Lánsfjárlög 1990
Þriðjudaginn 31. október 1989


     Karvel Pálmason:
    Virðulegur forseti. Ekki skal ég lengja mjög þessa umræðu enda var það ekki mín meining að taka þátt í henni, en ræður einstakra þingmanna hafa orðið til þess að ég stenst ekki freistinguna.
    Út af því sem hv. síðasti ræðumaður sagði, hv. 6. þm. Reykv., um áhrif kvenna á peningamarkaðinn þá stendur það nú vonandi til bóta með þeirri kúvendingu sem Kvennalistinn hefur tekið að því er varðar skipan bankaráða þannig að kvennalistakonur fara trúlega að hafa meiri áhrif á gang peningamála í þjóðfélaginu heldur en verið hefur.
    Ég hef sagt það hér áður og segi það enn að bæði kvennalistakonur og fjölmargar aðrar konur hafa ekki viljað axla ábyrgð við stjórnvölinn í ýmsum félagasamtökum og að því er varðar stjórnvöld og stofnanir eins og þeim hefur gefist kostur á. Þar vantar að mínu viti fyrst og fremst hjá Kvennalistanum kjarkinn. Ekki meira um það.
    Ég hef upplifað í 17, 18, 19 ár umræður hér á Alþingi í svipuðum dúr og þær sem nú eiga sér stað. Hér eru menn að ræða um lánsfjárlög hæstv. núv. ríkisstjórnar. Áður hafa menn rætt um lánsfjárlög hæstv. fyrrv. ríkisstjórna í gegnum árin. Mér finnast þessar umræður afskaplega keimlíkar allar saman, hvaða hæstv. ráðherra sem hefur átt í hlut. Ég er út af fyrir sig ekki sérstaklega að gagnrýna núv. hæstv. fjmrh. Ég þykist vita að hann, eins og aðrir, vilji vel þó að verkin mörg hver sýni annað sem hann kannski ekki ræður ferðinni með.
    Hér tala menn fyrst og fremst um talnaraðir út og suður sem enginn botnar í, ekki a.m.k. almenningur eins og ég. Og kannski er leikurinn gerður til þess að almenningur í landinu botni ekkert í þessum tölum, ekkert í því hvað verið er að gera. Ég hef verið þeirrar skoðunar lengi og ég er þeirrar skoðunar enn að öll sú uppsetning, allar þær flækjur sem settar eru fram, bæði í fjárlögum og í lánsfjárlögum, séu fyrst og fremst ætlaðar til þess að flækja málin fyrir almenningi á þann veg að almenningur botni ekki neitt í neinu skilji ekki upp eða niður í einu eða neinu og hætti þannig að hafa afskipti af málunum. Þetta er afskaplega þægilegur leikur ef mönnum tekst að velta málum þannig upp, ég tala nú ekki um fjárlög ríkisins og lánsfjárlög, að meginhluti almennings í landinu hætti að hafa nokkra trú á því og hætti að hafa nokkra skoðun á því vegna þess að hann skilur það ekki.
    Ég verð að viðurkenna það að ég er einn af þessum almenningi sem botnar ekki upp eða niður í neinu því sem verið er að færa hér fram. Ég veit að hæstv. fjmrh. er það menntaður einstaklingur að hann gerir sér fullkomlega grein fyrir því hvernig hann er að þvæla málin og hverju hann er að þvæla. Og kannski er honum það betur lagið heldur en mörgum forverum hans í starfi að gera slíkt. ( Gripið fram í: Það er svo gaman.) Ekkert skal ég segja um gamanið eða löngunina, en ég veit að hæfnina hefur hann. ( Gripið fram í: Allt fyrir völdin.) Það má vel vera

að allt sé fyrir völdin hjá honum, en það er þó víðar sú skoðun ríkjandi, allt fyrir völdin.
    Ég ætla hér ekki að ræða sérstaklega lánsfjárlög hæstv. ríkisstjórnar eða hæstv. fjmrh. En mér finnst eiga heima í þessum umræðum, ég veit ekki hvort hv. þingdeildarmenn eru mér sammála eða hæstv. forseti, en mér finnst eiga heima í þessum umræðum lánsfjárlög heimilanna. Það er ekki síður hlutur sem þingmenn, ráðherrar og stjórnvöld þurfa að hyggja að heldur en ríkiskassinn sjálfur, fjárlög ríkisins eða lánsfjárlög ríkissjóðs. Ég verð að segja það að mér finnst núv. hæstv. ríkisstjórn með hæstv. fjmrh. í broddi fylkingar ekki gæta nægilega hagsmuna heimilanna. Þá á ég fyrst og fremst við heimila hins almenna launamanns, og þá er ég kannski fyrst og fremst að tala um hins almenna launamanns innan Alþýðusambands Íslands sem ég þekki best til. Ég þekki hitt ekki nægilega vel til þess að ræða um það sérstaklega en ég er fyrst og fremst að ræða um hinn almenna launamann innan Alþýðusambands Íslands, innan hinna almennu verkalýðsfélaga innan Alþýðusambandsins.
    Ég vil hins vegar taka það fram að núv. hæstv. ríkisstjórn er ekki sú eina sem ekki hefur gætt þessara hagsmuna og kannski hafa aðrar ríkisstjórnir gætt þeirra verr en núv. ríkisstjórn þó að hún hafi gætt þeirra illa. Hvað sem menn ryðja hér úr sér af tölum um ágæti þess sem nú er að gerast, á að gerast í áframhaldi á næsta ári að því er varðar ríkissjóð, þá er það buddan hjá almenningi sem segir fyrst og fremst til um það hvernig málin standa. Það er budda hins almenna manns, hins almenna þegns í þjóðfélaginu sem segir fyrst og fremst til um það hver þróunin er og við skulum skoða það aðeins nánar.
    Það er auðvitað enginn vafi að það er halli á ríkissjóði, en það er ekki síður og kannski enn meiri halli, hæstv. fjmrh., hjá heimilunum í landinu. Það er sá halli sem hinn almenni launamaður ræður ekkert við eins og í pottinn er búið og kannski versnar hann enn eftir því sem fram líða stundir haldi fram sem horfir.
    Ég minni á það að á vordögum fyrir kosningarnar 1987 var það þáv. fjmrh. sem sveikst aftan að hinum almennu launþegum í Alþýðusambandi Íslands og samdi um
mun meiri launahækkanir við BSRB-menn og þá sem ofar voru settir í launakjörum innan ríkiskerfisins. Þetta var fyrir kosningar 1987 þegar Þorsteinn Pálsson gegndi starfi fjmrh. Þetta hafði auðvitað sínar afleiðingar á þróun launamála eftir að þetta gerðist á hinn verri veg fyrir hinn almenna launamann. Skattar hjá bæði þeirri hæstv. ríkisstjórn og núv. hæstv. ríkisstjórn eru að mínu viti um of svo ekki sé meira sagt, skattar eru um of, ég tala nú ekki um fyrir það almenna launafólk sem þarf undir þeim að standa auk alls annars.
    Ég þarf ekki að eyða mörgum orðum á matarskattinn. Ég gerði grein fyrir því máli á sínum tíma og var þá andstæðingur hv. þm. Sjálfstfl. í þeirri ríkisstjórn þar sem þeir studdu þá skattlagningu

dyggilega að mér fannst, en ég var andstæðingur. Og ég er enn þeirrar skoðunar að matarskatturinn hafi verið eitt af þeim verstu málum sem sú hæstv. ríkistjórn stóð fyrir. Hvort sem hv. þm. Sjálfstfl. hafa látið leiðast út í þá villu eða gert það viljandi, það skal ég ekkert um segja, en sá skattur hefði ekki farið í gegn hér á Alþingi ef hv. þm. Sjálfstfl. hefðu greitt atkvæði gegn honum eins og ég gerði og þetta ættu menn að muna.
    Það er oft gott að rifja upp hvaða afstöðu menn hafa haft áður í hinum mikilvægu málum. Það er auðvitað ekki þörf á að rifja upp núna það sem gerðist í samningum á sl. vori. Ég fullyrði að þá tók hinn almenni launamaður fullkomlega tillit til minnkandi þjóðartekna og hagaði sinni samningsgerð í samræmi við það, tók á sig byrðar sem ég er farinn að draga í efa að hann hefði átt að gera vegna þess hvernig þróunin hefur orðið. Menn vita um þær launahækkanir sem um var samið. Og menn vita líka um loforðin sem hæstv. ríkisstjórn gaf þá. ( HBl: Var staðið við þau?) Nei, því er fljótsvarað, og hv. þm. Halldór Blöndal þarf ekki að spyrja. Fylgist hann með? Það var ekki við það staðið. ( Fjmrh.: Það er rangt. Það hefur verið staðið við allt sem lofað var.) Það hefur ekki verið staðið við allt sem lofað var þá, hæstv. ráðherra. Það hafa launþegasamtökin margítrekað að ekki hefur verið gert. Og það þýðir ekki fyrir einstaka ráðherra, ekki einu sinni hæstv. fjmrh., að halda því fram hér á Alþingi að við það hafi verið staðið sem þá var lofað. Launþegahreyfingin þá samdi um þessar lágu launahækkanir í trausti þess að stjórnvöld stæðu við þau fyrirheit sem þau gáfu við samningsborðið.
    Menn geta skoðað þróunina síðan. Finnst hinum almenna launamanni í landinu að kaupmáttur eða laun, í hverju sem menn mæla þetta, á hvorn veginn, hafi staðist þær hækkanir sem orðið hafa á þessum hinum sama samningstíma, ekki bara að því er varðar hið almenna vöruverð, heldur fyrir forgöngu hæstv. ríkisstjórnar í uppboði á þjónustugjöldum og öðru slíku? Ég hygg að hvað sem hæstv. ráðherrar kunna að segja við mig eftir svona orð, eða hreyfinguna, sé almenningur sammála í þessu máli. Það hefur orðið sú þróun í kaupgjalds- og verðlagsmálum að það er ekkert í takt við það sem launþegahreyfingin lagði sig nánast undir 1. maí sl. í trausti þess að hægt væri að treysta á loforð stjórnvalda sem kenna sig við félagshyggju til framtíðar, treysta frekar á þau loforð en þeirra ríkisstjórna sem hafa verið mjög andvíg verkalýðshreyfingunni undangengin mörg ár og áratugi. Það er í mínum huga talsvert mikið að upplifa
það að maður hafi orðið fyrir slíkum vonbrigðum með núv. hæstv. ríkisstjórn að því er varðar þennan þátt mála, ekki hvað síst.
    Það er nú einu sinni svo að ef launafólk, hvar í pólitískum flokki sem menn teljast, getur ekki treyst því að ríkjandi stjórnvöld hverju sinni standi við gefin fyrirheit, þá eru menn að brjóta niður það lýðræði og það traust sem menn hafa byggt upp á mörgum

áratugum hér á Íslandi. Það er miklu auðveldara að brjóta þetta traust niður en að endurvekja það aftur í ljósi þess sem gerst hefur. Ég er ekki að segja að menn hafi gert þetta viljandi og ætla mönnum það ekki, en stjórnvöld hefur vissulega borið af leið að því er þetta varðar. Og það að bera af þeirri leið, á þann veg sem gerst hefur, kann að verða til þess að launþegahreyfingin sem heild mun ekki við það búa, mun ekki una því, ef menn ætla að halda áfram slíkum leik, og þá dugar ekki þó að menn telji sig hafa tögl og hagldir við stjórnvölinn í tiltölulega stuttan tíma. Það kemur að því að almenningur í landinu hlýtur að kveða upp sinn dóm. Ég er ekki í neinum vafa um það, eftir því sem ég skynja viðhorf hins almenna manns, að almenningur ætlast til annars og meira að því er varðar efnahagsstjórn, laun og fleira en stjórnvöld hafa skilað til þessa. Ég fullyrði það að ef menn ætla að skila því verki sómasamlega verða þeir nú þegar að taka til við það ef sá tími á að duga sem menn telja sig nú vera búna að skapa til næsta uppgjörs í stjórnmálum.
    Ég held að þetta sé nauðsynlegt. Einhvers staðar stendur að sá sé vinur sem til vamms segi, og það á vissulega við í þessu efni. Ég vænti þess að þeir sem ferðinni ráða taki tillit til þess fólks sem í raun og veru hefur borið þá uppi en er ekkert víst að beri þá uppi. ( GHG: Örugglega.) En þetta á við marga. Þetta er ekki einhent, hv. þm. Guðmundur H. Garðarsson. ( GHG: Við erum búnir að fara í gegnum þetta allt saman.) Þetta er ekki einhent. Það dugar ekki oft og tíðum að fara í gegnum hlutina ef menn ekki læra. Það er númer eitt. Menn eiga að læra af reynslunni og það hefur marga skort, að gera slíkt.
    Herra forseti. Kannski hef ég farið út fyrir dagskrá þessa fundar í hv. deild, en ég held þó að þetta eigi hér heima og sé á réttum stað, að menn ræði líka fjárhagsstöðu heimilanna á sama tíma og menn eru, að því er mér finnst á hæstv. fjmrh., með góðar sagnir um það að staða ríkissjóðs hafi batnað. (Gripið fram í.) Já, og þá væri líka mjög gott að fá að vita hvort staða heimilanna hefur á sama tíma batnað. Og þá er ég enn, og ítreka það, að tala um hinn almenna launamann, um hið almenna verkafólk. ( GHG: Þeir eru ekki í snertingu við það, hv. þm.) Hv. þm. Guðmundur H. Garðarsson ... (Forseti hringir.) Jú, jú. Það er allt í lagi að hv. þm. Guðmundur H. Garðarsson grípi fram í því á því græða þeir sem í ræðustól eru. ( GHG: Einmitt. Þess vegna geri ég það.) Það fer nærri lagi.
    Það er nú einu sinni svo að þeir sem komnir eru á toppinn skynja oft og tíðum ekki sinn vitjunartíma. Og það á ekki bara við um núv. hæstv. ríkisstjórn. Það hefur átt við um aðrar og trúlega margar, ef ekki flestar. Það er nú einu sinni gangur lífsins að menn verða að læra af þeirri reynslu og trúa því að menn séu á réttri leið með því að þjóna þeim hugsjónum sem þeir hafa ætlað sér að gera. Ég hvet því hæstv. fjmrh. --- ég veit að hann er góður drengur og á margt gott skilið --- til þess að snúa af þessari braut að því er varðar launamálastefnu því að það er nú

einu sinni svo að ríkið er stærsti atvinnurekandinn í landinu. Og ég verð að bæta því við að hæstv. fjmrh. --- ég segi ekki sveikst aftan að BSRB og Alþýðusambandinu í síðustu samningum en gerði þó verulega betur við aðra betur launaða hópa innan BHMR þegar hann samdi við þá á eftir hinum, þvert á þá launastefnu sem hæstv. fjmrh. hafði þó boðað að því er varðaði BSRB og ASÍ. Þetta gerir enn verra með því að auka það vantraust, ekki sem bara forustumenn hreyfingarinnar, heldur og almenningur í landinu, hinn almenni launamaður, ber til stjórnvalda, ef ekki er hægt að treysta því sem menn eru í góðri trú að semja um á hverjum tíma og treysta að nái fram að ganga.
    Að síðustu: Ég heyrði og raunar tek undir skilaboðin frá landsbyggðinni sem hv. þingdeildarkonur eða þingkonur, eins og það er líklega orðað rétt. (Gripið fram í.) Þingkonur. Já, ég hef alltaf litið á konur sem menn og geri enn þó að maður láti þetta eftir sumu fólki að orða þetta svo. Auðvitað er tekið undir þá rödd sem hv. þingkonur Kvennalistans heyrðu af landsbyggðinni í sumar, og líklega þá fyrst í sumar, varðandi atvinnumálin. Þessa rödd hef ég heyrt í áratugi og get þess vegna tekið undir hana og hún er rétt og hana þarf að undirstrika. Þess vegna er þetta ekki sagt af neinni illgirni til hv. þm. Guðrúnar Agnarsdóttur. Það er rétt að undirstrika þetta því að þetta á svo sannarlega við og það þarf að koma fleirum en kvennalistakonum í skilning um röddina á landsbyggðinni, frá launafólki af landsbyggðinni. Þar hefur verið daufheyrst við alllengi og mér sýnist enn vera svo. Ég vona hins vegar að það breytist. Eftir því sem þeim fjölgar sem undir þetta taka, eftir því er hægt að hafa meiri áhrif á hlutina.
    Ég skal ekki, herra forseti, lengja þetta frekar, en þetta taldi ég nauðsynlegt að kæmist hér að inn í umræðuna þó að menn kannski telji þetta ekki nákvæmlega innan þess dagskrárliðar sem hér er til umræðu.