Lánsfjárlög 1990
Þriðjudaginn 31. október 1989


     Eyjólfur Konráð Jónsson:
    Herra forseti. Ég beindi úr sæti mínu fyrirspurn til hæstv. fjmrh. um það hvað orðið eftirspurnarvandi þýddi. Ég skildi ráðherra ekki almennilega. Ég er kannski dálítið treggáfaður en ég náði ekki skýringunni. Er það vandi sem stafar af of mikilli eftirspurn? Eða hvað er eftirspurnarvandi? Ef ráðherrann vildi svara því bara úr sæti sínu. ( Fjmrh.: Það getur bæði stafað af of lítilli og of mikilli eftirspurn.) Nú, það er sami vandinn. Eftirspurnarvandinn er alltaf sami vandinn hvort sem hann er of mikill eða of lítill. ( Fjmrh.: Hann getur ýmist verið fólginn í of mikilli og of lítilli eftirspurn.) Og samt heitir það eftirspurnarvandi? ( Fjmrh.: Að sjálfsögðu.) Það heitir sem sagt eftirspurnarvandi í þjóðfélaginu hvort sem það er of mikil eftirspurn eða of lítil.
    Ég held að það hafi verið rétt hjá mér að ráðherrann hafi sagt að það hafi náðst stöðugleiki með skattahækkununum. Er það ekki rétt? Með skattahækkununum hafi náðst stöðugleiki, sagði ráðherrann. Sem sagt að þenslan væri nú kannski horfin. Og hann sagði að það þyrfti að greina sjúkdóminn áður en meðalið væri fundið. Nú segir hæstv. ráðherra að eftirspurnarvandinn sé sem sagt alltaf sjúkdómur. ( Fjmrh.: Nei.) Nú. Hvenær er hann það ekki? ( Fjmrh.: Ég sagði að sjúkdómurinn hefði ekkert með eftirspurnina að gera.) Sjúkdómurinn hefði ekkert með eftirspurnina að gera. ( Fjmrh.: Sjúklingurinn væri í heilbrigðu ástandi.) Ráðherrann sagði að gallinn hefði verið sá þegar hér var mikil velta og mikil eftirspurn að þá hefðu ekki verið hækkaðir skattar. Hann sagði að núna hefði vandinn verið leystur með því að hækka skatta. Það hefði átt að gera líka áður. Það á sem sagt alltaf að hækka skatta? Er það ekki? ( Fjmrh.: Nei.) Nú. Hvenær á að lækka þá? ( Fjmrh.: Ég sagði það í ræðu minni ef þingmaðurinn hefur hlustað.) Sagði ráðherrann í ræðu sinni hvenær ætti að lækka skatta? Ég hef aldrei heyrt hann nefna það orð. En þetta er náttúrlega orðin slík hringavitleysa að ... ( Fjmrh.: Þá hefur þingmaðurinn ekki hlustað.) Jú, jú, ég hlusta nú alltaf á hæstv. ráðherra. Þó hann fari marga hringi í sömu ræðunni þá hlusta ég alltaf. Núna er hann búinn að fara tvo eða þrjá. Það er sem sagt alltaf sami vandinn. Eftirspurnarvandi er alltaf, hvort sem það er of mikil eftirspurn eða of lítil og það á alltaf að hækka skatta hver sem vandinn er og þá kemst á stöðugleiki. Stöðugleiki felst í skattahækkununum, sagði hann hér áðan. Stöðugleikinn sem er búið að ná felst í skattahækkununum. Gallinn á því að það var þensla var sá að skattar voru ekki hækkaðir nægilega mikið. Sem sagt, skattana á alltaf að hækka. Já, og að ríkisstjórnin hefði hlotið traustsyfirlýsingu hins frjálsa markaðar vegna þess að hún hefði hækkað skattana og væri að hækka þá enn þá og ætlaði að hækka þá meira og mundi hækka þá meira. Það er það eina sem hann segir satt. Það er verið að því á hverjum einasta, einasta degi og verður haldið áfram á meðan þessi

ríkisstjórn er á lífi, að hækka skattana. Alveg sama þótt öll eftirspurn sitji í sama fari og enginn hafi efni á að kaupa nokkurn skapaðan hlut. Samt skal hækka skattana. Vandinn er alltaf, segir hann. Hvort sem eftirspurnin er mikil eða lítil þá er eftirspurnarvandi og hann verður að stöðva og það á að gera með skattahækkunum. Skattahækkanir á skattahækkanir ofan. Hann getur ekki svarað fyrirspurn minni um það hvenær væri hægt að lækka skatta. Hann kann ekki það orð. Það er ekki í orðabókunum sem hann kennir uppi í Háskóla.
    Ríkið á sem sagt að sölsa undir sig allt fé borgara og fyrirtækja. Það er stefna ríkisstjórnarinnar, yfirlýst af hæstv. ráðherra hér í þessum ræðustól að öllum þingmönnum áheyrandi. Væntanlega kemst þetta nú á framfæri til almennings það sem ráðherrann segir hér og blygðast sín ekkert fyrir. Og hann segir svolítið fleira líka. Hann segir: ,,Ef ég er sakaður um það að við höfum ekki staðið við fyrirheitin til verkalýðsfélaga, ef ég er sakaður um það þá tek ég það alvarlega.`` Skildi maðurinn ekki orð hv. þm. Karvels Pálmasonar? Var eitthvert ,,ef`` í hans orðum? Auðvitað var það svikið og það veit hver einasti, einasti maður. Og hann bætir við: ,,Fyrirheitið var um að tryggja kaupmátt þeirra sem lægst hefðu launin. Það hefur tekist. Það hefur gerst.`` Þetta er boðskapur hæstv. fjmrh. til þjóðarinnar við afgreiðslu fjárlaga og lánsfjárlaga, efnahagsstefnu þessarar ríkisstjórnar. Það skal alltaf hækka skattana í það endalausa. Ef við hækkum ekki skattana þá er eftirspurnarvandi á annan hvorn veginn. Sem sagt: Hækkum skatta, hækkum skatta, skerðum kjör og svíkjum öll loforð.