Byggðaáætlun fyrir suðurfirði Austurlands
Mánudaginn 30. október 1989


     Flm. (Egill Jónsson):
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir till. til þál. um byggðaáætlun fyrir suðurfirði Austurlands. Það eru þrír þingmenn úr Austurlandskjördæmi sem flytja þessa till. og eins og sjá má eru þeir hver úr sínum flokki þeirra stjórnmálaflokka sem eiga menn kjörna til þings í Austurlandskjördæmi.
    Þessir þingmenn eru, eins og þarna kemur fram, Egill Jónsson, Jón Kristjánsson og Hjörleifur Guttormsson.
    Till. er svohljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að hlutast til um það við Byggðastofnun að hún geri byggðaáætlun fyrir suðurfirði Austurlands, frá Fáskrúðsfirði að norðan til Geithellnahrepps að sunnan.
    Í áætlun þessari verði gerð grein fyrir ástandi og horfum í byggðaþróun. Sérstök áhersla er lögð á tillögur til úrbóta í atvinnumálum og opinberum framkvæmdum.
    Fullt samráð um áætlunargerðina verði haft við sveitarstjórnir á þessu svæði, Samband sveitarfélaga á Austurlandi og alþingismenn Austurlands.``
    Þessari till. fylgir allítarleg grg. og auk þess tvö fskj. sem skýra nokkuð þróun þessara mála og vitna ég sérstaklega til þess sem kemur fram í þessum texta. En til viðbótar þykir mér rétt, virðulegi forseti, að segja hér nokkur orð til frekari skýringar.
    Sú áætlunargerð sem hér er lögð til að gerð verði mundi ná til sjö sveitarfélaga, þar af eru þrjú sveitarfélög sem byggja afkomu sína einvörðungu á sjávarútvegi og þjónustu við nálægar byggðir. Þrjú sveitarfélögin eru hrein landbúnaðarhéruð og það þriðja er með blandaða framleiðslu, þ.e. það er bæði sveita- og sjávarbyggð sem þar á hlut að máli.
    Þessi sveitarfélög eiga það sammerkt að þau búa við gjöful fiskimið, þar eru fyrir hendi mjög miklar og verðmætar náttúruauðlindir og aðstaða til hafnarframkvæmda er mjög hagstæð. Það hefur verið bætt stórlega úr samgöngum á landi á síðustu árum. En það er ekki langt síðan að á milli þessara sveitarfélaga sumra var tæpast akfær vegur. Nú er hins vegar svo komið að bráðlega sést fyrir það að meginhlutinn af þjóðveginum sem liggur í gegnum þessi sveitarfélög verður lagður bundnu slitlagi.
    Í þessum byggðarlögum hafa verið byggðir upp og eru í uppbyggingu grunnskólar og bætt heilsugæsluaðstaða hefur líka verið þar í uppbyggingu og er raunar enn. Hér er því um að ræða byggðarlög sem hafa haft að markmiði að byggja upp sitt samfélag með tilliti til nútímaviðhorfa í menntun og heilsugæslu og það opinbera hefur mætt þessu með stuðningi við þessi áform og bættan árangur í samgöngumálum.
    Hins vegar er því ekki að neita að þessar byggðir virðast eiga í nokkurri vök að verjast um þessar mundir. Að vísu hefur íbúafjölgun átt sér stað, þegar litið er til ársins 1971, en erfiðleikar eru í atvinnulífinu á þessum stöðum, bæði til sjós og lands. Það er brennt því sama marki og svo víða annars

staðar að hér er um fremur einhæfan atvinnurekstur að ræða svo að mikil þörf væri úr að bæta ef þar fyndust einhverjir kostir. Við flm. þessarar tillögu höfum áreiðanlega allir komist í snertingu við hugmyndir forustumanna sveitarfélaganna til að auka fjölbreytni í atvinnulífinu í þessum byggðarlögum.
    Það er eftirtektarvert og kemur fram í greinargerðinni að hér er um miklar framleiðslubyggðir að ræða. Miðað við framleiðslu ársins 1987 voru heildarverðmæti í framleiðslu sjávarafurða í þessum byggðarlögum rúmlega 1,2 milljarðar kr. og var það 2,92% af heildarverðmæti útfluttra sjávarafurða það ár. Þegar þessum verðmætum er skipt niður á íbúana sem þessar byggðir byggja þá kemur það í ljós að hver íbúi hefur framleitt sem svarar 650 þús. kr.
    Landbúnaðurinn á þessu svæði á í vissum erfiðleikum fram yfir það sem gerist, a.m.k. mjög víða. Það hefur dregið úr mjólkurframleiðslu sem er nú þó sá hluti landbúnaðarins sem býr við einna styrkastan markað. Enn fremur hefur skæður sauðfjársjúkdómur, riðuveiki, herjað á sauðfjárstofninn þannig að á þessum slóðum, sérstaklega þó í Breiðdal, hefur átt sér stað mjög mikill niðurskurður á sauðfé. Það er raunar ekki sýnt hvernig það fólk sem hefur byggt afkomu sína á þeirri búgrein kemur til með að bregðast við þegar fram líða stundir. M.a. af þessari ástæðu er afar þýðingarmikið að hér komi fram viðleitni og áhugi frá hinu opinbera og skilningur á högum fólksins í þessum byggðum.
    Ég sé ekki ástæðu til þess, virðulegi forseti, að fjölyrða meira um efni þessarar tillögu. Mér þykir þó vert að geta þess að þessi tillaga var flutt á síðasta þingi, og þá mjög seint þannig að hún kom hér ekki til umræðu, en hins vegar hafa sveitarstjórnarmenn eða forustumenn í sveitarstjórnum þar eystra
fengið þá tillögu og það var mikið ánægjuefni að þeir höfðu frumkvæði um það sín á milli að taka hana til umræðu. Og í þeirra hópi er afar mikill áhugi á því að hún hljóti samþykki. Forustumenn sveitarfélaganna hafa komið því á framfæri við Byggðastofnun að undirbúa þá tillögugerð sem hér um ræðir og því hefur verið tekið vel á þeim vettvangi. Það er hins vegar jafnþýðingarmikið og gildur heimanmundur fyrir þetta mál að það hljóti samþykki Alþingis og stuðning þess. Og sú er ástæðan fyrir því að tillagan er nú hér flutt öðru sinni af þeim þm. sem ég gat um í upphafi.
    Ég vil svo í lokin, virðulegi forseti, gera það að tillögu minni að þegar að þessari umræðu lokinni verði tillögunni vísað til atvmn. Sþ.