Skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði
Miðvikudaginn 01. nóvember 1989


     Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson):
    Virðulegi forseti. Það frv. sem hér er til umræðu fjallar um sérstakan skatt á verslunar- og skrifstofuhúsnæði sem lagður var á í fyrsta sinn árið 1979 og hefur verið lagður á ár hvert síðan. Þetta hefur hins vegar verið gert í hvert sinn með sérstökum lögum sem gilda fyrir eitt ár í senn. Skv. þessari venju er hér enn á ný lagt fram þetta frv. sem hér er til umræðu. Í því er lagt til að skatthlutfallið verði 1,5% af skattstofni. Í endurskoðaðri tekjuáætlun fyrir árið 1989 er áætlað að innheimtar tekjur af þessum skatti verði um 330 millj. kr. Í frv. til fjárlaga fyrir árið 1990 er gert ráð fyrir að tekjur vegna þessa tekjustofns verði um 500 millj. kr. en innheimta rúmar 400 millj. kr. að meðtöldum eftirstöðvum fyrri ára.
    Hér er um að ræða frv. sem þingmenn þekkja mjög vel, enda verið hér til umræðu á yfir tíu þingum með reglubundnum hætti. Ég legg til að því verði að lokinni þessari umr. vísað til hv. fjh.- og viðskn.