Lánsfjárlög 1989
Þriðjudaginn 31. október 1989


     Halldór Blöndal:
    Herra forseti. Þetta frv. ber einkennilega að en eftir sem áður er það fróðlegt að því leyti að það lýsir því gjaldþroti sem hæstv. fjmrh. er kominn í í sambandi við sín ríkisfjármál. Hér stendur, með leyfi forseta:
    ,,Fjárlög voru afgreidd með 636 millj. kr. tekjuafgangi. Nú er hins vegar útlit fyrir að gjöld verði um 4,7 milljarðar kr. umfram tekjur.``
    Það þarf ekki að hafa um þetta fleiri orð. Þetta sýnir að ekki er hægt að byggja á núgildandi fjárlögum og eins og færð hafa verið rök fyrir er þannig frá fjárlagafrv. gengið að engar horfur eru á að betur takist til um fjárlög næsta árs.
    Í sambandi við það frv. sem hér var áður til umræðu varpaði ég þeirri fsp. til hæstv. fjmrh. hvernig á því stæði að tekin hefur verið ákvörðun um það í ríkisstjórn að fjmrh. eigi nú að taka 900 millj. kr. lán á þessu ári vegna Atvinnutryggingarsjóðs útflutningsgreina þegar fram kemur í heildaryfirliti yfir innlendar og erlendar lántökur fyrir árið 1990, að innlend lánsfjáröflun til Atvinnutryggingarsjóðs útflutningsgreina muni nema 500 millj. á því ári og 250 millj. í erlendum lántökum eða samtals 750 millj. kr. Eftir þessum upplýsingum að dæma virðist hæstv. fjmrh. ætla að ná sér í 750 millj. kr. aukreitis í þessu skyni á þessu ári til þess að fjármagna halla ríkissjóðs yfir áramótin. Þetta verður að sjálfsögðu tekið upp í fjh.- og viðskn. Það er eftirtektarvert að í lögum um Atvinnutryggingarsjóð útflutningsgreina er gert ráð fyrir því að sjóðurinn fái heimildir til að taka lán hjá Seðlabanka Íslands eða fyrir milligöngu hans, en nú hefur hæstv. fjmrh. skyndilega horfið frá því að hafa þennan hátt á varðandi næsta ár og ætlar nú að endurlána úr ríkissjóði til sjóðsins. Ég tel óeðlilegt að fara þannig að. Ég tel eðlilegt að Atvinnutryggingarsjóði útflutningsgreina verði ákveðnar heimildir með venjulegum hætti og ríkissjóði ekki blandað inn í það mál. Verður auðvitað fróðlegt að fá upplýsingar um það í nefnd hvaða hugsun liggur hér að baki, en það kom ekki fram í ummælum ráðherra. Eftir stendur sem sagt þetta að lánsfjárþörfin er 6 milljarðar umfram það sem gert var ráð fyrir í fjárlögum og það staðfestir að fjárlögin eru hrunin. Þetta er sá einfaldi sannleikur sem blasir við og staðfestur er með þessu frv.
    Ég vék að því áðan að 250 millj. kr. hafa farið til smábátanna. Þessar 100 millj. sem hér er gert ráð fyrir að renni í Byggðasjóð nægja ekki og eins og ég skýrði frá liggur fyrir að Byggðasjóður muni verða að sækja um lánsheimild fyrir 500 millj. kr. á þessu ári af þeim ástæðum sem ég gerði grein fyrir áður og eru í stuttu máli þessar: Erfiðleikar í atvinnurekstri koma víða fram og afborganir af lánum Byggðasjóðs eru miklu slakari en búist hafði verið við á þessu hausti vegna þess að aflaheimildir hafa dregist saman og vegna almennra erfiðleika í sjávarútveginum og í öðrum greinum. Byggðasjóður hefur orðið fyrir verulegu tapi á þessu ári eins og hæstv. fjmrh. er kunnugt og hefur orðið að taka á sig margvísleg

verkefni sem einstakir ráðherrar eða ríkisstjórnin í heild hefur falið sjóðnum þannig að það er óraunhæft að leggja hér til að Byggðasjóður fái einungis 100 millj. kr. lánsheimild á þessu ári.
    Ég hef aflað mér upplýsinga um það hjá forstjóra Byggðastofnunar hvort rétt sé að það hafi gleymst í lánsfjárbeiðni Byggðasjóðs að gera ráð fyrir fé vegna viðgerða og endurbóta á fiskiskipum hér á landi og sagði hann mér að gert hefði verið ráð fyrir þeim fjármunum inni í hinni almennu beiðni Byggðasjóðs. Hitt hefði komið mér mjög mikið á óvart ef það hefði verið látið undir höfuð leggjast. Ég fullyrði að fjárþörfin muni varla verða undir 200 millj. á næsta ári ef útgerð verður rekin með eðlilegum hætti og ef okkur á að takast að halda endurbótum og meiri háttar viðgerðum inni í landinu sjálfu sem er auðvitað mjög þýðingarmikið. Það er laukrétt sem hæstv. fjmrh. sagði hér áðan að við sem áttum sæti í stjórn Slippstöðvarinnar á sl. ári berum ábyrgð á því að farið var út í að að byggja fiskiskip í Slippstöðinni til að komast hjá því að til almenns atvinnuleysis kæmi hjá þessu fyrirtæki á sl. ári. Og það er líka laukrétt hjá hæstv. fjmrh. að erfiðlega hefur gengið að selja skipið þar sem það er án veiðiheimilda þó svo að nokkur markaður sé erlendis fyrir ný fiskiskip. Skýringin á því er m.a. sú að nú liggur fyrir að nauðsynlegt verður að beita frekari aflatakmörkunum á næsta ári en búist hafði verið við fyrir einu ári og er ég þá að tala um frjálsa sókn t.d. í grálúðu og karfa. Það breytir hins vegar ekki því að skipasmíðaiðnaðurinn í heild á við mikinn verkefnaskort að búa og einmitt vegna þess að óhjákvæmilegt reynist e.t.v. að stöðva smíði þessa skips og eins vegna hins að engar horfur eru á því að skynsamlegt megi teljast að hefja byggingu á nýju fiskiskipi í byrjun næsta árs, þá bendir margt til að undirstaða skipasmíðaiðnaðarins sé orðin mjög völt og af því hef ég vissulega miklar og þungar áhyggjur.
    Í sambandi við þetta frv. sem hér liggur fyrir skal ég svo ekki hafa fleiri orð. Það er óhjákvæmilegt í nefndinni í fyrsta lagi að endurmeta þá þörf sem hér er sögð fyrir 900 millj. kr. lántökuheimild vegna Atvinnutryggingarsjóðs útflutningsgreina. Skv. þeim plöggum sem fyrir liggja er hér um mikla ofrausn að ræða, einhvers konar reikningskúnstir sem ég átta mig ekki á. Lánsfjárlög sem samþykkt eru fyrir árið 1989 heimila ekki erlendar lántökur á næsta ári þannig að greinilegt er að hæstv. fjmrh. ætlar að afla þessa fjár í ríkissjóð þegar á þessu ári og skv. lánsfjáráætlun sem fyrir liggur í frv. til lánsfjárlaga fyrir árið 1990 stendur ekki til að skila 750 millj. kr. til Atvinnutryggingarsjóðs útflutningsgreina fyrr en á næsta ári. Þetta staðfestir sem sagt það að forsendur fjárlaganna eru brostnar og þetta ásamt ýmsu öðru er liður í því fyrir hæstv. ráðherra að reyna að bjarga því sem bjargað verður.
    Í ræðu sinni hér áðan vék hæstv. fjmrh. að því að eina leiðin til þess að koma á jöfnuði og stöðugleika í efnahagslífi eins og nú standa sakir hér á landi sé sú að hækka skatta. Hann hrósar sér mjög af því að sú

mikla skattahækkun sem hann hefur nú beitt sér fyrir hefur dregið úr fjárfestingu í atvinnurekstrinum og hrósar sér af því að hafa tekist að koma á jafnvægi á peningamarkaði með þeim hætti að framkvæmdir á vegum fyrirtækja og einkaaðila eru mun minni á þessu ári en gert hafði verið ráð fyrir á síðasta ári. Hann virðist enn fremur hrósa sér af því að takast megi að draga enn úr framkvæmdagleði fyrirtækjanna á því næsta þannig að þessi samdráttur geti haldið áfram. Ég hlýt að láta í ljós undrun yfir þessu. Ég hélt satt að segja að atorka manna mundi beinast að því að reyna að auka framleiðsluna, mundi beinast að því að reyna að styrkja atvinnufyrirtækin í landinu, þegar við nú horfum á það, þriðja árið í röð, að landsframleiðsla dragist saman, minnki. En hæstv. fjmrh. er á öndverðum meið. Hann segir: Núna á að skattleggja. Núna eru þær aðstæður í þjóðfélaginu að rétt er að skattleggja. Það er að vísu rétt að þeim fjölgar sem eru atvinnulausir. Það er að vísu rétt að lífskjörin eru að dragast saman og þess vegna verðum við að skattleggja. Þó sýnir hann engan sparnað í sínu fjárlagafrv., engan sparnað. Það örlar ekki á honum. Samdrátturinn í ríkisútgjöldum er allur tilkominn með því að draga úr nauðsynlegum framlögum til þjóðþrifamála, draga úr fjárfestingu á margvíslegum sviðum þar sem hún er óhjákvæmileg og hefur í raun verið of lítil og meira að segja miðast fjárlögin við það að skera framlög til Lífeyrissjóðs opinberra starfsmanna niður um 500 millj. kr.
    Hæstv. fjmrh. sagði áðan að hann tæki það mjög nærri sér ef við sig væri sagt að hann hefði brugðist vilyrðum sínum og fyrirheitum við aðila vinnumarkaðarins, við opinbera starfsmenn. Nú held ég að engum manni í samninganefnd opinberra starfsmanna hafi dottið það í hug að taka það loforð af hæstv. fjmrh. að framlög til lífeyrissjóðs þeirra yrðu með eðlilegum hætti á næsta ári. Ber þá að skilja ummæli hæstv. fjmrh. svo að ef hann tekur ekki eitthvað beinlínis fram, þá sé honum heimilt að fara allt í kringum þessa litlu setningu sem skrifuð er niður á blað? Það er svo sem kannski hægt að lofa því að dilkakjöt verði greitt jafnmikið niður og áður og kannski mjólk og reyna að halda því eitthvað innan sömu verðlagsmarka og áður. Ég mun athuga hvort þetta sé rétt. Ég hef svo sem enga ástæðu til að efast um að hæstv. fjmrh. hafi farið rétt með þetta. En býst hæstv. fjmrh. við að með því hafi launþegahreyfingin verið að segja að hún sætti sig við það að allt annað hækkaði meir heldur en launin sem fólkið fengi í staðinn?
    Þessi hæstv. ráðherra hefur verið mikill talsmaður þess að taka upp kaupgjaldsvísitölu á nýjan leik og það er yfirlýst stefna ríkisstjórnarinnar ef marka má ummæli hæstv. forsrh. að ekki dugi að vera með vísitölu yfir framfærslukostnað og vísitölu yfir byggingarkostnað og vísitölu sem heitir lánskjaravísitala nema líka sé kaupgjaldsvísitala. Það hefur líka komið fram í viðtölum við forustumenn launþegahreyfingarinnar, bæði hjá opinberum starfsmönnum og hjá aðilum vinnumarkaðarins, að

krafan um verðtryggingu launa verði sett efst á blaðið við næstu samningagerð. Og hvernig skyldi nú á þessu standa nema auðvitað þannig að þessir aðilar hafa rekið sig á að meira og minna loðin ummæli hæstv. fjmrh. og hæstv. forsrh. um það að þeir muni reyna að halda verðlagsþróun í skefjum hafa reynst staðlausir stafir, einskis virði, ekki þess pappírs sem þau voru skrifuð á.
    Fyrirspurn mín, herra forseti, til hæstv. fjmrh. er sem sagt þessi, í fyrsta lagi: Hvaða ástæður liggja til þess að hann leggur til í þessu frv. að fjmrh. endurláni Atvinnutryggingarsjóði útflutningsgreina 900 millj. kr. þegar fyrir liggur samkvæmt lánsfjáryfirliti að 750 millj. af þessum 900 eigi að renna til sjóðsins á næsta ári? Og í öðru lagi: Hvaða ástæður liggja til þess að nú ætli ríkissjóður að endurlána Atvinnutryggingarsjóði útflutningsgreina en lánin eigi ekki að fara í gegnum Seðlabankann eins og gert er ráð fyrir í lögum um efnahagsaðgerðir frá 21. febr. sl.?