Skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði
Miðvikudaginn 01. nóvember 1989


     Þórhildur Þorleifsdóttir:
    Virðulegur forseti. Eins og hæstv. forsrh. gat um þá er í rauninni frv. um skatt á verslunarhúsnæði það mál sem hér er til umræðu en það fer ekki hjá því að einmitt sá skattur veki mann til umhugsunar um hvernig staðið hefur verið að málum varðandi framlagningu frumvarpa hér í þinginu. Ég hygg að það verði enginn sérstakur ágreiningur um þetta frv. né það sem næst er til umræðu, í báðum tilfellum er um að ræða að staðfesta nokkuð sem þegar er í gildi þó í öðru tilfellinu sé um að ræða smá kerfisbreytingu, þ.e. að innheimt skuli mánaðarlega í staðinn fyrir á tveggja mánaða fresti. Og ég á ekki von á að það komi fram nein undir- og yfirboð varðandi þessi tvö frv.
    Hvorugt þessara frv. boðar nokkrar breytingar, hvorki á tekju- eða gjaldaliðum ríkisins né fyrirtækja. Aftur á móti hefur þegar verið boðað að fram undan séu umtalsverðar skattbreytingar og kerfisbreytingar, bæði á tekju- og útgjaldaliðum ríkissjóðs, heimila og fyrirtækja. Verður þá auðvitað fyrstur fyrir virðisaukaskatturinn sem á að taka gildi um næstu áramót. En þar er svo mörgum spurningum ósvarað að það hlýtur að vekja undrun að ekki skuli þegar verið komin fram hér á Alþingi einhver þau lög sem þarf að breyta til þess að hægt sé að taka upp skattinn.
    Nýlega gaf fjmrn. út fréttatilkynningu vegna fyrstu reglugerðanna við lög um virðisaukaskatt. Þar er boðað að það eigi eftir að gera hvorki meira né minna en fjórtán reglugerðir um þau mál sem ekki er ágreiningur um í virðisaukaskattinum. Þessar reglugerðir þurfa auðvitað að liggja fyrir áður en bæði skattheimtan og þeir sem eiga að gjalda þennan skatt hverju sinni geta vitað hvernig farið skuli með framkvæmd skattsins. Auk þess eru boðaðar breytingar á löggjöf um málefni sem ekki er ágreiningur um. Það kann að verða fljótlegt þegar þar að kemur, ekki skal ég spá neinu um það, en síðan eru hér atriði sem ríkisstjórnin og stjórnarflokkarnir þurfa að taka afstöðu til sem fyrst. Þeir virðast ekki hafa gert það enn þá og náttúrlega er vert að benda á að þegar ríkisstjórnin og stjórnarflokkarnir eru búnir að taka afstöðu þá á Alþingi eftir að taka afstöðu. Innifalin í þessum atriðum eru hvorki meira né minna en tvö stærstu ágreiningsmálin um virðisaukaskattinn þegar hann var hér til umræðu á Alþingi: Hvernig framfylgja skal lögunum varðandi virðisaukaskatt á matvöru annars vegar, og einnig virðisaukaskatt á blöð, tímarit, bækur, útvarp og sjónvarp. Það hlýtur öllum að vera í fersku minni að þetta voru tvö helstu ágreiningsatriðin þegar frv. var til umræðu.
    Þegar finnst manni örla á, í kaflanum um matvörur, að verið sé að reyna að finna leiðir út úr því að hafa lægra þrep á matvöru. Þar er útskýrt með flóknu orðalagi hvernig vart sé hægt að koma þessu við og því sé e.t.v. heppilegra að fella þegar liði úr undanþágunum og væntanlega er það þá gert í nafni einföldunar og skilvirkni eins og svo ótalmargt annað sem yfir þjóðina hefur gengið í skattamálum. Sama

gildir svo þegar kemur að hinu stóra ágreiningsmálinu, þ.e. virðisaukaskatti, sem gjarnan hefur verið talað um sem virðisaukaskatt á menningu. Þó nú sé búið að boða það að gerðar verði breytingar sem undanskilji leiksýningar og tónleika, þá eru auðvitað eftir stórmál í virðisaukaskattinum. Það eru færð að því vægast sagt undarleg rök í þessu plaggi að það sé nánast þjóðarnauðsyn að leggja virðisaukaskatt á bækur og sannar nú bara að flest er með þeim hætti að oftast er hægt að finna einhverjar rökfræðilegar leiðir að niðurstöðum. Þó virðist manni bera hæst að kerfið verði að lúta lögmálum og því verði önnur sjónarmið, hvort sem það eru mannleg sjónarmið, menningarleg sjónarmið eða ýmislegt af því tagi sem óhöndlanlegra er, að lúta í lægra haldi fyrir kröfum kerfisins til þess að kerfið sjálft geti verið einfalt og skilvirkt.
    Það eru fleiri stór tíðindi boðuð í fjárlagafrv. og ýmsum fylgiplöggum þess. Þar er t.d. boðað að eignarskattur muni lækkaður. Eru menn þá náttúrlega að bæta fyrir þau mistök sem voru gerð þegar hann var lagður á sl. ár og sem reyndist, þegar til kom, koma miklu verr og óréttlátar niður en menn höfðu ímyndað sér og sýnir e.t.v. hve flaustrið er hættulegt þegar kemur að málum eins og þessum. Sýnir nauðsyn þess að mál séu lögð fram miklu fyrr og því meira áríðandi, þeim mun flóknari sem þau eru, því fyrr þurfa þau að koma fram svo það sé ekki verið að samþykkja hér á hinu háa Alþingi lög sem þarf að taka jafnóðum til baka vegna þess að ekki var séð fyrir endann á því hvernig þau kæmu út.
    En það er jafnframt boðað að til þess að lækka eignarskattinn eigi að leggja á aðrar tekjur, þ.e. að það eigi að skattleggja fjármagnstekjur.
    Nú höfum við kvennalistakonur verið fullkomlega sammála því að skattleggja tekjur af ýmsum eignum með sama hætti og launatekjur og það sé í réttlætisátt að gera það. En það gildir um þessa skattbreytingu eins og aðrar að það má ekki flana að henni, því þetta eru mikilsverðar ákvarðanir.
    Það er ár síðan hæstv. fjmrh. boðaði að hátekjuþrep yrði skoðað, þ.e. annað stig í tekjuskatti. Þetta er enn boðað og við erum engu nær um hvernig á að standa að því eða með hverjum hætti eða við hvaða tekjur skal miðað.
    Við kvennalistakonur höfum heldur lagst gegn því að samþykktur yrði að svo komnu máli skattur á fjármagnstekjur af ýmsu tagi, fyrst og fremst vegna þess að framkvæmdin er flókin og það verður að taka sér betri tíma til undirbúnings ef vel á að fara. En það virðist því miður stefna í það að hér verði á örfáum dögum hlaupið í svo mikilvægar ákvarðanir. Þá hlýtur maður að hugsa til fjárlagafrv. sjálfs, þ.e. forsendna þess, hverjar þær eru og hverjar líkur eru á að þær standist. Það kom auðvitað mjög glöggt fram í fjárlagafrv. sjálfu og ýmsum öðrum plöggum þar að lútandi og einnig kom það vel fram í máli hæstv. forsrh. hér áðan að þar er svo mörgum spurningum ósvarað að í rauninni er ekki hægt að ræða um þetta fjárlagafrv. af neinu viti því forsendur eru meira og minna byggðar á einhverjum staðreyndum sem ekki er

vitað hverjar eru, þ.e. eru byggðar á einhverju staðreyndaleysi.
    Það er nokkurn veginn vitað mál að t.d. launaforsendur standast ekki, ég held það detti ekki nokkrum heilvita manni í hug að ekki komi til einhverra launahækkana á næsta ári. Mjög ólíklegt er að forsendur um verðbólgu standist, eða standist betur nú en t.d. á síðasta ári, og þegar tekjuliðir eru svo óljósir eins og raun ber vitni, hvernig er þá í rauninni hægt að bera fram þetta fjárlagafrv. eða ætlast til þess að fólk ræði það hér? Enda var það náttúrlega helsta innihald þeirra ræðna sem fluttar voru hér í fyrstu fjárlagaumræðunni að bent var aftur og aftur og aftur á hversu forsendur væru slakar og því erfitt í rauninni að ræða það.
    Þó að þessi litli, tiltölulega saklausi skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði sé e.t.v. ekki tilefni svona mikilla ræðuhalda þá er hann þó einmitt gott dæmi um vinnubrögð. Það var varla fyrr búið að hækka þann skatt en menn sáu að sér og lækkuðu hann aftur. Því er hann ágætt dæmi sem hafa má sem víti til varnaðar. Þó að nauðsyn sé auðvitað að staðfesta þennan skatt og næsta frv. sem hér kemur á eftir, þá vildi ég satt að segja óska að fljótt sæju dagsins ljós hér öllu merkilegri og meira áríðandi frv. sem skipta miklu meira máli, bæði fyrir ríkissjóð, fyrirtæki, einstaklinga og heimili.