Skil innheimtumanna ríkissjóðs
Mánudaginn 30. október 1989


     Geir H. Haarde:
    Virðulegur forseti. Málshefjandi hóf mál sitt á því að vitna til skýrslu yfirskoðunarmanna ríkisreiknings og Ríkisendurskoðunar um endurskoðun ríkisreiknings fyrir árið 1988. Af því tilefni vildi ég vekja athygli á því að í sömu skýrslu yfirskoðunarmanna fyrir árið 1987 segir svo, með leyfi forseta:
    ,,Yfirskoðunarmenn vilja einnig benda á nauðsyn þess að innheimta ríkistekna sé samræmd milli umdæma og að alls staðar sé farið eftir sömu reglum að því er innheimtuaðgerðir og meðferð eftirstöðva varðar.``
    Í skýrslu þessara aðila nú í ár, hinna þriggja yfirskoðunarmanna ríkisreiknings, segir svo, með leyfi forseta:
    ,,Einnig er vert að vekja á ný athygli á nauðsyn þess að sem mest samræmi sé í innheimtu ríkissjóðstekna milli umdæma þannig að gjaldendur sitji alls staðar við sama borð gagnvart innheimtumönnum ríkissjóðs. Eðlilegt er einnig að reglur um niðurfellingu opinberra gjalda og afskriftir ríkissjóðstekna séu samræmdar og framkvæmd þeirra í höndum eins aðila, t.d. Ríkisendurskoðunar. Sjálfsagt er að stjórnir gjaldheimtna geri tillögur um úrlausn einstakra slíkra mála.``
    Mér þykir eðlilegt, virðulegi forseti, að þessar skoðanir komi hér fram úr þessari skýrslu. Ég vil jafnframt benda þingheimi á að fylgiskjöl með þessum skýrslum sýna nákvæmlega hvernig innheimtuhlutfalli í hverju umdæmi er háttað. Þar kemur í ljós að innheimta er mjög breytileg milli umdæma og ýmis innheimtuumdæmi, önnur en það sem hér hefur sérstaklega verið nefnt, þar sem menn geta verulega bætt sig.