Skil innheimtumanna ríkissjóðs
Mánudaginn 30. október 1989


     Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson):
    Virðulegur forseti. Ég vil taka undir þau orð hv. þm. Ólafs Þ. Þórðarsonar að það er mjög mikilvægt að innheimtumenn ríkissjóðs, sýslumenn og aðrir sem þeim störfum gegna, fylgi þeim reglum sem þeim er sett að fara eftir vegna þess að þeir eru fulltrúar stjórnvalda í að knýja á um að einstaklingar og fyrirtæki standi í skilum með sínar skuldir. Það er auðvitað alveg ljóst að sé framganga mála hjá innheimtumönnum með þeim hætti sem hér hefur verið lýst hjá tilteknu sýslumannsembætti mun það leiða til þess að innheimtukerfið mun veikjast mjög, og möguleikar til þess að fylgja eftir reglum í þessum efnum verða minni en ella.
    Af hálfu fjmrn. hefur í sumar og haust verið reynt, eins og fram hefur komið, að beita virkari aðferðum við að tryggja örugga innheimtu og mér er bæði ljúft og skylt að greina frá því að yfirleitt hefur samvinnan við innheimtumenn ríkissjóðs, sýslumannsembættin út um allt land, verið einstaklega góð hvað þetta snertir. Það er hins vegar einnig ljóst að það eru undantekningar og sú venja, sem hefur skapast hjá þeim sýslumanni sem hér var sérstaklega nefndur, sýslumanni í Húnavatnssýslum, er andstæð þeim anda reglnanna og þeirri framkvæmd kerfisins sem við viljum halda í heiðri. Þess vegna hafa embættismenn fjmrn. fyrir nokkru síðan átt viðræður við embættismenn dómsmrn. og óskað eftir því að dómsmrn. beiti sér fyrir því sem stjórnsýslulegur ábyrgðaraðili á sýslumanninum að á þessu verði breyting. Og fjmrn. mun rækilega ganga eftir því á næstunni að svo verði. Ég vona að það takist svo að ekki þurfi að grípa til annarra og afdrifaríkari aðgerða gagnvart þessari innheimtustofnun.