Flm. (Guðmundur H. Garðarsson):
    Virðulegi forseti. Ég átti ekki von á því að þetta mál sem ég mæli nú fyrir sem og það sem var hér á dagskrá áðan kæmu jafnfljótt til meðferðar hér í deildinni. ( JE: Þetta eru góð mál.) Ég tek undir það sem hv. 8. þm. Reykn. Jóhann Einvarðsson sagði um það að þetta væru svo góð mál að þau þyrftu að fá fljóta afgreiðslu í deildinni. Vænti ég mér þar af leiðandi stuðnings bæði við það frv. sem var hér til umræðu áðan og einnig við það sem ég ætla nú að greina frá og fagna því mjög mikið að jafnágætur maður og hv. þm. er skuli hafa kallað fram í með þessum hætti. Það gefur mér vonir um það að þessi frv. verði afgreidd fljótt og skjótt hér á hinu háa Alþingi.
    En með tilliti til þess, virðulegi forseti, að þessi mál koma hér fyrr á dagskrá en ég átti von á, þá mun ég ekki ræða þetta frv. í jafnlöngu máli og ég hefði óskað eftir, en eins og fyrir liggur hjá þingheimi er hér um að ræða frv. til laga um eignaþátttöku lífeyrissjóða í dvalar- og þjónustuheimilum fyrir aldraða.
    Samkvæmt þessu frv. segir svo, með leyfi forseta, í 1. gr.:
    ,,Stjórnum lífeyrissjóða er heimilt að bæta ákvæði inn í reglugerðir um sjóðina er felur í sér að verja megi allt að 5% af árlegu ráðstöfunarfé til eignaþátttöku í byggingu dvalar- og þjónustuheimila fyrir aldraða sjóðfélaga. Þó skal samanlögð upphæð, sem varið er í þessum tilgangi, eigi vera hærri en sem nemur 4% af heildareignum viðkomandi lífeyrissjóða á hverjum tíma.``
    2. gr. hljóðar sem hér segir:
    ,,Kaupskylda lífeyrissjóða af skuldabréfum húsnæðismálastjórnar skal lækka í sama hlutfalli og lífeyrissjóður hagnýtir sér ákvæði 1. gr. laga þessara.``
    3. gr. hljóðar svo:
    ,,Með reglugerð skal fjmrh. setja nánari ákvæði um framkvæmd þessara mála, sem og með hvaða hætti eftirliti skuli háttað varðandi fjárfestingu og meðferð þeirra eigna sem hér um ræðir. Reglugerðin skal samin í samráði við stjórnir þeirra lífeyrissjóða er hyggjast hagnýta sér heimildarákvæði 1. gr. laga þessara.``
    Með þessu frv. er svohljóðandi grg., með leyfi forseta:
    ,,Eitt af stærstu vandamálum nútímaþjóðfélags er að brúa það bil sem er að verða milli húsnæðisþarfa aldraðra annars vegar, en sá hópur fer sífellt stækkandi, og yngra fólks hins vegar. Leitað hefur verið margra leiða í þessum efnum með misjöfnum árangri. Þó hefur margt verið gert sem er til fyrirmyndar. Þrátt fyrir það hefur ekki tekist sem skyldi að búa nægilega vel að miklum fjölda aldraðs fólks og á næstu árum mun eiga sér stað mikil fjölgun í hópi þeirra sem teljast til ellilífeyrisþega, þ.e. fólks sem er 67 ára og eldra. Þrátt fyrir þátttöku í lífeyrissjóðum eru lífeyrisréttindi margra mjög takmörkuð, m.a. vegna þess að fjöldi lífeyrissjóða

hefur aðeins starfað í 20 ár, þ.e. frá því að samið var um stofnun lífeyrissjóðanna af aðilum vinnumarkaðsins árið 1969. Þeir hófu síðan starfsemi sína 1. jan. 1970 með áfangagreiðslu iðgjalda upp í 10% fyrstu þrjú árin. Þá skorti það inn í reglugerðir sjóðanna að iðgjöld væru greidd af öllum tekjum. Á síðustu árum hafa tekist samningar um það.
    Með þeirri aðferð við uppbyggingu öldrunarheimila, sem þetta frumvarp felur í sér, er bent á nýja leið til að tryggja betur stöðu aldraðra með sameiginlegu átaki og jafnframt felst í framkvæmd þess nokkur uppbót á skertan ellilífeyri`` sem er hjá lífeyrissjóðum atvinnulífsins með tilliti til þeirra atriða sem ég greindi hér frá áðan.
    Ef litið er á ráðstöfunarfé lífeyrissjóðanna árið 1989 er áætlað að það verði um 17,6 milljarðar kr. og að heildareignir lífeyrissjóðanna 31. des. 1988 voru 70 milljarðar kr., þá má búast við að heildareignir í árslok 1989, þ.e. lífeyrissjóða á söfnunarsviði, verði um 90 milljarðar kr. Árið 1990 er áætlað að ráðstöfunarfé lífeyrissjóða, söfnunarsjóðanna, verði 24,1 milljarður kr. Samkvæmt því er ekki óvarlegt að áætla að heildareignir í árslok 1990 verði á bilinu 110--120 milljarðar kr. en út frá þessum tölum geta hv. þm. nokkuð ályktað um hvaða upphæðir er að ræða ef þetta frv. verður samþykkt á hinu háa Alþingi. Ef frv. yrði að lögum, þá gæti það skapað möguleika til fjármögnunar í þágu íbúðamála aldraðra sem hér segir:
    Árið 1989 miðað við 5% eignarþátttöku í íbúðarbyggingum 880 millj. Miðað við áætlað ráðstöfunarfé 1990 24,1 milljarður mundi vera um hugsanlega og mögulega eignaþátttöku á þessu sviði fyrir 1205 millj.
    Ef haft er í huga að í fjárlögum er aðeins gert ráð fyrir 160 millj. kr. í þágu aldraðra, og það er óbreytt upphæð frá árinu 1988 miðað við fjárlög sem giltu árið 1988, þá er hægt að gera sér í hugarlund hvað um er að ræða ef lífeyrissjóðirnir hagnýttu sér þessa heimild svo framarlega sem hið háa Alþingi samþykkir frv. Með þessu kæmist einnig til framkvæmda sú hugsun sem mundi valda algjörri byltingu í því að leysa íbúðaþjónustuvandamál aldraðs fólks sem er það að lífeyrissjóðirnir mundu tryggja það mikið fjármagn að það mætti eiginlega orða það þannig að afskipti og milliganga hins opinbera yrði
óþörf eftir því sem framkvæmd þessara mála færðist í vaxandi mæli í hendur fólksins sjálfs sem eru eignaraðilar að lífeyrisréttindum lífeyrissjóðanna. Ég vil undirstrika þetta atriði sérstaklega. Þar með væri búið að færa þetta nær fólkinu sjálfu sem raunverulega hefur sparað þessa peninga og sem á þennan rétt sem felst í lífeyrisréttindum, það gæti sjálft, samhliða því sem það ákveður hvernig skuli ráðstafa þeim peningum sem eru í lífeyrissjóðunum, tekið afstöðu til þess hvort það vill flýta fyrir þróun í íbúða- og þjónustumálum aldraðs fólks. Því miður eru allt of margir sem enn búa ekki við nægilega góðar aðstæður þegar ellin færist yfir þá. Það eru þúsundir manna sem búa við mjög ófullnægjandi

aðstæður í þeim efnum.
    Ég geri mér grein fyrir því að það eru e.t.v. ekki margir hv. alþm. sem hafa áhuga fyrir þessu vegna þess að hér er verið að fjalla um leið sem er dálítið öðruvísi en þeir hafa fjallað um á undangengnum árum og áratugum. Til þessa hafa hv. alþm. getað treyst á það að í gegnum fjárlög eða önnur afskipti hins opinbera hafi þeir getað svona í stökkum eða millibilum beint fjármagni í þeim tilgangi sem hér um ræðir. En því miður kemur það æ betur í ljós að í þeim efnum ræður hentistefna allt of miklu. Það er ákveðin tækifærisstefna, ákveðin tækifærisafstaða sem allt of margir hv. alþm. hafa tekið til þessara mála og verður að segjast eins og er að því miður virðast þeir helst hafa áhuga fyrir því rétt fyrir kosningar.
    Nú er, virðulegi forseti, ekki um það að ræða að hér sé verið að leggja fram frv. sem eigi að hafa áhrif í sambandi við kosningar heldur er hér um að ræða frv. sem ég held að allir hv. alþm. hljóti að geta sameinast um. Hér er fyrst og fremst um það að ræða að skapa möguleika til þess að þeir sem raunverulega eiga fjármagn geti tekið afstöðu til þess hver á sínum stað í samræmi við reglugerð viðkomandi lífeyrissjóða hvort þeir telji rétt og æskilegt að fara þessa leið.
    Ég geri mér fullkomna grein fyrir því að allt of margir lífeyrissjóðir eru ekki í stakk búnir til þess að hagnýta sér þessa möguleika með tilliti til þess að tryggingarstaða þeirra er ekki nægilega sterk. En það eru til sjóðir sem hafa þá tryggingarstöðu að þeir geta litið til þessa máls með þessum hætti auk þess sem það verður einnig að segjast að í þessari framkvæmd felast ákveðnar tryggingabætur. Að vísu ná þær ekki til hvers einasta sjóðfélaga en hvað sem því líður, þá mundu aðrir sjóðfélagar væntanlega líta á það með jákvæðum huga að það er verið að tryggja stöðu þeirra sem lakast eru settir í viðkomandi sjóðum.
    Nú blasir það einnig við og er fyrirsjáanlegt að í nánustu framtíð muni lífeyrissjóðir sameinast. Í landinu eru 90--100 lífeyrissjóðir og með tilliti til þess að staða margra er veik, þá mundi svona framkvæmd hugsanlega geta tengt saman lífeyrissjóði sem eru veikir og aðra sem eru sterkari, m.a. til að tryggja framkvæmd þessara mála bæði með tilliti til stöðu sjóðanna og einnig með tilliti til þess að í sameinuðu átaki geta þeir náð mun lengra í því efni sem hér um ræðir.
    Ég geri mér grein fyrir því, virðulegi forseti, að það er hugsanlegt að hv. alþm. séu ekki reiðubúnir til þess að fjalla mjög mikið um þetta mál. Það er ekki einfalt út af fyrir sig að taka afstöðu í máli sem þessu. En hér er nú ekki um meira að ræða en það að veita stjórnum lífeyrissjóðanna heimild til eignarþátttöku. Svo er það auðvitað á þeirra valdi hvort þeir hagnýta sér heimildina eða ekki. En ég tel þrátt fyrir það að þetta muni styrkja stöðu þeirra sem vilja efla mjög byggingu dvalar- og þjónustuheimila fyrir aldraða sjóðfélaga og færa þessa framkvæmd yfir á svið sem ég tel að henti vel til viðbótar í því sem gert er af hálfu annarra. Nefni ég þá sérstaklega þau átök sem hafa verið gerð af hálfu félagasamtaka eins

og sjómannasamtakanna í kringum DAS. Þar hefur margt verið mjög vel gert á félagslegum grundvelli og ég hef ástæðu til að halda að það mundi styrkja enn betur m.a. þá uppbyggingu sem sjómannasamtökin standa að á vegum DAS.
    Þá mundi þetta auðvitað einnig framkalla það að sveitarstjórnir hljóti að taka þessi mál upp með öðrum hætti. Þetta skapar sveitarstjórnum allt annan grundvöll og aðra möguleika til að koma inn í þessi mál. Ég nefni sem dæmi að ég er sannfærður um það að Reykjavíkurborg mundi sýna þessu máli mikinn áhuga við breyttar kringumstæður sem þetta frv. mundi örugglega hafa í för með sér. Ég geri mér því vonir um það, virðulegi forseti, að þetta frv. fái skjóta og jákvæða afgreiðslu á hinu háa Alþingi.
    Virðulegi forseti. Að lokum legg ég til að þessu frv. verði að lokinni umræðu hér í deildinni vísað til 2. umr. og fjh.- og viðskn.