Klak- og eldisstöð fyrir sjávarfiska
Fimmtudaginn 02. nóvember 1989


     Guðmundur G. Þórarinsson:
    Virðulegi forseti. Aðeins örfá orð í tengslum við þessa fsp. Ég þakka fyrirspyrjanda fyrir að vekja máls á þessu mikilsverða máli hér á þinginu og ráðherra fyrir ágætar upplýsingar og það að hann skýrði okkur frá því mikilvæga starfi sem þarna fer fram á stað nálægt Grindavík.
    Ég vil taka undir með fyrirspyrjanda að það er ákaflega mikilvægt, ekki síst nú þegar menn horfa fram til þess að þorskklak hefur brugðist nokkur undanfarin ár í hafinu við Ísland, að skoða það og hlýtur reyndar að verða framtíðin hvort við getum ekki hjálpað náttúrunni og klakið þorski í stöðvum uppi á landi. Í því sambandi vil ég sérstaklega vekja athygli á því að til þess þarf ekki að auka mikið aðstöðu. Seiðastöðvar eru mjög margar í landinu og með því að bjóða út slík rannsóknarverkefni í tengslum við þá miklu þekkingu sem Norðmenn þegar hafa eða leigja slíkar stöðvar mætti með tiltölulega litlum kostnaði koma af stað verulegu þorskklaki með það fyrir augum að sleppa þorskseiðum og hjálpa náttúrunni og auka þannig seiðagengd kringum landið. Ég hygg að þetta sé verðugt verkefni þegar horft er fram til minnkandi þorskveiða og reyndar minnkandi veiða í hafinu víðast í kringum okkur.