Áfengiskaup opinberra embætta og stofnana
Mánudaginn 30. október 1989


     Flm. (Stefán Valgeirsson):
    Virðulegi forseti. Á þskj. 45 er till. til þál. um áfengiskaup opinberra embætta og stofnana sem ég flyt.
    Tillgr. er svohljóðandi, með leyfi forseta:
    ,,Alþingi ályktar að frá 1. jan. 1990 skuli öll áfengiskaup opinberra embætta og stofnana, sem eiga sér stað hjá Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins, vera greidd og bókfærð á útsöluverði ÁTVR eins og það er þegar kaupin eru gerð.``
    Að undanförnu hafa birst í fjölmiðlum fréttir af kaupum ýmissa opinberra aðila á áfengi frá ÁTVR á sérkjörum, þ.e. miklu lægra verði en útsöluverð er. Færsla á áfengiskaupum í ríkisbókhaldi og ríkisreikningum á öðru verði en almennt tíðkast er til þess fallin að torvelda þeim sem vilja kynna sér þessi mál og meta umfang og réttmæti áfengiskaupa á vegum hins opinbera. Þess vegna er þessi tillaga flutt.
    Það athyglisverða og gleðilega hefur gerst að forsetar Alþingis hafa ákveðið að neyta ekki þessa réttar. Þær reglur sem farið hefur verið eftir um kaup á áfengi á sérkjörum virðast hafa verið lausar í reipum og túlkaðar á ýmsa vegu sem leitt hefur það af sér að einstaklingar hafa verið grýttir af fjölmiðlum fyrir e.t.v. svipuð áfengiskaup á sérkjörum og talið er að ýmsir aðrir hafi notfært sér án mikillar umfjöllunar eða áfellisdóma. Slíku ástandi er ekki hægt að una og því verður að grípa til þess að taka þetta alveg af.
    Þegar umræður fóru fram um að leyfa sölu á áfengum bjór töldu nokkrir hv. alþingismenn að slík sala mundi ekki leiða það af sér að aukning yrði á kaupum á hreinum vínanda. Í lok septembermánaðar sl. var búið að selja um 5 millj. og 200 lítra af áfengum bjór. Og aukning á hreinum vínanda sem farið hefur ofan í
þjóðina á þessum tíma hefur reynst vera 27% frá þeim degi sem bjórsalan var leyfð.
    Umræddir þingmenn, sem töldu að bjórinn mundi ekki auka áfengisneyslu í landinu, miðað við þetta aukna frelsi og aukið val á áfengiskaupum, hafa ofmetið frelsið að mun. Hvort um dómgreindarbrest hefur verið að ræða í þessu efni læt ég aðra um að dæma.
    Virðulegur forseti. Ég óska eftir að þessari þáltill. verði vísað til 2. umr. og allshn.