Sementsverksmiðja ríkisins
Þriðjudaginn 31. október 1989


     Alexander Stefánsson:
    Herra forseti. Ég get ekki látið hjá líða að gera athugasemd við það að þetta frv. skuli vera flutt í þessu formi ef það liggur ljóslega fyrir, eins og raunar er ástæða til að ætla, að ríkisstjórnin sé með þetta mál á málalista sem hún hyggst leggja fyrir yfirstandandi þing. Eins og kom fram hjá hv. flm. þá mátti skilja það svo að iðnrh. væri með málið í undirbúningi og það þýddi í raun og veru að stjfrv. fengi þá meðferð áður en það væri lagt fram að fyrir því væri öruggur meiri hluti á þingi. Mér finnst þetta vera nokkur fljótfærni hjá hv. flm., sem hefur að sjálfsögðu áhuga fyrir málinu, ég dreg það ekki í efa, þar sem hann sem iðnrh. vann að þessu máli af heilum hug og vildi bæta hér um.
    Hins vegar má segja sem svo að saga þessa fyrirtækis er með einstæðum hætti að því er varðar ríkisfyrirtæki yfirleitt. Þetta fyrirtæki hefur þróast mjög vel og verið til fyrirmyndar með rekstur og afkoma þess slík að ríkissjóður hefur aldrei þurft að grípa þar inn í á einn eða neinn hátt. Það hefur greinilega, eins og væntanlega flestir þingmenn vita, fylgt vel eftir nýjungum, stuðlað að rannsóknum og þróun á ýmsum sviðum og m.a. átt hlut að því að stofnað var sérstakt fyrirtæki til hliðar við reksturinn til þess að taka þátt í slíkum framförum. Þess vegna má segja sem svo að það sé e.t.v. umhugsunarefni hvað kallar á sölu þessa fyrirtækis nú. Hins vegar geri ég mér alveg grein fyrir því að það er ýmislegt í nútímanum sem hefur breyst þannig að það getur verið fullkomlega réttlætanlegt að taka slík fyrirtækjaform í eigu ríkisins til endurskoðunar og jafnvel að breyta þeim í hlutafélög eins og hér er lagt til. Þetta tel ég að þurfi að sjálfsögðu að athuga vel og reyna að komast hjá ýmsum agnúum sem þessu geta fylgt. Ég sé í þessu frv., sem miðað við það sem áður hefur komið fram er búið að færa til betri vegar, ef má orða það svo, ýmislegt sem gerir það ef til vill aðgengilegra að miða við aðstæður í þjóðfélaginu og jafnvel gengur þá nær þeim sjónarmiðum sem heimili og varnarþing þessa fyrirtækis hafa haldið fram.
    Ég ætla ekki að taka efnislega afstöðu til málsins nú á þessari stundu. Það sem fyrst og fremst kom í minn huga þegar ég kom hér inn í salinn, sá að þetta frv. var á dagskrá og heyrði að hæstv. iðnrh. væri ekki viðstaddur, var að mér fannst óeðlilegt að hafa hér uppi efnislega umræðu um þetta mál nema fyrir lægi afstaða ríkisstjórnarinnar, ekki síst með tilliti til þess að ríkisstjórnin hefur boðað framlagningu þessa máls, bæði í stefnuræðu forsrh. og þeim lista sem fylgdi stefnuræðunni um mál og enn fremur það sem kom fram hjá hv. flm. hér fyrr um afstöðu hæstv. iðnrh.
    Ég tel að það væri æskilegast við framgang þessa máls að hægt væri að ná samstöðu um það hér á hv. Alþingi. Ég geri mér grein fyrir því að frv. ríkisstjórnarinnar í þessa veru, miðað við það sem áður hefur komið fram varðandi Sementsverksmiðju ríkisins, gæti leitt til þess að hér yrði um mál að ræða

sem þyrfti ekki að valda ágreiningi. Ég vona enn að svo verði því að um alla slíka efnisbreytingu á fyrirtækjum í eigu ríkisins sem hafa starfað vel og sýnt jákvæðan árangur frá því að þau tóku til starfa þarf að vera samkomulag. Á það vil ég leggja sérstaka áherslu.
    Eins og ég sagði, herra forseti, tel ég ekki ástæðu til að ræða þetta frekar. Ég geymi mér frekari umræðu um þetta mál þangað til afstaða ríkisstjórnarinnar liggur fyrir við þær umræður sem hér munu fara fram í framhaldi þessa fyrri hluta 1. umr.