Lífeyrisréttindi hjóna
Miðvikudaginn 01. nóvember 1989


     Flm. (Guðmundur H. Garðarsson):
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um lífeyrisréttindi hjóna en flm. eru Guðmundur H. Garðarsson og Salome Þorkelsdóttir. Frv. hljóðar sem hér segir, með leyfi forseta:
,,1. gr. Ellilífeyrisréttindi hjóna, sem áunnist hafa meðan á hjónabandi stóð, skulu teljast hjúskapareign þeirra. Við slit á fjárfélagi hjóna við skilnað skulu þau ellilífeyrisréttindi, sem áunnust meðan hjónabandið stóð, skiptast jafnt milli þeirra.
    2. gr. Lög þessi öðlast þegar gildi.``
    Ég þarf ekki, virðulegi forseti, að fara mörgum orðum um efni þessa frv. Það skýrir sig sjálft. En eins og þekkt er, þá háttar nú þannig í sambandi við ellilífeyrisréttindi að þau eru tengd persónu, þ.e. þeirri persónu sem hefur aflað sér tekna og greitt af þeim iðgjald enda þótt önnur eignamyndun eigi sér stað í sambandi við sambúð hjóna varðandi tekjur þeirra. Þessi réttindi hafa
ekki talist sameiginleg hjúskapareign þeirra. Frv. gerir sem sagt ráð fyrir því að áunnum ellilífeyrisréttindum verði skipt við slit hjúskapar. Það má teljast eðlilegt að litið sé á öflun ellilífeyrisréttinda sem eignamyndun sem aðilar hafi báðir stuðlað að með ákveðinni verkaskiptingu.
    Þá verður það að teljast réttlætismál að litið sé á þessa eignamyndun sem sameiginlega eign hjóna. Auk þess hefur þetta þann kost að tekjuöflun hjóna hefur ekki áhrif á myndun ellilífeyrisréttinda, þ.e. það skiptir ekki máli hvernig hjón hafa valið að skipta með sér störfum og tekjuöflun heimilisins á sinni starfsævi.
    Samkvæmt lögum eru allir landsmenn, sem starfa úti á hinum almenna vinnumarkaði, skyldaðir til þess að vera aðilar að lífeyrissjóði. Slík aðild að söfnunarsjóðum lífeyriskerfisins hefur það í för með sér með iðgjaldagreiðslum fólks í sjóðina í áratugi að þar myndast raunverulega mesta eign viðkomandi einstaklinga á langri starfsævi. Þessi eign er skilyrt og felur í sér verðmætan tryggingarrétt að starfsævi lokinni. Það verður því að teljast sjálfsagt og eðlilegt að hjón líti á þennan rétt sem sameiginlegan rétt eins og aðrar eignir.
    Ég vil í framhaldi af því einnig vekja athygli á því að enn hefur ekki verið lagt fram frv. til laga um starfsemi lífeyrissjóða sem svokölluð 17 manna nefnd stóð að samningu á á sínum tíma en innan hennar var svokölluð 8 manna nefnd sem fjallaði einkum um þessi mál. Hvernig sem á því stendur hafa hæstv. fjármálaráðherrar, bæði í núv. ríkisstjórn og fyrri ríkisstjórnum, ekki treyst sér til að leggja þetta frv. fram þrátt fyrir það að aðilar vinnumarkaðarins hafi komið sér saman um ákveðnar tillögur að frv. til laga um starfsemi lífeyrissjóða.
    Í þessu frv. er m.a. að finna ákvæði sem hníga í sömu átt. Ég hef, virðulegi forseti, valið þann kost að koma með þetta hér nú vegna þess að ég er orðinn úrkula vonar um það að heildar frv. til laga um starfsemi lífeyrissjóðanna verði yfirleitt lagt fram.
    Á síðasta þingi, virðulegi forseti, gerði ég

ráðstafanir til þess með fsp. að hæstv. fjmrh. sem nú situr mundi leggja fram frv. en af því varð ekki. Þrátt fyrir góð orð um það að þetta frv. mundi verða lagt fram á yfirstandandi þingi, þá hefur það ekki enn verið lagt fram. Í þessu frv., sem ég títt vísa til, virðulegi forseti, sem er alltaf í skúffu fjmrh., eru ákvæði m.a. eins og ég sagði áðan í þá veru sem þetta frv., sem ég mæli nú fyrir, er í samræmi við. Ég tel mjög brýnt að ýmis ákvæði í því frv. sem ekki hefur fengist lagt fyrir Alþingi komi þegar til meðferðar á hinu háa Alþingi og þetta frv. til laga um lífeyrisréttindi hjóna er eitt þeirra atriða.
    Það er gjörsamlega óviðunandi að maki eigi ekki sama rétt til þeirrar eignar sem lífeyrisréttindi eru við þær aðstæður sem frv. greinir frá. Þess vegna legg ég áherslu á það, virðulegi forseti, að þetta frv. fái þinglega meðferð þar sem vitað er að margir hafa því miður ekki getað komið sér saman um það með hvaða hætti ætti að fjalla um þessi mál og lögaðilar, í þessu tilfelli hjón, eru raunverulega ekki í þeirri réttarstöðu að þau geti ákveðið það sín í milli þrátt fyrir það að þau hefðu vilja til þess. Þess vegna er mjög þýðingarmikið að þessi ákvæði séu sett inn í lög til þess að auðvelda fólki uppskiptingu á þessari eign eins og öðrum eignum. Sá aðilinn sem ekki hefur haft möguleika á að ávinna sér þessi réttindi, ég nefni t.d. eiginkonu í þessu tilfelli sem hefur séð fyrir heimili og börnum í áratugi og lendir í þeirri ógæfu að skilnaður verður, stendur uppi gjörsamlega réttlaus varðandi áunnin ellilífeyrisréttindi sem er náttúrlega algjörlega óviðunandi miðað við --- ég vil segja þau viðhorf og þann rétt sem aðilar eiga að hafa í nútímaþjóðfélagi en eitt af grundvallarréttindum felst auðvitað í því að aðilar séu jafnréttháir hvernig svo sem tekna og réttinda er aflað um ævina.