðræðum við forustumenn íslenskra sveitarfélaga lýst þeirri skoðun sinni að málið verði að taka upp í ljósi þessara staðreynda með einhverjum hætti. Þó er það staðfest stefna stjórnarinnar að skerða ekki Jöfnunarsjóðinn, en hins vegar verði að ræða þennan aukna rekstrarkostnað og uppgjör skulda frá fyrri árum í samhengi við það.
    Ég er sammála því sem hv. þm. Málmfríður Sigurðardóttir, talsmaður Kvennalistans, sagði hér í umræðunni að Flugstöð Leifs Eiríkssonar er auðvitað mikið vandamál og stórfellt hneyksli, eins og hún orðaði það, í byggingarsögu opinberra framkvæmda. Það er alveg óleyst dæmi á næstu árum og áratugum hvernig á að fjármagna endurgreiðslur af þeim miklu lánum sem tekin voru og standa jafnframt undir rekstri stöðvarinnar.
    Hv. þm. vék einnig að því sem hún kallaði skattpíningarstefnu ríkisstjórnarinnar og var á henni að skilja að Kvennalistinn vildi stórkostlega lækka skatta. Ég vil aðeins spyrja í því sambandi vegna þess að mér er kunnugt um það að Kvennalistinn vill einsetinn skóla, Kvennalistinn vill stórfellda uppbyggingu í heilbrigðiskerfinu, Kvennalistinn vill stórfelldar aðgerðir fyrir fatlaða, Kvennalistinn vill stórfelldar umbætur í tryggingamálum, Kvennalistinn vill verulega aukið framlag til jafnréttismála,
Kvennalistinn vill stórkostlegt viðbótarframlag til byggðamála, hvernig á að fara að því öllu saman ef svo á einnig að lækka skatta? (Gripið fram í.) Nei, það er auðvitað alveg rétt að þm. getur ekki svarað, en eins og ég sagði í upphafi, þá fannst mér engu að síður rétt að víkja nokkrum orðum að fáeinum meginatriðum í máli þeirra þm. sem hér hafa talað og sýna þeim þá virðingu að gera það í stað þess að víkja ekki einu orði að því sem þm. sögðu þrátt fyrir það að þeir hafi orðið að víkja hér úr þingsalnum og af því að ég veit að sumir hafa gert það vegna

annarra anna. Ekki vegna þess að ég sé að nýta mér fjarvistir þeirra til þess að setja fram skoðanir sem hv. þm. vildu svara, heldur einfaldlega vegna þess að ég vil engu að síður taka á nokkrum þeirra höfuðatriða sem viðkomandi þm. nefndu.
    Hv. þm. Pálmi Jónsson flutti hér síðan nokkuð ítarlega ræðu. Ég vil í fyrsta lagi segja að það er misskilningur hjá hv. þm., þær tölur sem hann fór með varðandi skuldastöðu bankakerfisins í samhengi við lausafjárstöðu þess og erlendar lántökur vegna þess að í þeim tölum sem birtar eru er Seðlabankinn talinn til bankakerfisins. Þar er sem sagt ekki um að ræða viðskiptabankana eina, heldur er Seðlabankinn einnig talinn með í þeim tölum sem hv. þm. vitnaði til, en ég var hins vegar eingöngu að víkja að bættri stöðu viðskiptabankanna.
    Hv. þm. lýsti þeirri skoðun sinni að núv. ríkisstjórn hefði gefist upp við að ná jafnvægi í ríkisfjármálum. Það er ekki rétt vegna þess að ríkisstjórnin beitir í þessu fjárlagafrv. markvissum aðgerðum í þessu skyni. Hins vegar hefur ríkisstjórnin horfst í augu við þann veruleika að það sé, miðað við hinn mikla samdrátt sem er í okkar efnahagskerfi, ógerlegt að ná þessu jafnvægi á skemmri tíma en tveimur til þremur árum.
    Hv. þm. velti því einnig fyrir sér hvernig stæði á því að í frv. væru áætlaðar 350 millj. í Atvinnutryggingarsjóð ef ætlunin væri að loka millifærslukerfinu á næsta ári. Ástæðan er einfaldlega sú að þessi upphæð var ákveðin með lögum sem sett voru á árinu 1988 og það er verið að standa við þær lagalegu skuldbindingar að tryggja sjóðnum ákveðið fjárstreymi á þeim tíma og það breytir engu um þá staðreynd að frá og með áramótum verður ekki tekið við fleiri umsóknum. Sjóðurinn mun einfaldlega afgreiða þær umsóknir sem þá liggja fyrir og síðan verður honum komið fyrir í Seðlabankanum eða annars staðar þar sem hann verður þjónustaður eins og hver annar lokaður sjóður sem á að renna sitt skeið á enda.
    Hv. þm. vék einnig nokkuð að kaupmáttartölum sem ég nefndi hér við umræðu um stefnuræðu forsrh. Ég vil í því sambandi bara ítreka það sem ég hef gert áður að ég var þar að bera saman kaupmátt lægstu launa innan BSRB, þ.e. þriðjungs til fjórðungs félagsmanna BSRB, við verðlag á landbúnaðarvörum eða matvælum. Það hefur aldrei verið nein launung á því að kaupmátturinn í heild mundi minnka og hefur minnkað, en það er hins vegar ákveðinn hluti láglaunafólks sem hefur sem betur fer getað treyst því að staðið hefur verið við þau fyrirheit að kaupmáttur þess fólks hefur haldist.
    Hv. þm. vék einnig að uppsetningarformi í fjárlögunum og í grg. og í samanburðartölum. Þær eru ekkert öðruvísi en oft hefur verið áður og það er misskilningur að í frv. sé reynt með einhverjum hætti að gera þann samanburð erfiðari, heldur er þvert á móti reynt að draga upp sem raunsannasta mynd af ástandinu á þessu ári eins og það hefur þróast og það borið saman við frv. til fjárlaga fyrir næsta ár.
    Virðulegi forseti. Það var fjölmargt annað sem

fram kom í ræðum hér í dag sem vissulega hefði verið tilefni til að fjalla um, en eins og ég sagði áðan þá hefur þessi umræða nú þegar staðið í um níu klukkustundir og í umræðum jafnvel næstu daga um ýmis önnur mál sem tengjast þessu fjárlagafrv. og flutt verða í hv. deildum þessa þings gefst tækifæri til þess að fjalla nánar og ítarlegar um þessi atriði.