Ályktanir Vestnorræna þingmannaráðsins 1989
Mánudaginn 30. október 1989


     Danfríður Skarphéðinsdóttir:
    Virðulegi forseti. Sem einn af flm. þessarar tillögu kem ég að sjálfsögðu hér til að lýsa stuðningi við þær ályktanir sem gerðar voru á fundi Vestnorræna þingmannaráðsins í Stykkishólmi sl. sumar, en ég hef átt sæti á fundum ráðsins undanfarin þrjú sumur fyrir hönd Kvennalistans. Í samkomulagi um Vestnorræna þingmannaráðið, sem var stofnað formlega í Nuuk árið 1985, kom fram sá tilgangur með stofnun þess að þessar þrjár þjóðir eigi ,,sameiginlegra hagsmuna að gæta í varðveislu og skipulegri hagnýtingu endurnýjanlegra og óendurnýjanlegra auðlinda landa sinna``, eins og segir orðrétt í stofnskrá ráðsins, með leyfi forseta.
    Það er ljóst að þessar auðlindir hafa ekki einungis þýðingu fyrir efnahag landanna þriggja, heldur einnig menningu og framtíðarþróun, að ógleymdri þýðingu þeirra fyrir matvælaöflun annarra heimshluta. Það hefur því eðlilega verið stór hluti af starfi ráðsins að fjalla um auðlindir okkar í hafinu og umhverfismál í víðasta skilningi þess orðs. Þannig hefur ráðið fjallað um kjarnorkuendurvinnslustöðina í Dounreay og hættu á geislavirkri mengun, bæði vegna slíkra stöðva og aukinna hernaðarumsvifa á höfunum.
    Í ljósi frétta frá Stóra-Bretlandi nú á síðustu dögum um fyrirhugaða byggingu endurvinnslustöðvarinnar í Dounreay virðist ekki vanþörf á að halda þeirri umræðu vakandi og mótmæla kröftuglega. Sá áfangi hefur náðst innan Vestnorræna þingmannaráðsins að fulltrúar hafa á tveimur síðustu fundum þess verið einhuga um að lýsa áhyggjum sínum vegna aukinna hernaðarumsvifa og umferðar kjarnorkuknúinna skipa á Norður-Atlantshafi og beint þeirri áskorun til ríkis- og landsstjórna landanna þriggja að þær ,,geri allt sem í þeirra valdi stendur til að beita stórveldin þrýstingi í því skyni að flýta afvopnun á Norður-Atlantshafi``, eins og þar segir orðrétt, með leyfi forseta.
    En síðar í sömu yfirlýsingu segir, með leyfi forseta: ,,Er það mat ráðsins að öllu máli skipti fyrir umhverfi landanna þriggja og tilvist að höfin verði gerð kjarnorkuvopnalaus.``
    Burtséð frá sameiginlegum hagsmunum okkar Íslendinga annars vegar og Færeyinga og Grænlendinga hins vegar á sviði umhverfismála eigum við þrjár smáþjóðir í Norðurhöfum margt annað sameiginlegt og á það hefur einnig verið lögð rík áhersla í störfum ráðsins. Til að efla tengsl okkar hafa einnig verið fluttar margar tillögur er snerta menningartengsl þjóðanna, hvernig megi efla þau og auka.
    Í þeim tillögum sem hér liggja fyrir vil ég einkum nefna tvær sem snerta aukin samskipti og kynni íbúa landanna þriggja. Fyrst vil ég benda á tillöguna um fjárframlag til vestnorrænu ferðamálanefndarinnar til kynningarstarfs, áætlanagerðar og markaðsrannsókna á sviði ferðamála í löndunum þremur. Undanfarin þrjú ár hefur verið unnið að því innan vestnorrænu ferðamálanefndarinnar að gera löndin þrjú að sameiginlegu markaðssvæði. Starf nefndarinnar er í

mínum augum mjög mikilvægt verkefni með tilliti til uppbyggingar þessarar nýju atvinnugreinar í öllum þessum löndum. Þar þarf að vanda til verka og því mikilvægt að hún fái til þess góðan stuðning.
    Ég vil sérstaklega taka fram hér að starf nefndarinnar hefur mikið tengst starfi Ferðaþjónustu bænda, en þeir hafa tekið beinan þátt í ferðakaupstefnu Vestnorden síðustu þrjú árin og er það einn mikilvægur þáttur í uppbyggingu atvinnustarfsemi úti í dreifbýlinu.
    Ég vil að lokum aðeins minnast á tillöguna um sérstakt vestnorrænt ár sem lagt er til að efnt verði til árið 1992, árið sem nú er svo oft minnst á vegna samruna 12 Evrópulanda. Það er e.t.v. tímanna tákn að við í Vestnorræna þingmannaráðinu veljum að draga mikilvægi þessara þriggja smáþjóða fram í dagsljósið á þessu ári, umhverfismálin, málefni unga fólksins og síðast en ekki síst jafnréttismálin. Það var ánægjuleg sú samstaða sem myndaðist um að leggja einmitt áherslu á þessi atriði á vestnorrænu ári.
    Ég vil aðeins geta þess áður en ég lýk máli mínu, forseti, að hér á Íslandi hef ég orðið vör við mjög jákvæð viðbrögð við þessari ályktun. Innan Norræna félagsins starfar hópur ungs fólks sem hefur mikinn áhuga fyrir að efla samstarf vestnorrænna ungmenna og hafa þau þegar látið í sér heyra vegna þessarar tillögu og fylgjast grannt með framgangi hennar hér á Alþingi. Segja má að hugmyndin um að efna til jafnréttisráðstefnu hafi þegar verið komin á kreik á Kvennaráðstefnunni í Osló í fyrra. Það var áberandi hve konur héðan af norðurslóðum sýndu mikinn áhuga, þær sem áttu um lengstan og dýrastan veg að fara. Þetta vakti athygli kvenna frá öðrum löndum og kom þá þegar fram áhugi fyrir að sækja þær heim. Og nú þegar hafa íslenskar konur einnig sýnt viðbrögð við þessari tillögu og sýnt henni mikinn áhuga.
    Þessi þrjú meginverkefni sem stefnt er að á vestnorrænu ári eru að mínu mati sérlega vel valin því að það hvernig til tekst með að byggja þessi lönd í framtíðinni veltur á því hvernig við búum að uppvaxandi kynslóð, hvernig okkur tekst að bæta stöðu kvenna og hvort við berum gæfu til að umgangast þær auðlindir sem fólgnar eru í umhverfi okkar. Oft vill brenna við að góðar tillögur eru samþykktar á fundum og síðan gufa þær upp eða það dregst úr hófi fram að hrinda þeim í framkvæmd. Þetta hefur óneitanlega verið vandamál í starfi Vestnorræna þingmannaráðsins og hefur ráðið ályktað sérstaklega um það.
    Í mínum augum er tillagan um vestnorrænt ár í raun prófsteinn á vilja okkar og getu til að vinna að þeim markmiðum sem sett eru í stofnskrá ráðsins og vona ég því svo sannarlega og vænti þess að málið fái góðan framgang hér á Alþingi.