Lánsfjárlög 1990
Þriðjudaginn 31. október 1989

     Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra (Guðmundur Bjarnason):
    Hæstv. forseti. Ég hafði því miður ekki fylgst með umræðunni allri um þetta mál, en ég heyrði fyrirspurn hv. þm. varðandi ákvæði 27. gr. laganna og það er vissulega rétt sem hv. þm. sagði og vitnaði til þess sem við ræddum hér í fyrra þegar við ræddum um nefskattinn svokallaða og að taka hann upp aftur og að þetta væri nú kannski sá skatturinn sem menn greiddu með ljúfustu geði ef hægt væri að tala um að menn greiddu einhverja skatta með því hugarfari. Það er allt saman rétt eftir mér haft í þeirri umræðu.
    Nú er hins vegar staðreyndin sú, eins og mál standa í dag, að við höfum því betur náð stórum og merkilegum áföngum í byggingu húsnæðis fyrir aldraða. Við erum hins vegar í erfiðleikum með rekstur þessa húsnæðis. Við horfum á það að sumar þessar stofnanir hafa lokað hluta af starfsemi á þessu ári sem nú er að líða, drógu verulega úr starfsemi sinni í sumar, m.a. vegna sumarafleysinga, höfðu ekki fjármuni til þess að greiða sumarafleysingafólki og það leiddi til þeirrar umræðu að líta skyldi á það hvort endurskoða mætti hlutverk Framkvæmdasjóðsins og líta á það hvort hann gæti í ákveðnum tilvikum, nánar skilgreindum, tekið þátt í rekstri stofnana. Reyndar er kveðið svo á um í lögunum núna, eins og þau líta út og voru samþykkt á síðasta þingi, að það er heimilt að Framkvæmdasjóðurinn aðstoði við að koma á heimilisþjónustu eða heimahjúkrun, réttara sagt, og það verður skoðað sérstaklega vegna þess að það er eitt af því sem við leggjum áherslu á og reyndar er andi nýsamþykktra laga um málefni aldraðra að veita öldruðum tækifæri og möguleika á að búa sem lengst í heimahúsum og draga þá þar með úr þörf fyrir stofnanaþjónustuna. Ég held að þetta sé verðugt verkefni og við munum þess vegna líta til þess hvort Framkvæmdasjóðurinn geti á þann hátt leyst rekstrarverkefni vegna þess að það er reyndar nú þegar inni í lögum ákvæði um að hann hafi heimild til þess. Síðan er í athugasemdum með fjárlagafrv. gerð grein fyrir því að lög um Framkvæmdasjóðinn verði tekin til nánari skoðunar með þetta í huga.
    Mér er það hins vegar í sjálfu sér ekkert ljúft, af því að hv. þm. spurði hvort heilbrrh. væri ljúft að standa að þessari skerðingu eins og hún er hér fram sett. Mér er það út af fyrir sig ekki ljúft, en ég vitna til þessara röksemda, að þó að ýmis verkefni bíði, við vitum um stofnanir sem eru á teikniborðinu og sumar eru hálfbyggðar, byggingar fyrir aldraða, verðum við líka að horfa til þess að við verðum að hafa möguleika á að reka þessar stofnanir og veita þjónustuna sem þar á að fara fram og reyndar enn betra ef við gætum veitt hana í meira mæli í heimahúsum en nú er. Það eru þau verkefni sem við ætlum að skoða sérstaklega núna í tengslum við afgreiðslu fjárlaga og lánsfjárlaga.