Lánsfjárlög 1990
Þriðjudaginn 31. október 1989


     Karvel Pálmason:
    Virðulegi forseti. Út af því sem hæstv. fjmrh. vék að mínum orðum hér áðan þá held ég að ég hafi ítrekað það strax að ég var ekki að tala um samninga BSRB. Ég var að tala um samninga innan Alþýðusambandsins, almennu samningana innan þeirra vébanda. Þannig að ég vék ekki einu orði að BSRB-samningunum, enda tel ég mig ekki þekkja þá nægilega vel til þess að ræða um þá nema, eins og kannski hv. þm. Halldór Blöndal sagði, nema ég hafi þá hjálparkokka við hliðina og geti fengið mér gögn til slíkra hluta.
    En hæstv. fjmrh. sagði: ,,Það er alvarleg ásökun gegn mér það sem hv. 3. þm. Vestf. sagði um það að ég eða ríkisstjórnin [eins og hann orðaði það] höfum ekki staðið við gefin loforð í samningum.`` Vissulega er þetta alvarleg ásökun, hæstv. ráðherra. Og hún er ekki sett fram án þess að ég hafi íhugað þessi mál. Og hún hefur ekki bara verið sett fram af mér einum. Við skulum sleppa mér út úr dæminu sem einstaklingi. Ég minni á miðstjórnarsamþykkt Alþýðusambands Íslands. Ég minni á þing Verkamannasambands Íslands. Ég minni á þing Alþýðusambands Norðurlands. Ég minni á stjórnarsamþykkt í stjórn Alþýðusambands Vestfjarða. Og ég minni á þing Landssambands verslunarmanna. Öll þessi samtök eru þeirrar skoðunar að það hafi ekki verið staðið við gefin loforð í þeim samningum sem voru gerðir fyrri hluta þessa árs. Og ég segi enn og aftur: Í mínum huga er það svo að hæstv. fjmrh., og raunar ríkisstjórnin öll, hefur ekki staðið við þau fyrirheit sem gefin voru í samningunum 1. maí að því er varðar almennu verkalýðsfélögin.
    Ég tók eftir því að hæstv. ráðherra gerði einvörðungu að umræðuefni niðurgreiðslurnar. En voru ekki fleiri þættir í samningsgjörðinni, hæstv. ráðherra, heldur en bara niðurgreiðsluhliðin? Það voru fleiri efnisþættir í samningsgerðinni sem stjónrvöld gáfu fyrirheit um að þau mundu framkvæma. Hafa þau öll verið framkvæmd? Ég hef þetta ekki við hliðina á mér og mér er næst að óska eftir því að þessari umræðu verði frestað þar til ég get aflað mér þessara gagna þannig að við getum rætt þetta málefnalega, efnislega, hæstv. ráðherra. Ég er ekki hér að fara með neitt fleipur. Ég meina yfirleitt það sem ég segi. Og ég hef þessa skoðun eins og fulltrúar launþegahreyfingarinnar innan Alþýðusambandsins hafa haft. Ég vil því ekki liggja undir því að hér sé ég að fara með rangt mál. Ég vil fá þessi gögn á borðið, hverju var lofað og við hvað hefur verið staðið. ( HBl: Forseti, hann er að biðja um frest.) Já, ég óska gjarnan eftir því. Telji menn sér ekki gerlegt að verða við þeirri ósk þá get ég að sjálfsögðu komið mínum sjónarmiðum á framfæri við 2. umr. þessa máls. ( Fjmrh.: Þú getur gert það undir næsta máli á dagskrá líka.) Nei, það geri ég ekki. ( Fjmrh.: Undir næsta máli. Veistu hvað er næsta mál?) Já, já ég veit það. Það er árið á undan þessu sem nú er. Er það ekki rétt? ( Fjmrh.: Nei, það er árið í ár.) Já, það er árið á undan því sem nú er

verið að ræða. Er það ekki rétt? ( Fjmrh.: Jú. Sem voru samningarnir um árið í ár.) Já, já. En ef menn rengja þessar fullyrðingar sem menn telja ásakanir af minni hálfu þá óska ég eftir því að ég fái tíma til að afla þessara gagna og við förum í gegnum málið lið fyrir lið, hverju var lofað eða hvaða fyrirheit voru gefin, ég geri ekki greinarmun á því hvað eru fyrirheit eða loforð, ég legg það að jöfnu, og við hvað hefur verið staðið.